Það bar til tíðinda á ráðherrafundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um mánaðamótin maí-júní, að umhverfismál voru þar í fyrsta sinn sérstaklega á dagskrá. Töldu ráðherrarnir fundi sína ákjósanlegan vettvang fyrir umræður um umhverfismál, enda væru þau alþjóðleg í eðli sínu. Þótti þeim brýnt, að aðgerðir í umhverfisvernd yrðu ákveðnar í tengslum við stefnumótun í efnahagsmálum. Oddviti fundarins, Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra, lagði til, að hagþróunarnefnd OECD fjallaði um stefnumótun einstakra aðildarríkja í umhverfismálum í árlegum skýrslum sínum um þróun efnahagsmála, og var þeirri tillögu vel tekið. Frá þessu segir í fréttatilkynningu viðskiptaráðuneytisins.

Þessi stefnumörkun hinna áhrifamestu ríkja heims kann að verða mikilvægari í reynd en margt, sem kemur frá Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra um þau mál.

Óheft viðskipti á grundvelli framboðs og eftirspurnar hefur verið aðalmálið á stefnuskrá OECD, og er svo enn. Nú er hins vegar svo komið, að ríki heimsins eru að undirbúa að taka sameiginlega upp boð og bönn, höft og eftirlit, umhverfinu til verndar á æ fleiri sviðum. Menn gera sér nú æ betur grein fyrir því, að heill mannkyns er teflt í tvísýnu, ef hver fer sínu fram án tillits til umhverfisins. Hitt mundi ekki vera síður til heilla, að ríki heimsins taki sér sjálf fram um efnahagsstjórn, sem leiðir til nýtingar þeirra jarðargæða, sem eru takmörkuð, í þágu mannkynsins alls.

Frá því segir í fréttatilkynningunni, að Jón Sigurðsson hefði bent á að þjóðir eins og íslendingar, sem lifa í nánum tengslum við náttúruna og af gögnum hennar og gæðum, hefðu fyrir löngu gert sér grein fyrir nánu sambandi umhverfis- og efnahagsmála. Mér virðist, að framlag Íslendinga til umheimsins á þessu sviði hljóti fyrst og fremst að verða efnahagsstjórn, sem nýtir eigin auðlindir hyggilega, og ábyrg þátttaka í vel rökstuddum aðgerðum samtaka ríkja til verndar umhverfinu. Hér vildi ég athuga, hvernig efnahagsstjórn íslendinga varðar það tvennt í umhverfismálum, sem helst brennur nú á nálægum löndum og jafnvel öllu mannkyninu.

Ein helsta ógnin er nú talin aukinn koltvísýrlingur í andrúmsloftinu, sem stafar af aukinni notkun brunaorku, en af því leiðir, að hitastigið í heiminum eykst. Búist er við því, að það spilli stórlega ræktunarskilyrðum í þeim löndum, sem nú skila mestri uppskeru, og miklu hraðar en ræktunarskilyrði geti batnað annars staðar. Í búskap hinna frjóu landa Vestur-Evrópu brennur helst á mönnum nítratmengun, sem ógnar grunnvatninu, og er kennt um hóflausri notkun áburðar á akra. Þetta hvorttveggja varðar nokkuð efnahagsstjórn okkar íslendinga.

Vitaskuld munar hvergi mikið um efnahagsstjórn íslendinga á mælikvarða alls heimsins, ekki frekar en hverra annarra 250 þúsund íbúa heimsins. Það dregur því ekki úr ábyrgð okkar, þótt smáir séum. Nýting orkulinda Íslands spillir ekki andrúmsloftinu og er því framlag til að draga úr notkun brunaorku í heiminum. Með útflutningi fisks og hvalkjöts dregur úr þörf fyrir kjöt, sem fæst með ofurnýtingu ræktaðs lands til fóðuröflunar. Full nýting fiskstofna og hvalstofna við Ísland er því framlag íslendinga til að draga úr hættunni á, að akurlendi heimsins verði spillt með óhóflegu álagi til að afla nægs fóðurs. Jarðvegur með grunnvatni sínu er undirstöðuauðlind lífs á jörðinni, sem getur spillst og mengast, en endurnýjast ekki auðveldlega.

Ýmislegt fleira í þjóðarbúskap íslendinga og efnahagsstjórn má skoða í þessu ljósi. Mjólkur- og kjötframleiðsla á eigin fóðri til neyslu innanlands dregur úr eftirspurn eftir afurðum, sem framleiddar eru í öðrum löndum með landgæði að veði, svo sem með hóflausri áburðarnotkun. Sama máli gegnir um ræktun á eigin kolvetnum til manneldis (kartöflum og rófum) og grænmeti. Með kaupum á erlendu fóðri leggjast íslendingar hins vegar á þá sveifina, sem ógnar landgæðum erlendis.

Framlag íslendinga í þessum efnum til umheimsins er því einnig fólgið í ræktun fóðurs og matvæla, sem m.a. má auka með skjólbeltum, og hyggilega rökstuddri beitarstjórn til fóðursparnaðar, og sömuleiðis það að skapa forsendur, sem draga úr hættu á mengun jarðvegs, vatna og sjávar, meðal annars með dreifðri byggð. Fjölbreyttur búskapur við nautgripi, sauðfé og alifiska í hverju héraði er til lengdar heillavænlegastur í þessu tilliti, því að þannig nýtast landgæði best, en umhverfinu kann oft að verða meiri hætta búin í einhæfum héruðum vegna mengandi búskaparhátta.

Morgunblaðinu  22. júlí 1989