Loft er gjarna sérlega hreint og allt bjartara að líta, þegar komið er út að morgni eftir óveður. Skyldi fjármálaóveðrið hreinsa til í hugsun manna? Þótt fjármálasviptingunum sé ekki lokið og ég hafi ekki hugmynd um, hvernig muni fara, leiði ég hugann að vinnubrögðum, sem við eiga í sæmilegu jafnvægi.

Ekki alls fyrir löngu líkti formaður Samtaka atvinnulífsins vaxtakjörum skuldunauta þannig, að þau væru sem sleggja á atvinnurekstri. Það má vera ljóst, að meginefnið í þeirri sleggju var gert með Kárahnjúkavirkjun og því, sem henni fylgdi. Aðalhagfræðingur Seðlabankans hefur talið uppsveifluna, sem fylgdi, meiri en nokkurt hagkerfi hafi fengið að kljást við. Ráðin, sem beitt var, urðu ekki fullnægjandi, en þau voru nógu sterk til að koma illa við marga. Það gerðist beint og óbeint. Hátt gengi íslensku krónunnar þrengdi að útflytjendum, vextir urðu mikil byrði, þótt aðrir hefðu reyndar hag af, og fé lagt fram til hjúkrunar og lækninga var ekki í hlutfalli við vaxandi þarfir þjóðarinnar.

Brýnt hefur verið fyrir almenningi, að umfram allt verði menn að standa saman. Þegar mikið liggur við, tekst stundum að fá forystumenn samtaka og allan almenning til þess að leggja talsvert á sig í þágu heildarlausnar, en úthaldið vill vanta. Þá reynir á stjórnendur. Það varð ekki séð af fyrirheitum og óskum í sumar, að menn ætluðu að stilla sig betur en gert hafði verið undanfarin ár, heldur var með þeim stefnt í þenslu. Það átti við um óskir um þann atvinnurekstur, sem kallar á atbeina stjórnvalda, og eins kom það fram í fjárlagafrumvarpinu, að ekki ætluðu menn að halda aftur af sér, meðan unnið var að því í sumar og haust.

Málið er að koma á slíku stjórnarfari, að ekki þurfi stórvandræði til að fá hagsmunasamtök og fulltrúa almennings, alþingismenn, til að setja sérþarfir og óskir í samhengi við þarfir heildarinnar og taka tillit til þess, heldur gerist það stöðugt, það sé byggt inn í allt mat. Viðskiptaráð setti fram ósk um þannig áætlunarbúskap, með því að sett yrði útgjaldaþak á hvert ráðuneyti ríkisins til nokkurra ára. Það fékk misjafnar undirtektir. Sumum fannst það ósveigjanlegt, og þá þótti alveg eins ástæða til að setja lágmark á útgjöld.

Sjóðval býr yfir sveigjanleika, sem þörf er á í áætlunum af þessu tagi. Það tengir hverja þá afstöðu, sem menn taka í smáum málum sem stórum, við heildaráhrif. Lýðræðissetrið í Reykjavíkurakademíunni stendur nú í því að kynna alþingismönnum ásamt varaþingmönnum sjóðval. Er stefnt að því að bjóða þeim að taka þátt í því að móta í sjóðvali rammaáætlun um virkjun og vernd og taka á sama hátt afstöðu til fiskveiðistjórnar, og yrði niðurstaðan tiltæk stjórnvöldum, þegar til kasta þeirra kemur um tillögur og ákvarðanir. Þetta tekur sinn tíma. Þá er ætlunin að bæta við sjóðvali um fiskveiðistjórn í Færeyjum. Lýðræðissetrið hefur því verk að vinna og meira en nóg, en aðrir gætu tileinkað sér aðferðina. Vinnubrögðin eru kynnt í ritinu Lýðræði með raðvali og sjóðvali (kaflinn heitir Stórmál).

Það gæti þá verið ráð fyrir samtök atvinnurekenda og launþegasamtök að beita sér fyrir skoðanakönnun með sjóðvali um framkvæmdir og ramma fjárlaga, meðal annars þak og botn á útgjöld, og forsendur næstu ára. Það gæti farið fram í hinum ýmsu samtökum fyrir sig, sem veldu þátttakendur. Það er ekki lakara, að skoðanakönnun fari fram víðar en á einum vettvangi. Með sjóðvali mundu þátttakendur kynna samtímis vilja sinn til að vinna að eigin málum og ábyrgð fyrir heildarhag, þar sem reynir á hófsemi.

Hér er um að ræða veigamikil og varanleg viðfangsefni, þar sem forsendur og mat á þeim breytist, hvenær sem er. Sjóðval er til þess fallið að bregðast við breyttum ástæðum. Sjóðval um þau mál, sem nefnd hafa verið, gæti því verið stöðugt á dagskrá, meðan betri aðferð til að tengja saman afstöðu til sérhagsmuna og heildarhagsmuna hefur ekki verið fundin.

Morgunblaðinu 16. október 2008 29