Hvað varðar aðra um, hvað við gerum og eigum? Hvað varðar okkur um, hvað aðrir gera og eiga? Þetta er sígilt álitaefni landstjórnar. Í sambandi við bókarefnið má orða það svo: Um hvaða mál á að greiða atkvæði?

Hér á landi eru nokkur dæmi um, að greidd hafi verið atkvæði um reglur um hundahald. Lítum á, hvernig hrepparnir hafa sett reglur um hundahald með tilliti til almenningsálits, til skilnings á:

à rétti minnihluta og meirihluta

à aðferðum við atkvæðagreiðslu

à nágrenni

à því hvernig raðval og sjóðval getur breytt samskiptum fólks.

Sullaveiki lék þjóðina lengi hart og allt fram á 20. öld. Henni veldur bandormur. Hundar hýsa orm-inn. Það er lífsnauðsynlegur áfangi á ævi hans. Þess vegna hverfur hann, þar sem hundlaust er. Á þeim tímum, sem sullaveiki gætti, bjuggu flestir í sveit. Á hverjum bæ var hundur til að verja tún fyrir ágangi búfjár og til að smala búfé í högum. Heilbrigðisyfirvöld tóku til þess ráðs til að útrýma sullaveiki að fá lögboðna hreinsun á ormi úr hundum. Héraðsdýralæknar litu eftir því. Annað ráð var að banna hundahald í þéttbýli. Til þess fengu hrepparnir heimild með lögum árið 1924. Víða var komið á banni.

Þannig tókst að útrýma sullaveikinni að mestu. Þótt bannið héldist, var hundahald víða farið að tíðkast í þéttbýli á áttunda áratug aldarinnar. Heimild var til að sekta fólk fyrir að brjóta bannið. Ef kvartað var til löggæslu um, að hundur væri haldinn, þurfti gjarna húsrannsókn, en heimild til húsrannsóknar fékkst ekki, nema brotið varðaði sekt, sem næmi ákveðinni lágmarksfjárhæð. Fjárhæð sektarinnar fyrir að halda hund var ekki breytt þrátt fyrir verðbólgu. Hins vegar breyttist lágmarks-fjárhæðin í samræmi við verðbólguna. Svo fór loks, að löggæslan gat ekki fengið heimild til hús-rannsóknar vegna kvörtunar um hundahald, þar sem sektin fyrir að halda hund var orðin minni en húsrannsóknarskilyrðið. Þannig var fólki gefinn laus taumur að óvirða bannið. Enn fer hunda-hreinsun fram samkvæmt lögum.

Fólk óttast almennt ekki sullaveiki. Þeir, sem nú vilja ekki leyfa hundahald í þéttbýli, færa gjarna fram sem ástæðu hundaskít á götum og á leikvöllum og hávaða og óþægindi af hundum og auk þess hættuna á hundsbiti. Í Reykjavík er það sjónarmið líklega ríkt, að óeðlilegt sé að hafa hund í borg, því að hundar þurfi svigrúm utanhúss og þjáist í inniveru. Á móti þessu eru þeir, sem hafa ánægju af að halda hund.

Árið 1984 afnam stjórn Reykjavíkurborgar almennt bann við hundahaldi og setti reglur um hundahald og hvernig fólk gæti fengið leyfi til að hafa hund. Í október 1987 var viðhorf reykvíkinga til hundahalds kannað með því að hringja í 500 síma. Af þeim 385, sem svöruðu, tjáðu 302 viðhorf sitt. 197 kváðust vera á móti hundahaldi, 58 vildu leyfa það með skilyrðum, en 47 skilyrðislaust.

 

Borgarstjórn kannaði afstöðu almennings 24.–30. október 1988 með eftirfarandi spurningum:

Viljið þér leyfa hundahald í Reykjavík með þeim skilyrðum, sem gilt hafa síðustu fjögur ár?

 

8 777 svöruðu, 12,8% þeirra sem voru á kjörskrá. 5 279 sögðu nei, 3 459 já.

Af þessu verður ekki ráðið, hvort þeir, sem ekki vildu leyfa hundahald, eins og verið hafði, vildu setja strangari skilyrði eða afnema þau.

Í Kópavogi var afstaða til hundahalds könnuð samhliða kosningu bæjarstjórnar í maí 1982 með eftirfarandi spurningu:

Ertu fylgjandi því að hundahald í Kópavogi verði:

( ) Bannað alfarið

( ) Bannað með sérstökum undantekningarákvæðum

( ) Leyft með ákveðnum skilyrðum

( ) Leyft án sérstakra skilyrða

 

3 342 vildu banna hundahald alfarið, 1 196 vildu banna það með sérstökum undantekningarákvæðum, 1 843 vildu leyfa það með ákveðnum skilyrðum, en 224 vildu leyfa það án sérstakra skilyrða. Alls lýstu 6 605 skoðun sinni, en við kosningu bæjarstjórnar voru gild atkvæði 6 946.—Heilbrigðisnefnd bæjarins hafði lagt til að hafa einfaldari atkvæðaseðil, með já–reit og nei–reit við spurninguna „Vilt þú að hundahald verði leyft í Kópavogi?“

 

Í Hafnarfirði mótuðu bæjarráð og bæjarstjórn eftirfarandi fjóra kosti handa fólki að lýsa stuðningi við:

à Vil leyfa hundahald í Hafnarfirði

à Vil banna hundahald í Hafnarfirði

à Vil leyfa hundahald í Hafnarfirði með ströngum skilyrðum

à Vil banna hundahald í Hafnarfirði með örfáum undantekningum

 

Að svo búnu hafnaði bæjarstjórn tillögu um að leggja málið fram á þennan hátt, en ákvað í stað-inn eftirfarandi spurningu, sem bæjarráð hafði raunar áður hafnað að setja fram:

Hver er afstaða þín til hundahalds í Hafnarfirði:

( ) Á móti hundahaldi

( ) Með hundahaldi

Þátttakendur í skoðanakönnuninni setji x fyrir framan þann valkost sem þeir kjósa.

Greidd voru atkvæði samhliða kosningu bæjarstjórnar í maí 1982. Á móti hundahaldi voru 4 605, með hundahaldi voru 1 258, en auðir seðlar og ógildir voru 347. Alls greiddu atkvæði 6 210, en á kjörskrá voru 7 680. Í kosningu bæjarstjórnar voru greidd atkvæði 6 571. Gild atkvæði voru 6 383, auðir seðlar og ógildir 188.

Í þessum dæmum sýna stjórnvöld tilhneigingu til að kanna skoðun almennings á sem einfaldastan hátt. Í Reykjavík gafst fólki ekki kostur á að sýna, ef það var óánægt með gildandi skilyrði, hvaða skilyrði það vildi heldur. Þegar bæjarstjórn og bæjarráð í Hafnarfirði fjölluðu um málið, voru skoðanir skiptar um það, í hvaða röð kostirnir ættu að standa. Bæjarstjórn breytti röðinni, svo að 4. kostur hjá bæjarráði varð 2. kostur, en að svo búnu hafnaði bæjarstjórn því, eins og komið hefur fram, að bjóða fleiri en tvo kosti.

Sennilega þótti ekki erfitt að túlka niðurstöðuna í Kópavogi, en lítum á, hvað hefði getað gerst með þá kosti, sem fólk tók afstöðu til. Hugsum okkur, að jafnmargir, það er að segja 1 650, hefðu lýst stuðningi við hvern kostanna. Hefðu menn þá talið, að helmingur vildi banna hundahald með sérstökum undanþáguskilyrðum með því að telja þar með alla, sem vildu banna hundahald, og talið sömuleiðis, að helmingur vildi leyfa hundahald með sérstökum skilyrðum með því að telja þar með þá, sem vildu leyfa hundahald skilyrðislaust? Það kynni að hafa verið réttmætt, en vel má líka hugsa sér, að sumir, sem vildu banna hundahald alveg, hefðu talið frjálst hundahald næstbesta kostinn, til að mynda með þeim rökum, að almennt séu heimildir til undanþágu óheppilegar. Ef raðval hefði verið viðhaft, hefðu þeir getað tjáð þá afstöðu, og þá hefði verið vandalaust að taka tillit til þess í atkvæðareikningnum.

<< Til baka