Kúabúið á Korpúlfsstöðum var stærsta kúabú á Norðurlöndum um 1930, byggt upp fyrir fé, sem útgerð Kveldúlfs hafði aflað. Búið stóð aldrei undir sér, sú var niðurstaða rannsóknar á vegum Háskóla Íslands. Síðar hafa ýmsir lagt fé í stórbúskap með misjöfnum árangri. Nýjasta dæmið er útgerðin Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði, sem þar, á Mýrum, á stærsta kúabú landsins.

Þegar bankarnir bjuggu til ósköp af peningum fyrir um áratug, margfalt það, sem svaraði til innstæðna, buðu þeir kúabændum óspart lánsfé, til að þeir gætu aukið framleiðsluna með tæknilega fullkomnasta mjaltabúnaði. Ráðgjafi um kúabúskap í Danmörku, Snorri Sigurðsson, sem áður vann hjá Landssambandi kúabænda, gerir grein fyrir mjólkurframleiðslu í Danmörku í nýlegu Bændablaði. Hann vísar til athugana á því, hvaða búnaður við að koma mjólkinni úr júgra í mjólkurtank er dýrastur. Það er með mestri tækni. Í samræmi við það fréttist, að bændur erlendis losi sig við mjaltara og taki í þeirra stað í notkun mjaltagryfjur.

Mjaltagryfjur eru af ýmsu tagi. Bóndi, sem lengi hefur haft slíkt fyrirkomulag, segir, að því, sem hann spari í vexti og afborganir miðað við mjaltara, geti hann varið til að kosta mann til afleysinga og sett hann að auki til annarra verka milli mjalta. En hér á landi eru mjaltarar sú tækni, sem sækir á, með bankafé.

Ýmsir vilja leika sér að búskap í huganum. Frægt varð upp úr 1960, þegar Framkvæmdabanki ríkisins setti fé í andabú í Álfsnesi á Kjalarnesi. Slíkt var opinbert mál og mátti því ræða. Nú geta bankamenn með leynd sett fé í bú; það eru peningar, sem bankarnir búa til úr engu. Svínabú hafa risið fyrir slíkt fé. Þegar þau standa illa, hefur bankinn fært niður skuldir búsins, og það heldur áfram framleiðslu. Ég veit um bónda, sem lengi hefur búið við svín, að fyrirferð það, sem fjölskyldan hefur ráðið við, en hefur sætt verðlagi á afurðum, sem mótast af stórfelldri niðurfærslu skulda bankasvínabúskapar.

Ráðherra landbúnaðarmála vill hafa búvörusamning ríkis og bænda þannig, að samið verði um kjör allra búgreina í einu í stað samnings vegna hverrar greinar fyrir sig, eins og verið hefur. Með því móti gefst færi til að meta í heild og stuðla að því, sem menn vilja ætla landbúnaðinum.

Kúabúið á Korpúlfsstöðum var almennt vel metið, til að mynda gerði félagsskapur bænda, Búnaðarfélag Íslands, Thor Jensen, sem kom búinu upp, að heiðursfélaga. Þá þótti mikils um vert að rækta land og tryggja vaxandi mannfjölda í útgerðarstaðnum Reykjavík mjólk. Okkar tími hefur sín markmið, sem reyndar eru ekki á eina lund. Almennur búvörusamningur með markmið samtímans gæti orðið fánýtur, meðan bankarnir hafa tækifæri til að búa til peninga úr engu og setja þá í búrekstur með leyndum kjörum eftir höfði bankamanna óháð almennum markmiðum eða í andstöðu við þau.

Morgunblaðinu 14. maí 2015: 20