Mér var bent á það með rökum í vetur, að Evrópska samfélagið væri réttara nafn en Evrópubandalagið. Ég tek stundum rökum, og svo var í þetta sinn, og því tók ég upp nýja nafnið, enda var eldra nafnið svo nýtt, að það er yngra en flest nýyrði málsins. Eðlilegt er, að leiðréttingin taki nokkurn tíma. Hitt er verra, að menn beri því við, þegar þeir halda í gamla nafnið og viðurkenna þó, að rangt sé farið með, að fólk, þ.e.a.s. aðrir en þeir, eigi of erfitt með að skilja breytinguna. Það er slæmt að ætla almenningi að geta ekki lært það, sem maður kannast þó við, að sé einfalt mál. Það varðar litlu, hvernig eldra nafnið var valið, aðalatriðið er að nota nafn í samræmi við upphaflegt heiti. Svo er gert í nálægum löndum (í Noregi fellesskap, í Danmörku fællesskab og í Svíþjóð gemenskap, sbr. þýska orðið gemeinschaft). Af því hafa verið myndaðar skammstafanirnar EF í norsku og dönsku og EG í sænsku og þýsku.

Morgunblaðinu 14. júlí 1991 (Velvakandi)