Í EES-samningnum felast sömu ráð og Gylfi Þ. Gíslason (GÞG) beitti sér fyrir sem viðskiptaráðherra fyrir þremur áratugum. Þá voru viðskiptamál Evrópu í uppnámi. GÞG hélt því fram og vísaði til viðræðna sinna við ráðamenn ytra, að aðeins með aukaaðild fengju íslendingar viðunandi viðskiptakjör fyrir afurðir sínar í Evrópska efnahagssamfélaginu (ES) sem starfaði samkvæmt Rómarsáttmálanum.

Fullyrðingar GÞG komu fram í ársbyrjun 1962 á lokuðum fundi valinkunnra manna (sbr. kilju mína Hjáríki). Þar varaði 1. þingmaður austfirðinga, Eysteinn Jónsson fyrrverandi viðskiptaráðherra, við skuldbindingum aukaaðildar, en mælti með því að semja aðeins um almenn viðskiptakjör.

Málið frestaðist skömmu síðar, þegar de Gaulle hindraði inngöngu breta í ES. Þess vegna þurfti ekki að útkljá ágreiningsefni viðskiptaráðherranna að því sinni.

Íslendingar gættu viðskiptahagsmunasinna í ES með samningi 1972, ári síðar en GÞG vék úr ráðherrastóli. Í samningnum fólst tollfrelsi fyrir frystan fisk og fullunnar sjávarafurðir, það sem GÞG hafði fullyrt að væri ófáanlegt án skuldbindinga aukaaðildar.

Árið 1976 varð uppvíst í kandídatsritgerð við Háskóla Íslands, að það var viðhorf þjóðverja einna, sem GÞG kynnti á fundinum 1962 og að hann hefði látið vera að geta viðhorfs annarra viðræðumanna sem töldu aukaaðild ekki skilyrði fyrir því að ES felldi niður tolla á íslenskum sjávarafurðum. GÞG var kennari kandídatsins.

Aldarfjórðungi eftir að GÞG tók þá afstöðu ásamt þýskum ráðamönnum að mæla með aukaaðild Íslands að ES, komst í valdastóla landsins formaður flokks hans ásamt öðrum Jóni, sem GÞG hafði lengi ætlað forystuhlutverk í stjórnmálum, og leggja allt undir til að ná markmiði hans. Eins og upphaflega eru rökin gagnvart alþýðu manna fullyrðing um að bætt viðskiptakjör fáist ekki nema með því að segja sig í lög við ES með EES-samningnum. Í Hjáríki held ég því fram og rökstyð, að þeir hljóti að ná bestum árangri í samningum um bætt viðskiptakjör Íslands í Evrópu, sem ekki taki til greina, að landið segi sig í lög við ES, eins og felst í EES-samningnum.

Ýmsir sem drógust í EES-leikinn með þeim Jónum vildu gera fyrirvara og setja upp girðingar. Fyrirvararnir vörðuðu reyndar upphafleg grundvallaratriði málsins. Það er líkt og ætla að ganga í hjónaband og taka fram, að ætlunin sé alls ekki að ganga í eina sæng, eins og aðrir geri, slíkt verði að girða fyrir og á því sé hafður fullur fyrirvari.

Austfirðingar hafa undantekningarlítið verið án Alþýðuflokksfulltrúa á Alþingi. Þeir hafa þó vafalaust talið sig jafnaðarmenn ekki síður en aðrir. Það er kaldhæðnislegt, að nú skuli ýmsir telja fulltrúa austfirðinga líklegasta til að tryggja Alþýðuflokknum það sem hann kunni að vanta til að ná meginmarkmiði sínu um þrjátíu ára skeið.

Austra 26. nóvember 1992