Vísindaráð loftslagsrýnenda í Noregi sneri sér um daginn til Ernu Solberg, forsætisráðherra, og lagði til, að gerð verði grein fyrir afleiðingum þess að skipta í græna orku, með þessum orðum m.a.:
- Hafa ráðstafanir í Noregi yfirleitt nokkur áhrif á þróun hitastigs á jörðinni?
- Hvað kosta loftslagsráðstafanir norðmanna?
- Til hvers leiðir það í náttúrunni, umhverfinu og þjóðfélaginu að virkja vinda og taka í notkun lífræna orku?
- Hvaða áhrif hefur það fyrir fátækar þjóðir, að hætt verði nýta brunaorku?
- Til hvers leiðir það í vestrænum iðnríkjum að hverfa að „grænni orku“ og sömuleiðis fyrir orkuöryggið?
- Eru stjórnvöld viðbúin kaldara loftslagi?
Ráðið, sem er skipað tuttugu mönnum, gerði á 11 síðum grein fyrir viðhorfi sínu til loftslagshugmynda á vegum Sameinuðu þjóðanna. Mennirnir segja blaðamenn ónýta að kynna gagnrýni á þessar hugmyndir. Þeir halda því fram, að það sé blekking, að um hinar opinberu hugmyndir sé samstaða vísindamanna. Þeir kannast ekki við, að hlýnað hafi marktækt, þegar mælt er ofan þess, sem staðbundnar ástæður móta. Þeir halda því fram, að loftslagslíkön hafi ekki ráðið við að skýra breytingar. Þeir sýna, að opinber gögn um loftslagið hafa verið fölsuð. Þeir halda því fram, að hitastigið hafi áhrif á koltvísýringsmagnið, en ekki öfugt. Þá gera þeir grein fyrir breytingum á hafís; þar sé ekki um að ræða hraða rýrnun. Þá halda þeir því fram, að styrkur sólargeisla og breytingar á skýjafari stýri hitafari. Þeir segja beinlínis, að forsætisráðherra, eins og fleiri ráðamenn, sniðgangi vísindalegar staðreyndir í þessum efnum.
Mér vitanlega hefur vísindaráðið ekki áður birt sameiginlegt álit af þessu tagi. Samtökin urðu þannig til, að ýmsir, sem sendu Aftenposten greinar gagnrýnar á samþykktir loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, urðu fyrir því, að blaðið birti þær ekki eða það breytti þeim að höfundi forspurðum. Þeir stofnuðu þá vettvanginn Klimanytt (klimarealistene.com) til að koma máli sínu óbrengluðu til skila.
Eftir að ég kynntist þessum vettvangi, gefst mér vel, þegar Útvarpið eða Morgunblaðið flytja fréttir heimsins um loftslagmál, að bíða nokkra daga til að sjá, hvað norsku loftslagsrýnendurnir hafa að segja. Nýlegt dæmi er fréttin um útrýmingu skordýra; hún reyndist ekki styðjast við merkileg rök. Engu að síður má vel segja mér, að skordýr heimsins séu í hættu, en í þetta sinn var það illa rökstutt.
Morgunblaðinu 25. apríl 2019