Lokið er talningu atkvæða í Alþingiskosningum í apríl 2013. Hátt á annað hundrað þúsund sóttu kjörfund. 120.000 greiddu atkvæði flokkum, sem vilja, að Ísland sé ekki í Evrópusambandinu. Tala þeirra, sem greiddu eina flokknum, sem vildi Ísland í Evrópusambandið, var einn fimmti þeirrar tölu, 24.000. Flokkarnir, sem mynduðu svo ríkisstjórn, voru í kosningunum einhuga í málinu. Stjórn þeirra þurfti því ekki að gera neina málamiðlun um það efni.

Þeir, sem urðu undir, halda fram sínu máli, eins og þeim er rétt. Hér verður drepið á rök, sem heyrast þessar vikurnar.

  • Við viljum í Evrópusambandið, af því að sérhagsmunir mega ekki ganga fyrir þjóðarhag (átt er við landbúnað og sjávarútveg).

Þetta kom vitaskuld fram fyrir kosningarnar og var þá rætt fram og til baka, meðal annars á flokksþingi/landsfundi núverandi stjórnarflokka. 120.000 kusu flokka, sem ekki vildu í Evrópusambandið. Eftir því er mikið fylgi við sérhagsmuni. Hitt mundi vera sanni nær, að menn líta ekki svo á, að innlent vald til að skapa landbúnaði og sjávarútvegi stöðu, sé í þágu sérhagsmuna.

  • Við viljum ekki einangra Ísland.

Þessu var gjarna haldið fram til að mæla með Evrópusambandsaðild. Það var vitaskuld mikið rætt. 120.000 kusu samt flokka gegn aðild, en 24.000 aðildarflokkinn. Það er út í hött, að fylgi 120.000 kjósenda hafi verið yfirlýsing um fylgi við einangrun.

  • Við viljum vöxt atvinnugreina fyrir hámenntað fólk.

Þetta var vitaskuld rætt í fyrra. Engar heimildir eru fyrir því, að 120.000 kjósendur hafi lýst andstöðu við vöxt atvinnugreina, sem borga vel, með því að greiða flokkunum fjórum atkvæði sitt.

Þrálátir fundir fyrir utan Alþingishúsið undanfarið eru kynntir í fréttum eins og þeir séu merkilegir. Þá fundi sækir ekki nema brot að tiltölu við þá, sem sóttu kjörfund. Það hlutfall kynni að vera álíka lágt og kjörsókn var fyrstu áratugina eftir endurreisn Alþingis í hlutfalli við íbúatölu.

Þá var kjörfundur opinn, eins og fundirnir á Austurvelli. Einn fundur var í hverri sýslu. Efling lýðræðis og þingræðið er í því fólgið, að almenningi er gert kleift hvar sem er að tjá sig og með leynd. Ýmsir láta eins og fréttir af fundum nokkurra hundraða eða þúsunda á Austurvelli eigi með endurtekningu að vega upp á móti undirtektum 120.000 kjósenda við flokkana fjóra, sem vilja ekki Evrópusambandsaðild.

Morgunblaðinu 29. mars 2014: 38