Í umræðum á Alþingi um daginn sagði ráðherra utanríkisviðskipta það alveg skýrt, að tvíhliða samningur milli Íslands og Evrópsku samfélaganna (ES) myndi ekki duga íslendingum. Hvernig veit hann það?
Það var fyrir 30 árum, að viðskipti Íslands við ES komust fyrst á dagskrá. Þá voru öll markaðsmál Evrópu í uppnámi. Ríkisstjórnin hafði ráðunaut í markaðsmálum, og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra fóru til viðræðna við forráðamenn ES og einstakra ES-ríkja. Viðskiptaráðherra sagði þá opinberlega um þá úrlausn að fá afnumin höft á viðskiptum með sjávarafurðir og tolla fellda niður, gegn því að íslendingar veittu hliðstæðar ívilnanir varðandi innflutning hingað til lands:
„En ég hika ekki við að segja, að á þessu, ég segi því miður, er áreiðanlega ekki möguleiki. Í fyrsta lagi er það af því, að sexveldin öll eru í GATT og eru skuldbundin þeim reglum, sem gilda þar. Það er ekki mögulegt fyrir þau að lækka tolla á fiskafurðum í heild eða nokkrum einstökum fiskafurðum gagnvart Íslendingum einum eða nokkurri annarri einni þjóð, sem stendur utan við bandalagið. Í öðru lagi mundum við ekki heldur geta boðið upp á jafngildar ráðstafanir af okkar hálfu á þessu sviði, fyrst og fremst af því, að við getum ekki afnumið þau höft, sem nú eru á innflutningi landbúnaðarvara og ég tel nauðsynleg til þess að vernda þá atvinnugrein hér, og auk þess hefur engum dottið í hug, að við þyrftum ekki langan tíma til þess að lækka þá tolla, sem nú eru á erlendum iðnaðarvörum til verndar íslenskum iðnaði.“
Ráðherrann fullyrti þarna, að ES gæti ekki lækkað tolla á fiskafurðum í heild eða nokkrum einstökum fiskafurðum gagnvart íslendingum.
En það gátu aðrir fengið ES til að gera. Árið 1972, ári síðar en hann vék úr sæti ráðherra, var gerður samningur við ES, sem afnemur toll á frystum fiski frá Íslandi og fullunnum sjávarafurðum. Þetta gerðist án þess, sem ráðherrann taldi víst, að sett yrði skilyrði um, að Ísland drægi úr innflutningsvernd á landbúnaðarvöru. Samningurinn tók gildi að fullu að lokinni landhelgisdeilunni, árið 1976.
Sama ár birtist kandídatsritgerð við viðskiptadeild Háskólans um þessi mál. Þá var ráðherrann fyrrverandi kennari þar. Kandídatinn hafði aðgang að óbirtum skjölum og vitaskuld að kennara sínum. Þar er annað sagt en ráðherrann sagði 1962 af þeim kostum, sem taldir voru bjóðast íslendingum. Frá viðræðum viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra við fulltrúa þýsku ríkisstjórnarinnar í Bonn 28. september 1961 er m.a. eftirfarandi greint um skoðun þjóðverja: „Þjóðverjar sögðu, að aukaaðild hefði þann kost, að hún veitti meiri sveigjanleika og gerði vandamálin viðráðanlegri. Í viðbót við aukaaðild töldu þeir, að viðskiptasamningur á milli Íslands og Efnahagsbandalagsins kæmi einnig til greina. Gæta yrði þó þess, að slíkur samningur væri í samræmi við reglur Alþjóðatollabandalagsins (GATT).“
Þjóðverjar kusu sem sagt aukaaðild, eins og ráðherrann mælti með, en– hitt gat líka orðið að þeirra dómi. Í sömu ritgerð kemur raunar fram, að þetta var úrlausn, sem frakkar og ítalskur ráðherra kusu, þegar ráðherrann og ráðunautur ríkisstjórnarinnar í markaðsmálum ræddu við þá vorið 1962.
Skyldi almenningur nú þurfa að bíða í 14 ár eftir því að fá sönnur á hvaða kosti ráðamenn ES sjá nú helst í markaðsmálum íslendinga?
Nýlega var sagt frá því í útvarpsfréttum, að fiskur væri sendur í neytendaumbúðum til Englands frá frystihúsi í Hrísey. Ég hafði tal af frystihússtjóranum og spurði hann hvað tekinn væri mikill tollur af honum í Englandi. Enginn, sagði hann. Þetta er árangur af samningnum sem tók gildi 1976. Það dróst í 14 ár að ná þessum árangri frá því að viðskiptaráðherra taldi það útilokað og 5 ár frá því að hann vék úr sæti ráðherra.
Skyldi ekki vera lag nú í þessum efnum til þess að komast enn lengra á grundvelli GATT-samninga, ef sæti ráðherra utanríkisviðskipta væri skipað þeim sem kærði sig um það?
Vísi 24. apríl 1992