Þing Alþýðusambands Íslands mælti ekki með EES-samningnum. Fráfarandi miðstjórn þess lagði fyrir þingið langa greinargerð um samninginn og gerði ýmsa fyrirvara, sem skyldu tryggja hagsmuni launþega, en með þeim skilyrðum taldi hún hann ásættanlegan. Þingið tók ekki undir meðmæli miðstjórnar, heldur kaus að vísa málinu undir þjóðaratkvæði. Mér sýnist fyrirvarar miðstjórnar hafi verið þess eðlis að ganga gegn kjarna EES-skipulagsins sem felast ekki síst í sama rétti til atvinnu (og atvinnuleysis) í öllum ríkjum svæðisins, þ. e. a. s. fyrirvarar sem ekki fengju staðist EES-eftirlitið.

Flokksþing Framsóknarflokksins fór líkt að ráði sínu og fráfarandi miðstjórn ASÍ, sbr. Tímann 1. þ. m. Það ítrekar fyrri samþykktir miðstjórnarflokksins „um nauðsynlegar lagfæringar á ýmsum efnisatriðum samnings um hið Evrópska efnahagssvæði.“ Nú lauk samningum um þetta mál þegar fyrir rúmu ári með undirritun fyrir Íslands hönd. Ef þarna er eitthvað sem þykir nauðsynlegt að færa í lag, verður það aðeins gert með því að hafna samningnum og hefja síðan samninga að nýju. Þá má ekki láta málið í hendur þeirra sem ætla sér allt annað með því en umbætur á viðskiptakjörum sjávarútvegsins, heldur nota þær sem tálbeitu.

Þessi orð verða auðveldlega staðfest með ummælum þeirra sem hafa leynt og ljóst um þrjátíu ára skeið verið í forystu um að koma Íslandi undir vestur-evrópska stjórn. Ritstjórn Morgunblaðsins, sem samningurinn hefur verið kappsmál, hefur hvað eftir annað tekið það fram að aðalatriði samningsins sé ekki sérsamningur Íslands um viðskiptakjör, heldur að lögum landsins um efnahagsmál verði skipað eins og í  Evrópska samfélaginu. Jónas Haralz, sem ásamt Gylfa Þ. Gíslasyni var driffjöður í málinu í upphafi, orðaði það svo nýlega í riti stúdenta í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, að með EES-aðild kæmist agi á efnahagsstjórn íslendinga.  Aðrir segja, að með henni yrðu ráðin tekin af framsóknarmönnum í öllum flokkum. Ef íslendingar væru komnir undir aga EES, gætu ýmis þau ráð sem komið hafa til greina undanfarið til að bæta atvinnuástandið orðið tilefni til kæru fyrir yfirvöldum EES sem brot á samkeppnisreglum Evrópska samfélagsins.

Ég átti erindi til Noregs á dögunum og gafst þá tækifæri til að glöggva mig betur á afstöðu norðmanna til EES-málsins en tekst með blaðalestri. Andstæðingar EES-aðildar í Noregi töldu það ekki hvað síst meinbugi á samningnum að hann tæki af þeim ráð til aðgerða í þágu byggðastefnu. Í ályktun þings Framsóknarflokksins um EES er ekki vikið orði að byggðastefnu. Noregur er langur.  Í Þrændalögum og norðar eru miklu fjölmennari byggðir en öll byggð á Íslandi.  Þar eru tugir byggðarlaga öflugri en miðbik Norðurlands og Austurlands. Í þessum hluta Noregs var almenn andstaða gegn EES-samningnum og þá ekki síst í röðum sjávarútvegsins.

Hér á landi er furðulegt að vita til þess, að norðlendingar og austfirðingar skuli telja það ómaksins vert að starfa í stjórnmálaflokkum, hverju nafni sem nefnast, með áhrifamiklum fulltrúum sem mæla með samningi sem tekur af þeim sjálfum ráð í mikilvægum málum. Illu heilli er það viðhorf ekki óalgengt hér syðra að fagna því að „framsóknarmenn í öllum flokkum“ verði þannig áhrifalausir.

Tímanum 9. desember 1992.