Í gærkvöldi og í morgun, þrisvar í röð, hefur Útvarpið bætt þeirri skýringu við frétt um undirskrift samkomulagsins um EES í Oporto í dag (2. maí), að þar væri stigið skref til myndunar stærsta fríverslunarsvæðis sögunnar.  Það er vandasamt að skýra í fáum orðum hvað felst í þessari undirskrift, en eitt er víst, að ekki er verið að mynda fríverslunarsvæði.  Ríkin 19 sem að standa hafa þegar myndað fríverslunarsvæði.  Ísland varð aðili að því árið 1972.

Samkvæmt samningsuppkastinu sem leggja á fyrir löggjafarþing ríkjanna 19 og þing Evrópska samfélagsins (ES) skal færa lög og reglur EFTA-ríkjanna 6 til samræmis við lög og reglur ES — það voru fyrir tveimur árum um 60 000 blaðsíður (eins og 60 símaskrár) og varla hefur það minnkað síðan.  EFTA-ríkin eiga síðan að breyta lögum sínum og reglum jafnóðum eftir því sem lög og reglur ES breytast, og eiga þar engan rétt til íhlutunar, ekki einu sinni tillögurétt.  Í sem stystu máli sagt felst í samkomulaginu, að myndað er ríkjasamband með ES-ríkin sem aðalríki og EFTA sem hjáríkjasamband.

Morgunblaðinu  (Bréf til blaðsins), 21. júní 1992