Stundum hefur ráðandi mönnum verið þóknanlegt að leggja mál fyrir almenning, en stundum hefur þeim þótt allt öfugt við það. Tillögur um grundvallarbreytingar á stöðu landsins hafa nokkrum sinnum verið lagðar fyrir almenning. Þær voru felldar 1908 — það var svokallað uppkast. Þær voru samþykktar 1918 — um stofnun fullvalda ríkis — og 1944 — um stofnun lýðveldis. Í þessi skipti þótti ráðamönnum rétt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Öðru máli gegndi síðastliðinn vetur. Þá höfnuðu ráðamenn því að bera EES-málið undir þjóðina þrátt fyrir ótvíræðan vilja almennings.

Danir komu þeirri skipan á fyrir 40 árum, að þriðjungur þingsins getur ákveðið þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög. Atkvæðagreiðslan skal fara fram innan fárra vikna frá samþykkt laganna. Þannig nýtast umræður á þingi sem upphaf að tiltölulega stuttri kosningabaráttu.

Þessari skipan var komið á í Danmörku, þegar deildaskipting þingsins var afnumin. Áður hafði verið kosið með ólíkum hætti til tveggja deilda þingsins. Það vakti fyrir mönnum með henni að koma í veg fyrir, að naumur meiri hluti hins sameinaða þings gæti með ofríki gert veigamiklar breytingar gegn vilja almennings.

Upphaflega gætti ótta um, að minnihlutinn kynni að beita þessu ákvæði í tíma og ótíma. Sú hefur ekki orðið raunin. Minnihlutinn hefur aðeins einu sinni stofnað til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsett lög. (Þau voru felld). Hvers vegna skyldi minnihlutinn ekki hafa hagnýtt þessa heimild oftar? Það er vitaskuld erfitt að geta sér til um, hvernig menn hafa hugsað það, sem þeir gerðu ekki. Er ekki líklegt, að með þessari heimild minnihlutans telji meirihlutinn hyggilegt að forðast að knýja fram mál, sem mæta sterkri andstöðu meðal almennings, og leggi sig frekar fram um að móta mál þannig, að ekki sé hætta á viðbrögðum, sem leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu og hann gæti tapað. Skyldi skýringarinnar ekki líka vera að leita í því, að minnihlutinn má búast við álitshnekki, ef hann stofnar til slíkrar atkvæðagreiðslu, án þess að búast megi við, að þjóðin felli lögin úr gildi.

Hér hafa iðulega komið upp mál, þar sem minnihluti á þingi eða í borgarstjórn hefur gert tillögu um almenna atkvæðagreiðslu, en meirihlutinn hafnað henni. Menn hafa stundum rengt einlægni minnihlutans og haldið því fram, að hann hefði ekki viljað slíka atkvæðagreiðslu, ef hann hefði verið í meirihluta. Stundum hefur verið vísað til dæma um, að minnihlutamenn hafi við önnur tækifæri verið á móti almennri atkvæðagreiðslu um mál. Með þessu ákvæði er minnihlutinn gerður ábyrgur, þar sem afstaða hans getur ráðið.

Almenn regla í stjórnarskránni um rétt þriðjungs þingmanna til að vísa nýsamþykktum lögum til þjóðaratkvæðis mundi bæta lýðræðisandann í landinu. Jafnframt mætti setja það ákvæði í samþykktir borgarstjórnar og annarra sveitarstjórna, að þriðjungur sveitarstjórnar geti vísað máli til atkvæðagreiðslu meðal almennings. Slíkt almennt ákvæði í stjórnarskrá og samþykktum sveitarstjórnar kæmi í veg fyrir ofríki meirihluta fulltrúa, sem gæti ætlað sér að láta almenning standa frammi fyrir málinu við næstu kosningar sem orðnum hlut, þótt andstaðan hafi upphaflega verið almenn, og komast þannig framhjá almenningsálitinu.

Atkvæðagreiðsla, þar sem niðurstaða er bindandi, er allt annars eðlis en skoðanakönnun eða söfnun undirskrifta undir álit. Vissulega kæmi til mála, eins og nú er gert um tillögur um sameiningu sveitarfélaga, að afmarka þá, sem atkvæði mega greiða, við þá, sem málið telst varða sérstaklega. Stundum gerist það einfaldlega með því, að hinir sinna því ekki og koma ekki á kjörstað.

Tímanum 12. og Degi 21. október 1993