Fræðimenn álykta með rökum. Þeim er skylt að bregðast við rökstuddri gagnrýni með rökum og viðurkenna hana, ef ástæða er til. Það gerist oft með þögninni. Niðurstaða frjórrar umræðu fræðimanna getur vel orðið önnur en upphafsmaðurinn ætlaði.

Þegar Gaukur Jörundsson, nú umboðsmaður Alþingis, varði doktorsrit sitt um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, var Þór Vilhjálmsson, þá prófessor, nú æðsti dómari, andmælandi. Andmælandi benti á, að verjandi hefði vanrækt að reifa mikilsvert atriði um forsendur raka sinna. Ég hlýddi á og spurði sjálfan mig, af hverju þeir hefðu ekki talað saman um þetta, meðan ritið var í undirbúningi. Verjandi hlaut að viðurkenna vanrækslu sína.

Dómari ansar engri gagnrýni eftir úrskurð sinn. Starfsmaður stjórnarráðsins sker úr fyrir hönd ráðherra síns og lætur ekki uppi skoðun nema ráðherra sýnist. Utanríkisráðherra hefur ekki kynnt Alþingi álit eiginn þjóðréttarfræðings, Guðmundar Eiríkssonar, á þjóðréttarhlið EES-samningsins.

Fjórir lögfræðingar — dómari, stjórnarráðsstarfsmaður og tveir prófessorar í lögfræði — sömdu fyrir utanríkisráðherra álit um stjórnarskrána og EES-samninginn (Mbl. 8. júlí). Hér í blaðinu hafa birst andmæli tveggja prófessora í lögfræði við áliti fjórmenninganna, Lúðvíks Ingvarssonar 25. og 26. ágúst og Björns Þ. Guðmundssonar, prófessors í stjórnarfarsrétti, 1. september. Prófessorarnir, sem áttu þátt í málinu í upphafi og lúta skyldum fræðimennsku, hafa nú haft góðan tíma til að athuga andmælin.

Morgunblaðinu 1. desember 1992 (Bréf til blaðsins)