Ferðafélag Íslands fór í haust í þriðju ferðina í fótspor Konrads Maurers samkvæmt bók hans um Íslandsferð hans 1858. Ferðasöguhandritið týndist, en fannst fyrir ekki löngu. Sagan kom nýlega út á íslensku. Jóhann J. Ólafsson stendur á bak við ferðirnar. Maurer, þýskur fræðimaður, varð fyrstur útlendinga til að fara um landið óháður túlkum, hafði lært íslensku hjá Konráð Gíslasyni í Höfn fyrir ferðina. Farið var til Þingvalla, að vígðu laug á Laugarvatni og í Haukadal. Leiðsögumaðurinn minntist á það hvað eftir annað, að erfitt væri um leiðsögn vegna trjágróðurs, sem lokaði sýn á staði í Tungunum og reyndar líka í Laugardal, því að þá sýn, sem Ásgrímur Jónsson hafði á Heklu, þegar hann málaði fræga mynd, gefur þar varla lengur nema uppi í hlíð. Síðan var komið í Skálholt, þar sem drukkið var ketilkaffi, eins og tíðkaðist, þegar Maurer var á ferð, svo að Hraungerði í Flóa og endað í Kaldaðarnesi, en þangað kom Maurer reyndar frá Arnarbæli með ferju yfir Ölfusá.    

            Í Kaldaðarnesi er víðsýnt. Þar voru gróðursettar aspir um árið. Þær uxu vel. Þegar þær tóku að takmarka útsýni, voru þær höggnar. Síðan er gætt að því þar, að tré takmarki ekki sýn. Þar er nú varla nokkurt tré. Svo gæti farið innan tíðar, að sagt verði um Kaldaðarnes til aðgreiningar frá öðrum bæjum í Árnessýslu: Þar sést af hlaðinu til Heklu.

Morgunblaðinu 26. október 2016