Virkni sólar hefur sveiflast verulega undanfarnar árþúsundir. Síðast var sólin verulega dauf fyrir fjórum öldum. Af því leiddi litla ísöld í Evrópu 1645-1715, en hún dró á eftir sér kulda í ein 150 ár. Hér norður við heimskautsbaug mundu tímamörkin hafa verið önnur. Þekkt er mynd, sem endurspeglar litlu ísöld, af ísi lagðri Lundúnaánni Thames frá síðari hluta 17. aldar. Menn hafa spurt sig, hvers vegna stefndi þá um síðir í aðra átt, til hlýnunar, en ekki til eiginlegrar ísaldar, eins og ef til vill var stutt í. Þess hefur verið getið til, að þegar á 18. öld hafi gætt hlýnunar loftslags vegna kolabruna og það ráðið viðsnúningnum.

            Nú segja sólfræðingar, að sveiflan í sólvirkninni sé niður á við og að geislar sólar hafi dvínað undanfarin ár. Þeir kunna ekki að svara því, hvort geti farið í sama far og á 17. öld, telja kólnunina geta orðið allt að því eins mikla, en minnst verði kólnun, sem svarar til þeirrar hlýnunar, sem maðurinn kann að hafa valdið með umsvifum sínum undanfarnar tvær aldir. Samkvæmt þessu gætu umsvif mannsins haldið aftur af kólnun loftslags.

            Þetta er þvert á það, sem Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) ályktuðu um í París í desember 2015 og gerðu loftslagssamning um. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, sagði um daginn í Hörpu, þegar norðurskautsmál voru þar til umræðu, að allar raddir, sem héldu öðru fram en ályktað hefði verið í París, hefðu þagnað. Þá heyrir hann ekki vel.

            Menn athugi, að loftslagssamningurinn í París skuldbindur þjóðir heims um tvennt, en aðeins tvennt, að koma saman árlega og ræða málið og að kynna hver fyrir sig eigin fyrirætlun um aðgerðir í þágu þess, að loftslag hlýni ekki af mannavöldum, heldur dragi úr hlýnun, og endurnýja fyrirætlanir sínar á nokkurra ára fresti. Ríkin eru hins vegar ekki skuldbundin til að standa við fyrirætlanir sínar. Kínverjar, sem taka í notkun 2000 kolanámur á þessu ári og hafa staðfest samninginn, mega samningsins vegna taka í notkun 2000 námur á næsta ári og 2000 á þarnæsta ári o.s.frv. Indverjar eru stórtækari í þessu en kínverjar. Það eru engin samningssvik, þó að þessi ríki haldi þannig sínu striki. Loftslagssamningurinn er þannig máttlaus gagnvart milljarðaríkjunum. Samningurinn þarf heldur ekki að tefja það, að heimurinn snúi við blaðinu, ef geislar sólar haldast áfram í daufara lagi og dofna meira.

Morgunblaðinu 2. nóvember 2016: 20