Þröstur Haraldsson (ÞH) segir frá því grein í Degi 12. þ.m. („Farðu rétt með, Björn“), að á Dalvík sé verið að undirbúa framleiðslu rétta úr fiski, brauðraspi og sósum. Slíkir réttir beri nú tolla í Evrópska samfélaginu en EES-samningurinn felli þá niður. Það segir hagræna forsendu þess, að framleiðslan beri sig, enda sé verksmiðjan hugsuð sem svar Dalvíkinga við EES.

            Ég hafði upp á kunningja mínum, markaðsfræðingi, til að spyrja hann um þetta. Hann er erlendis að koma fótum undir fyrirtæki til sölu á íslenskum sjávarafurðum. Hann vildi fullvissa mig um að fiskréttur með brauðraspi og sósu væri tollfrjáls í Vestur-Evrópu og vísaði mér á fyrirtæki í Reykjavík, sem flytti slíka rétti út. Ég fann útflytjandann að máli. Hann fullyrti sömuleiðis að varan bæri ekki toll ytra. Ég lét þessi svör ekki nægja og komst að því að rétturinn sem menn stefna að að framleiða á Dalvík ber toll, af því að hann er forsteiktur, en fiskrétturinn sem hinir tveir höfðu í huga og reynsla var af, var ekki forsteiktur og bar þá ekki toll. Reykvíski útflytjandinn sagði fiskréttinn óforsteiktan ekki síður tíðkanlegan erlendis en forsteiktan.

            Eins og ÞH kallar það sendi ég honum „skeyti“ vegna skrifa hans í sjómannablaðinu Víkingi í haust. Þar þótti mér hann beita aðferð hins lævísa EES-trúboða, sem er að skrifa um allt annað, en vefur inn í mál sitt aðalrökum EES-liðsins gagnvart almenningi; annars vegar því að almenningur geti ekki haft neitt vit á málinu, því að það sé svo viðamikið og því verði að njóta forsjár stjórnvalda, og hins vegar alið á ótta um að ný tækifæri til atvinnu séu í hættu án EES-samnings.

Þ.H. telur áhrif sölusamtaka sjávarútvegsins skaðleg atvinnuveginum. Í samkeppnisreglum  Evrópska samfélagsins sem gilda eiga í EES eru ákvæði sem girða eiga fyrir að öflug sölufyrirtæki m.a. verði skaðleg, ekki þeim sem að slíkum samtökum standa, heldur þeim sem eiga við þau skipti. Þar er sem sagt talið, að afurðasölufyrirtæki geti orðið svo sterk að stjórnvöld EES skuli beita aðgerðum í þágu þeirra sem kaupa afurðirnar. Þau gætu því séð ástæðu til að veikja sölusamtök íslensks sjávarútvegs.

 

Að komast framhjá þjóðinni

ÞH telur það hið besta mál að fá hjálp að utan með EES samningnum til úrbóta í íslenskum sjávarútvegi. Þetta er kjarni EES-málsins, að ýmsir sjá fram á að ná meiri árangri í stjórnmálum með því að komast framhjá andstæðingum sínum með ákvæðum EES-samningsins sem setja bönd á þjóðina með því sem kallast samkeppnisreglur EES. Þetta er viðurkennt af fremsta talsmanni málsins um áratugi, Jónasi Haralz. Hann kallar það að koma á aga. Tilgreina mætti lík ummæli fleiri framámanna EES-málsins.

 

            Það hefur einkennt margan landann að vænta lausnar að utan. Lengi sáu margir lausnina í austri, ýmist austan Eystrasalts eða vestan eða í mynni þess. Úr þessum hópi eru ýmsir sem hafa talið ráð Íslendinga vitlaus um flest og því „hið besta mál“ að leita hjálpar að utan fyrst ekki tekst að koma vitinu fyrir þá. Um þrjátíu ára skeið hafa talsmenn þess að Íslendingar segðu sig í lög við ríki Vestur-Evrópu hrætt þjóðina með hættunni af einangrun. Reynsla Íslendinga af eigin forræði, sem sumir kalla einangrun, er vissulega góð borin saman við reynslu álíkra og eins  fámennra samfélaga á jaðri efnahagssvæða ríkja Vestur-Evrópu. Agi sem kemur að utan lamar. Eigin ábyrgð agar til framtaks.

 

            Ég hef sýnt fram á það annars staðar, að samningar Íslendinga um viðskiptakjör, m.a. um afnám tolla á ýmsum unnum sjávarafurðum hafi verið betur komnir í höndum þeirra sem ekki vildu segja sig í lög við ríki Vestur-Evrópu en í höndum liðsmanna EES undanfarin ár. Ég rökstuddi þar það álit, að svo mundi enn vera.

Degi 20. nóvember 1992