Í blaðinu 30. f.m. er það sagt frá morgunverðarfundi Verslunarráðs, að nauðsynlegt sé „að afnema ríkisverndaða einokun á útflutningi“ og þá m.a. að breyta þeirri einokun sem Síldarútvegsnefnd hefði samkvæmt lögum.

Í íslensku máli eru tvö hugtök um það, sem víða kallast monopol. Annað er einkasala og hitt er einokun, og á það við, þegar því er haldið fram, að einkasöluaðstaða sé ok. Líklegt er, að rússum hafi þótt Síldarútvegsnefnd hafa okað sig með einkasöluaðstöðu sinni, en illa trúi ég því, að þeir ráði viðhorfum ræðumanna á fundi Verslunarráðs. Mér þykir líklegra, að blaðamanni eða ræðumönnum hafi skjöplast í orðavali, og minni því á, að einkasala er hlutlaust orð í þessu efni.

Morgunblaðinu (Velvakandi), 2. nóvember 1991 (leiðrétting 6. s.m.)