Meðan Ísland er umsóknarríki í Evrópusambandinu, það er að segja hefur ekki afturkallað umsókn um aðild, er utanríkisráðuneytið útilokað frá samstarfi ríkja sem vilja ekki hafa Evrópusambandið með í því samstarfi. Dæmi þessa dagana er samstarf fimm ríkja um nýtingu sjávarslóða í Norður-Íshafi, en þau bægja Íslandi frá því samstarfi. Nýlegt dæmi, eftir að Ísland varð umsóknarríki, er val á bækistöð fyrir málefni heimskautssvæðisins, þar sem Akureyri hefði átt að koma til greina, en Tromsö var valin. Í nærri fimm ár hafa starfsmenn utanríkisráðuneytisins verið ónýtir í þessum efnum, vegna þess að yfirmaður þess vann að aðild Íslands að Evrópusambandinu eða, eins og nú er, vegna þess að yfirmaðurinn hefur ekki fengið heimild til að afturkalla umsóknina. Hver dagur, sem það dregst að afturkalla hana, er verklaus dagur í utanríkisráðuneytinu til að vinna að hagsmunum Íslands á norðurheimskautssvæðinu.

 

Morgunblaðinu 5. mars 2014: 37