Undanfarna áratugi hefur verið vaxandi tilhneiging til þess í lögum um rétt manna, að orðalag sé teygjanlegt. Þá ber æ meira á því í dómsforsendum, að valdið (stjórnvald, dómsvald), sem lög lýsa, sé túlkað með tilliti til tíðaranda, hvað sem líður bókstaf laga og fyrri túlkun. Þessa gætir meðal annars í tillögum stjórnlagaráðs 2011. Þannig getur vel heitið: Öllum skal tryggður réttur til að o.s.frv. Með slíku teygjanlegu orðalagi getur orðið margvísleg túlkun á því, hvernig framkvæmt skuli.
Fyrir þessum vinnubrögðum eru höfð göfug orð, sem ekki þarf að gera lítið úr, en slíkt stjórnarfar leiðir til þess, að málflutningur færist úr þingsölum í dómssali. Í þingsölum geta menn haldið fram ýmsu orðalagi laga og fylgt því eftir með tillögum. Í því kemur fram ágreiningur um stjórnarfar, sem laðar til fylgis eða vekur andstöðu, Með teygjanlegu orðalagi er breitt yfir ágreining. Það, sem var stjórnmál (pólitík), verður mál lögfræðinga. Lögfræðingar flytja mál og verja. Svo kveða lögfræðingar upp dóm, og málinu er þá lokið, en ráðamenn eru í skjóli. Þannig stefnir í aukið vald lögfræðinga.
Þessi stefna verður að teljast stjórnmálastefna. Hún hefur ekki fengið nafn, enda ekki víst, að neinn vilji kannast við að eiga hana. Oft hefur verið bent á, hversu margir lögfræðingar sitji á þingi—reyndar misjafnt eftir flokkum. Býsnast sumir yfir því. Þessir lögfræðingar sitja á þingi, af því að þeir hafa verið kosnir til löggjafarvalds. Hins vegar hefur almenningur ekki kosið lögfræðinga dómssala—sækjendur, verjendur og dómara, til að úrskurða, hvað felst í lögum, og getur ekki losað sig við þá í kosningum.
Ekki er víst, að þessi stjórnmálastefna sé úthugsuð af nokkrum, en ég leyfi mér að setja fram hugmynd um, hvað greiðir fyrir henni. Tilfinning almennings fyrir því, hver málstaður stjórnmálaafla er, er orðin dauf. Fyrir stjórnmálamann verður þá lítið að vinna að ljúka máli í ágreiningi, þegar það er svo óljóst, til hverra á að skírskota. Þingmenn kjósa því samkomulag um teygjanlegt orðalag laga í stað þess að láta ágreining koma fram. Þannig verður líka erfitt að skilja, hverjum á að fylgja. Við því bregðast æ fleiri víða um lönd með því að kjósa ekki.
Hér á við að benda á, hvernig gefst betur færi á með raðvali og sjóðvali að tjá ágreining en gerist með hefðbundnum aðferðum. Maður tjáir það í raðvali, hvað maður vill helst, næst helst o.s.frv. og allra síst og getur sem kjörinn fulltrúi útskýrt með vísan til þess aðild að þeirri málamiðlun, sem endanleg lagasamþykkt er. Í sjóðvali kemur fram í atkvæðaboðum, hversu sterklega menn beita sér í máli og fyrir einstökum afbrigðum máls. Kjósendur fá þá fram, hvers virði fylgið er. Menn sjá, hvað er á seyði, þegar lög eru mótuð með raðvali og sjóðvali. Þannig skilst, að raðval og sjóðval eru ekki aðeins rökvísar aðferðir, heldur vinnubrögð, sem geta örvað til þátttöku í stjórnmálum.
Morgunblaðinu, 10. desember 2012