Hefurðu farið eitthvað? spurði ég kunningja minn. Hvað meinarðu, í fjallaloftið? Jú, það er það, sem sameinar okkur, áhugi á slíkum ferðum. Hann hafði þá reyndar farið nýlega með ferðafélagi daglanga göngu niður með miklu árgljúfri og niður í byggð. Ég vildi heyra meira og minntist með ánægju göngu sömu leið fyrir allmörgum árum. Þessi ganga var ekki eins ánægjuleg. Þarna voru strunsarar, sagði hann. Ég hafði ekki heyrt orðið. Í upphafi sammæltust menn um að njóta ferðarinnar með því að halda hópinn, æja og líta niður í gljúfrið. Þegar til kom strunsuðu samt allmargir, voru á kappgöngu, og teygðist mjög úr hópnum. Þarf ekki að lýsa því, hvernig andinn í ferðinni verður þá. Svona eru íslendingar, sagði kunninginn og fannst ekki meira um það að segja. Það getur verið, að íslendingar séu svona, en þeir voru ekki alveg svona. Reyndar hefur viljað brenna við í gönguferðum, þegar áð er, að hópurinn rís á fætur til að halda áfram um það bil, sem sá síðasti er nýsestur, þótt ekki séu strunsarar með. Það er eins og strunsararnir séu í ræktinni. Í þetta sinn gafst einn upp. Björgunarsveit sótti hann, og þurfti að bíða eftir honum í klukkutíma á bensínstöð.
Eitt sinn þurfti ég að dveljast nokkra mánuði í Stokkhólmi vegna vinnu. Í dagblöðunum þar var tilkynnt um gönguferðir um skógana á sunnudagsmorgnum. Þær stóðu fram eftir degi. Ég fór nokkrum sinnum. Þær voru vel skipulagðar fyrir ókunnuga. Fararstjóri gerði í upphafi grein fyrir því, sem til stóð, og hélt það, og enginn var látinn heltast úr lestinni. Fararstjórar þurftu ekki að stríða við strunsara.
Ég finn til með stillta göngufólkinu og fararstjórum, sem þurfa að eiga við strunsara, og því skrifa ég þetta.
Morgunblaðinu 9. september 2011 (Velvakandi)