Í frétt í Tímanum þann 8. Desember sl. gerir EÓ á forsíðu grein fyrir stöðu EES-málsins eftir að Svisslendingar höfnuðu aðild að samningunum. Hann segir: „EFTA-ríkin telja sig ekki geta beðið lengur eftir að komast inn fyrir tollmúra EB."

Sjö ríki Fríverslunarbandalags Evrópu, EFTA, hafa hvert um sig samning um fríverslun, þ.e. tollfrjálsa verslun, við Evrópska samfélagið, sem myndað er úr 12 ríkjum. Ríkin 19 mynda því fríverslunarsvæði. EES-samningurinn er ekki gerður til að afnema tolla, heldur til að skuldbinda EFTA-ríkin til að lúta lögum og reglum Evrópska samfélagsins um efnahagsmál, eins og þau eru á hverjum tíma. Þess vegna er nýskipaninni valið heitið efnahagssvæði.

Tímanum 18. desember 1992