Fyrir níu áratugum þótti það snilld að stýra bíl á milli landshluta. Nú þarf engan snilling til þess. Þetta er að þakka heimfærðri eðlisfræði við vegagerð og bílasmíði. Framfarirnar hafa orðið hægt og sígandi. Enginn sá árangurinn fyrir. Vissulega hefur eðlisfræðinni farið fram. Öðru máli gegnir um hagfræði. Á vettvangi hagstjórnar eru menn á því frumstigi, þegar gera skal heildarkjarasamninga, sem hald er í, að horfa til snilldar. Snillingar sjást ekki, en úrlausnarefnið er hversdagslegt. Í hagfræði undanfarinna 90 ára í höndum hundraða háskólakennara hér á landi finnast ekki ráð, sem gera þetta hversdagslega viðfangsefni viðráðanlegt venjulegu fólki, þ.e.a.s. stofustjórum stjórnvalda og aðilum vinnumarkaðarins, líkt og bílferðir um landið urðu viðráðanlegar venjulegu fólki með heimfærðri eðlisfræði.
Það stendur ekki á stjórnmálamönnum að leita ráða hagfræðinga. Ríkisstjórn nokkur kvaddi til starfa hagfræðing, í efnahagsöngþveiti eins og gengur. Eftir nokkur kynni kvað forsætisráðherra upp úr með það, að það væri ekki hægt að nota þennan mann, hann bara prédikaði. Vitaskuld vantaði tiltæk ráð, ekki ræður. Tiltæk eru þau ráð, sem leiða stjórn og þjóð til niðurstöðu, sem heldur. Niðurstaðan heldur því betur sem fleiri eiga í henni og finna þar með til ábyrgðar fyrir henni og sjá ekki ávinning í því að snúast gegn henni.
Eitt megineinkenni við gerð almennra kjarasamninga er, að aðilar vinnumarkaðarins vísa máli sínu undir stjórnvöld. Menn kunna að óska þess, að þeir semdu á eigin býti um skiptingu tekna fyrirtækjanna milli eigenda og starfsmanna, en stjórnvöld, sem lúta kjörnum fulltrúum, láti það afskiptalaust, og að aðilar vinnumarkaðarins láti nægja að tjá sig um mál stjórnvalda, en setji þeim ekki skilyrði fyrir eigin málum. Þá óskastöðu þýðir ekki að hugsa um, heldur verður haldbær lausn að rísa á þeim forsendum, að slík afskiptasemi haldi áfram.
Með sjóðvali verður niðurstaða haldbær. Það er þannig vaxið, að til lengdar litið eiga allir eitthvað í niðurstöðunni—hér er um að ræða þjóðarsátt, sem er stöðugt til endurnýjunar—og eru því ábyrgir fyrir verkinu. Um mótun niðurstöðu í sjóðvali má lesa í Lýðræði með raðvali og sjóðvali, svo sem við gerð fjárlaga og fjárhagsáætlunar yfirleitt, samgönguáætlunar, skipulags og skólaskipunar, og þar með má sjá fyrir sér þjóðfélagið allt, Við sjóðval þarf enga snilld, heldur almenna skynsemi, en vinnubrögðin við það hljóta að þroskast við reynslu.
Afskipti af kjarasamningum og forsendur þeirra—Sjóðval
Í kjarasamningum tíðkast að miða ekki einungis við greiðslugetu þess atvinnurekstrar, sem samið er fyrir. Í sögunni eru fræg verkföll við verksmiðjur, sem gátu greitt vel, en vitað var, að aðrir, sem ekki áttu við jafnsterk fyrirtæki að semja, mundu skírskota til slíkra kjarasamninga. Opinberir starfsmenn eiga til að miða kjaraákvæði sín við kjör hjá fyrirtækjum, sem verða að standa undir sér. Alþýðusambandið lætur sér ekki nægja að fjalla um greiðslugetu fyrirtækja, sem ASÍ-félagar vinna hjá, heldur skiptir sér af ákvörðunum um kjör opinberra starfsmanna. Aðilar vinnumarkaðarins setja hinu opinbera skilyrði um hagstjórn. Kjaramálin eru því orðin opinber, hvort sem menn vinna hjá hinu opinbera eða annars staðar. Öll þessi togstreita er samt óljós um það, hver ræður hverju og hver ræður með réttu eða röngu.
Með því að fjalla um kjaramál í sjóðvali, á opinberum vettvangi, kemur fram, hverju menn vilja fórna í atkvæðum til að móta allt þetta svið. Slíkt sjóðval þarf ekki að vera ákvarðandi, heldur til leiðsagnar. Ekki verður séð, að aðrir ættu að fá úthlutað atkvæðum en þjóðkjörnir. Í Lýðræði með raðvali og sjóðvali kemur fram, að sjóðvali má haga svo, að þeir, sem fá úthlutað atkvæðum, geta veitt öðrum (svo sem stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda) umboð til að ákveða atkvæðaboð úr sjóði þeirra. Þannig breikkar ábyrgðin. Sjóðval um þessi mál hlýtur að standa stöðugt. Þar gefst kostur að tengja umfjöllun hvers kjaraatriðis með tillögum og atkvæðaboðum við áhrifin á heildina, svo sem verðlag, afkomu fyrirtækja, gengismál og efnahag ríkis og hreppa. Afstaða í hinum hversdagslega metingi starfsstétta yrði þannig stöðugt með horfi til atriða þjóðarhags. Ef hirt er nokkuð um niðurstöður sjóðvalsins, ættu ekki að verða til hnútar og öngþveiti, heldur yrði stöðugt unnið í smámálum. Svo er einmitt í hinni fjölbreyttu efnahagsstarfsemi, þar sem ábyrgðin er skýr við kaup, sölu, framkvæmdir og lántöku, og varla nokkur ákvörðun er mikils háttar fyrir heildina; ótal smá mál knýja efnahagsstarfsemin áfram.
Það samráð og metingur, sem nú stendur stöðugt, færist þannig undir aga sjóðvals. Þetta er róttækt, en samráð krefst ekki breytts stjórnarfars. Aðilar vinnumarkaðsins halda forræði sínu við samningsgerð hver á sínu sviði. Ræðusnilld þarf ekki frekar en við vegagerð og bílasmíði, og stjórnsnilld er óþörf.
Morgunblaðinu 13. febrúar 2013