Það var ánægjuefni að lesa í dagblöðum um það nýmæli í frystihúsi KEA á Dalvík að búa fryst fiskflök í neytendaumbúðir og selja til ríkja Evrópska samfélagsins.   Þarna eru menn að nota tækifæri, sem íslendingar fengu þegar árið 1976 með afnámi tolla.  Ég hef gengið úr skugga um það með samtali við frystihússtjórann og við forstöðumann markaðs- og þróunarsviðs Íslenskra sjávarafurða, sem selja afurðirnar, að EES-samningurinn breyti engu um sölu slíks fisks.

Í „markaðsfréttum“ í 10. tbl. Víkings segir Þröstur Haraldsson blaðamaður, sem búsettur er á Dalvík, að þar sé verið að athuga grundvöll stærri fiskréttaverksmiðju. Hann segir að forsenda þess, að slík verksmiðja beri sig, sé, að samningurinn um EES verði samþykktur.

Eitthvað berast markaðsfréttir höfundi markaðsfrétta Víkings seint.  EES-samningurinn greiðir á engan hátt fyrir sölu fiskrétta frá Íslandi.  Þeir eru nú þegar ótollaðir.  Þar getur ýmist átt við ákvæði alkunnrar bókunar frá 1976 eða að um sé að ræða svo mikið unninn fisk, að rétturinn sé talinn iðnaðarvara, en íslensk iðnaðarvara varð tollfrjáls í Vestur-Evrópu þegar árið 1972.

Degi 10. nóvember 1992