Eftir að fiskislóðir við Ísland komust undir full yfirráð landsmanna á 8. áratug 20. aldar, tóku þeir að stjórna veiðum með takmörkunum í sókn. Takmarkanirnar voru mismunandi eftir gerð skipa og eftir árstíðum. Þá lögðu stjórnvöld fram fé til úreldingar fiskiskipa, þar sem skipastóllinn var talinn óhæfilega stór. Árið 1984 var tekin upp aflamarksstjórn á þorski sem aðalregla í stað sóknarstjórnar, og skömmtuðu þá stjórnvöld þorskaflaheimildir. Skammtarnir voru í hlutfalli við afla skipanna undanfarið. Þeir voru bundnir við skip, svo að sá, sem vildi auka þorskaflaheimild sína, gat það aðeins með því að kaupa skip með aflaheimild. Síðar var leyft að framselja heimildirnar, án þess að skipið fylgdi. Sams konar fyrirkomulag hefur síðan verið tekið upp við æ fleiri botnfiskstegundir. — Þótt aflamarksstjórn væri tekin upp sem aðalregla, gilti lengi, að hluti flotans átti kost á því að gera út undir sóknarstjórn; að aflamagni var það lítill hluti. Þá er sókn stöðugt stýrt með ákvæðum um möskvastærð og með tímabundinni friðun svæða.

Í Færeyjum var aflastjórn viðhöfð um nokkurra ára skeið, en frá henni var horfið 1996 og tekin upp sóknarstjórn við veiðar á botnfiski. Úthlutað er sóknardögum, sem má framselja. Skip eru flokkuð og flokkunum valin veiðisvæði. Breytingar hafa síðar verið gerðar á stjórninni.

Báðar aðferðirnar eru umdeildar. Við aflamarksstjórn á þorski, svo að dæmi sé tekið, er fundið að því, að skip, sem hefur heimild til ákveðins þorskafla, fær gjarna annan fisk, sem því er ekki heimilt að veiða. Jafnvel þó að skipið hefði heimild til að veiða fleiri en eina tegund, truflar það veiðiskapinn, að aflinn getur orðið í allt öðrum hlutföllum en aflamark tegundanna er hjá útgerðinni. Hér verður ekki bent á lausn á slíkum vandkvæðum. Við sóknarstjórn eru álitaefni mörg um flokkun skipa, mörk veiðisvæða hinna einstöku flokka eða veiðisvæði eftir veiðarfærum. Þau má útkljá með sjóðvali, þar sem þátttakendur sýna með atkvæðum, sem þeir veðja, hversu mikils þeir meta breytingar á flokkum og svæðum eða frávik, sem leitað er eftir.

Við báðar aðferðirnar, aflamarksstjórn og sóknarstjórn, kemur til greina að setja verð á heimildir, annars vegar til aflamarks og hins vegar til sóknardaga, sem annaðhvort yrði útreiknað eftir sérstökum reglum eða samkvæmt tilboði útgerðanna. Eðlilegt er, að um það sé ágreiningur. Hann má útkljá með sjóðvali.

Það er stórmál að hverfa í einu vetfangi frá sóknarstjórn til aflamarksstjórnar eða frá aflamarksstjórn til sóknarstjórnar. Með sjóðvali gæti það gerst þannig, að sett er fram hugmynd um heildarlausn, en hlutaðeigendum gefinn kostur á að gera tillögur til breytingar. Þær má bera upp á sama hátt og við gerð fjárhagsáætlunar, eins og lýst er hér að framan. Þá er einnig hugsanlegt að gera breytinguna í áföngum, en ekki er víst, að það sé viðráðanlegra.

Hverjir eiga að vera í sjóðvali um stjórn á nýtingu fiskislóða?

Hverjir eiga að standa að slíku sjóðvali? Afstaða manna í þessum efnum er ekki strangt bundin stjórnmálaflokkum. Fyrsta kastið væri óráðlegt að láta sjóðval vera meira en til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld. Þá kæmi til greina, að sjóðval færi fram á vegum sjávarútvegsnefndar Alþingis. Nefndarmenn gætu haft atkvæðisrétt. Nefndin gæti auk þess kvatt aðra til þátttöku á sama hátt og tíðkast, að þingnefndir leiti álits á málum. Einnig kæmi til greina, að hrepparnirí landinu fjölluðu um málin og fengju úthlutað sjóðsatkvæðum í hlutfalli við vægi sjávarútvegs og fiskvinnslu, og gæti mælikvarðinn þá verið fjöldi vinnuvikna í þessum tveimur atvinnugreinum. Hagstofan telur vinnuvikurnar, en framkvæmdin gæti verið í höndum Fiskifélagsins.

<< Til baka