Auðlindir Íslands eru takmarkaðar. Það er svo stutt síðan við íslendingar helguðum okkur fiskislóðir, sem um aldir voru nýttar af skipum þeirra ríkja sem nú mynda Evrópsku samfélögin (ES), að það er sem andartak í aldanna rás. Meginviðfangsefnið í utanríkismálum hlýtur að vera að tryggja það, að íslendingar einir njóti arðs af þessari nýheimtu auðlind m. a. með greiðri afurðasölu til þeirra ríkja sem um langan aldur sóttu fisk á Íslandsmið. Nýsett lög sem takmarka rétt útlendinga til atvinnurekstrar hér á landi taka mið af þessu, en sala á íslenskum sjávarafurðum hefur um nokkurt skeið verið að mestu leyti tollfrjáls til þeirra ríkja sem standa að EES-samningnum og ekki stendur til að breyta því.
Í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði (EES) kom fram, að ES-ríkin leita bragða til að nýta þær fiskislóðir sem íslendingar hafa nýlega helgað sér. Sjávarútvegsráðherra lýsti því yfir síðastliðið sumar, að ekki kæmi til¯ greina, að ES-skip fengju að veiða í íslenskri landhelgi. Engu að síður var samið um það. Meðan íslendingar lutu samningi dana við englendinga um þriggja mílna fiskveiðilandhelgi settu þeir lög, sem bönnuðu erlendum fiskiskipum að athafna sig í höfnum landsins, í þeim tilgangi að sjálfsögðu, að veiðar þeirra hér við land yrðu óhagkvæmari og drægi úr sókn þeirra hingað. Í EES-samningnum eru ákvæði sem heimila fiskiskipum ES-ríkja að athafna sig í íslenskum höfnum, þ. á m. dönskum skipum, en einnig norskum skipum, þar sem Noregur er aðili að samningnum, þótt landið sé utan ES.
Það hefur verið eignað spánverjum að ES sótti það svo fast, að skip þeirra fengju að komast inn í fiskveiðilandhelgi Íslands, að sjávarútvegsráðherra beygði sig, og að fiskiskip ES-ríkja fengju að athafna sig í höfnum landsins. Minnt hefur verið á, að sókn spánverja inn í íslenska landhelgi sé í samræmi við ævaforna reglu við Miðjarðarhaf um að fiskislóðir væru almenningur. Þessi regla Rómarréttar var í þágu herveldis gegn hagsmunum varnarlausra strandbyggja. Hún náði fyrst að móta rétt hér á norðurslóðum um árið 1500 eða 1000 árum eftir fall vestrómverska ríkisins. Það var hins vegar forn norrænn réttur, að útgerð var takmörkuð handa þeim byggðarlögum sem næst lágu. Það má segja, að íslendingar hafi með árangri sínum í landhelgismálum endurvakið forna norræna réttarreglu með þeirri breytingu, að ríkið kemur í stað byggðarlaganna.
Þannig má líta til fortíðarinnar til að skoða átök um sjávarútvegshagsmuni nú á tímum. Þó skiptir hér meira máli, að það er gegn eiginlegu eðli EES-samningsins að halda utan við meginreglur hans þátttöku í einni atvinnugrein eins ríkis, þar sem það er eitt meginatriði samningsins að fyrirtæki aðildarríkjanna hafi rétt til að starfa hvar sem er á svæðinu. Það er óeðlilegt, að ríki sem ætlar að halda fyrir þegna sína eina réttindum til að stunda meginatvinnugrein landsins, standi að slíkum samningi. Það er eins og að koma þar að sem þrír menn sitja og ætla að spila bridds og bjóðast til að vera með, með því skilyrði að fá að spila vist, þótt hinir spili bridds. Það hlýtur að leiða til þess, að fjórði maður fari fljótt að spila bridds.
Það var reyndar yfirlýstur tilgangur fremsta fulltrúa Íslands, áður en hann varð forsætisráðherra, að Ísland verði aðili að ES um aldamótin. Spurður (í Útvarpinu) á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors um daginn kannaðist hann við þetta og gerði engan fyrirvara við það. Þeir sem hinu megin sitja hljóta að vita um þetta markmið hans og geta því vel sætt sig við, að hann segist ætla að spila vist fyrst um sinn, þótt aðrir spili bridds.
Það voru ýmsir sem efuðust um það í upphafi EES-samninga, að takast mætti að tryggja það, að fiskislóð við Ísland yrði óskert auðlind íslendinga. Menn geta spurt, hvers vegna ekki tókst að standa við heitstrengingu sjávarútvegsráðherra. Athugum að þær 3 000 lestir af karfa sem samningurinn heimilar ES-skipum að veiða hér er aðeins 0,04% af öllum sjávarafla ES-ríkja. Enda þótt spánverjum sé eignuð krafan um fiskveiðar í íslenskriˇ landhelgi, hafa þjóðverjar átt langmest af karfaafla þeirra. Hvers vegna gerðu ES-ríkin svona litla stundarhagsmuni þjóðverja að skilyrði eftir að sjávarútvegsráðherra hafði sett fram andstætt skilyrði fyrir aðild að EES? Samningarnir hljóta að sanna öðrum en þeim sem höfðu það að markmiði að gera Ísland aðila að EES hvað sem það kostaði, að upphafleg tortryggni var réttmæt.
Hinu megin við samningaborðið
Aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Þröstur Ólafsson (ÞÓ), á langt mál um stöðu íslendinga í heiminum í greinaflokki í Tímanum 21., 25. og 27.febrúar („Fullveldi í framandi heimi“). Þar fjallar hann um margt, en ekki um það viðfangsefni sem að framan greinir, að sjá því borgið, að íslendingar megi njóta viðskipta sem víðast, svo að engir komist í sterka aðstöðu til að knýja íslendinga til að skerða þá auðlind sem þeir hafa nýlega áunnið sér.
Hvers vegna er þetta mikilvægasta viðfangsefni utanríkismálanna ekki með í svo löngu máli hans? Ég hygg, að það stafi af því, að forysta íslendinga og ES-ríkjanna í E˛ES-samningum er í alþjóðlegu fóstbræðralagi jafnaðarmanna og það er gegn hugsjón þeirra að halda fram sérstökum rétti, eins og íslendingar hafa áunnið sér með landhelginni, gegn almennum rétti til fiskveiða óháð búsetu.
Það hefur alltaf reynst svo, þegar íslendingar hafa viljað treysta sérstakan rétt sinn hér á landi eða við landið, að íslenskir jafnaðarmenn hafa beitt sér gegn því eða dregist með áhugalausir. Þannig var það við sambandssamninginn við dani 1918. Samkvæmt honum höfðu danir rétt til atvinnurekstrar hér á landi. Þeir voru til sem óttuðust það ákvæði. Tveir þingmenn, Benedikt Sveinsson og Magnús Torfason, létu það ráða afstöðu sinni og greiddu atkvæði gegn samningnum. Á þessum árum var sjávarútvegur dana ekki til þess búinn að sækja á Íslandsmið, en færeyingar notfærðu sér þennan rétt danskra þegna og athöfnuði sig hér á landi.
Þegar síðan kom að því að segja upp sambandinu við dani á umsömdum tíma, reyndu íslenskir jafnaðarmenn að tefja fyrir. Loks var það í landhelgismálunum eftir stríðˇ, að íslenskir jafnaðarmenn ýmist löttu þá sem voru sókndjarfir eða fylgdu með án hvatningar.
Þótt það sé kjarni EES-samningsins að koma á jöfnum rétti fyrirtækja til atvinnurekstrar hvar sem er á svæðinu og það sé því gegn eðli hans að undanskilja sjávarútveg við Ísland, eru menn misjafnlega áhugasamir og misjafnlega hæfir til að vinna að málinu. Jafnaðarmannaflokkar álfunnar eru vegna hugsjónar og fóstbræðralags hæfastir til að beita sér í því, enda var það svo að það voru jafnaðarmennirnir Jacque Delors frá ES og Gro Harlem Brundtland frá Fríverslunarbandalagi Evrópu sem áttu upptökin að EES-málinu. Í fiskveiðimálum hafa það verið spánverjar undir forystu jafnaðarmanna sem hafa beitt sér til að gera landhelgismál íslendinga að samningsatriði í stað þess að halda því alveg utan við, eins og sjávarútvegsráðherra vildi. Það hlýtur að hafa verið heppilegt fyrir þessa menn, að íslenskir fóstbræður þeirra sáu um málið fyrir Íslands hönd. Þeim er eðlilegt vegna hugsjónar að skilja málið eins og þeir sitji hinu megin við borðið. Þess vegna var ekki að undra, að skilyrði sjávarútvegsráðherra um óskerta landhelgi var hunsað.
Það myndast annars konar fóstbræðralag yfir landamærin í þessum málum. Embættismenn ríkjanna hittast oft og bera saman bækur sínar. Samræming er æðsta boðorð slíkra manna. Þeir mæla afköst sín í þeirri list að gera allar reglur eins. Á fundum þeirra innræta hinir stóru og sterku (ES-mennirnir) hinum gildi sín. Sérstakur réttur íslendinga til að ráða því hverjir stunda atvinnu á Íslandi, í sjávarútvegi eða orkuframleiðslu eða hverju öðru, er andstæður megingildi slíks fóstbræðralags. Með því að gera sjávarútvegsmál að samningsatriði er fjöregg þjóðarinnar sett í hendur manna sem eru undir sterkum áhrifum starfsnauta sinna hinu meginvið borðið.
Tímanum 12. marz 1992