Nokkuð hefur verið um það undanfarin ár, að pólverjar væru ráðnir til starfa hér á landi. Eins og kunnugt er, hafa stjórnvöld haft það í hendi sinni að synja um slíka ráðningu. Það er gert, ef fá má íslendinga til starfa.

Pólska stjórnin hefur hug á aðild að Evrópska samfélaginu (ES). Gert er ráð fyrir, að Póllandi bjóðist frekar að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), ef af stofnun þess verður. Ef Ísland yrði ásamt Póllandi aðili að EES, ættu pólverjar aðgang að störfum hér á landi, án þess að stjórnvöld gætu hamið það. Pólverji, sem hér hefði starfað í þrjá mánuði, gæti þá sest hér að með réttindi til starfa, og skyldulið hans nyti sömu félagslegra réttinda og íslendingar - pólverjar eru helmingi fleiri en íbúar Norðurlanda.

Sumir þeir, sem í upphafi stóðu að því, að Ísland tæki þátt í EES-samningunum, en viku síðar úr ráðherrasæti, halda því nú fram, að íslendingar verði að huga að því, sem tekur við af EES. Þá er vitaskuld gert ráð fyrir því, að EES komist á legg, og því svo haldið fram, að stutt sé í, að EES liðist í sundur, vegna þess að flest EES-ríkin hafi sótt um aðild að ES. Ég hef fyrir framan mig, hvernig andstöðuhreyfingin við aðild Noregs að ES leit á málið í janúar í fyrra. Hér á eftir birtist íslenskuð athugasemd þeirra um það, með yfirskriftinni:

 

Verður EES varanleg skipan?

Segja má EES-samningnum upp með árs fyrirvara. En eru menn fyrst með, verður varla auðvelt að komast út. Hitt gæti hins vegar gerst, að EES-skipanin yrði tímabundin. Eins og kunnugt er, hafa Austurríki og Svíþjóð sótt um aðild að ES, og Finnland, Sviss og Lichtenstein kunna að fylgja þeim. Heilmikið stjórnkerfi þarf til að starfrækja EES. Og varla hefur ES áhuga á því, ef aðeins 2-3 EFTA-ríki verða þar.

En það er ekki víst, að EES verði aðeins bráðabirgðaskipan. Í fyrsta lagi er vafasamt, að Öll þau ríki, sem nefnd voru, verði með í ES. Og í Öðru lagi er vel til, að EES verði föst biðstofa (eða æfingabúðir) fyrir ríki, sem vilja komast í ES, við það, að frá Austur-Evrópu bætist nýir EES-aðilar, jafnframt því sem fyrri ríki taki skrefið inn í ES. Gert er ráð fyrir þessu í 128. grein EES-samningsins, þar sem heimilt er að veita nýjum ríkjum aðild.

 

Þetta skrifuðu norðmenn fyrir ári. Samkvæmt því gæti svo farið, að um eitthvert skeið yrðu EES-ríkin Ísland, Pólland, Slóvakía, Ungverjaland, Króatía, Lettland, Litháen og Eistland.

Norskur kunnáttumaður, Normann að nafni, hélt fyrirlestur um þetta mál í Háskólanum á dögunum. Honum fannst ekki sennilegt, að Austur-Evrópuríkjum gæfist kostur á aðild að ES. Ekki mundi heldur þykja álitlegt að veita þeim aðild að EES með atvinnuréttindum, sem henni fylgja, vegna atvinnuleysis eystra - ekki þætti þar á bætandi í EES - heldur yrði leitað annarra úrræða.

Nýfengin reynsla af mati íslenskra ráðamanna, þ. á m. ýmissa, sem nákomnir eru verkalýðshreyfingunni, á þessu með tilliti til atvinnuleysis hér á landi og í EES-ríkjum er ekki sú, að menn láti áhyggjur af atvinnuleysi hér á landi og í ES-ríkjum vera til fyrirstöðu við að veita tugmilljónum atvinnulausra atvinnuréttindi hér á landi, eins og felst í EES-samningnum. Þar er sem sagt ekki um að tefla atvinnuréttindi handa 38 milljónum pólverja, heldur 380 milljónum annarra Evrópubúa. Alþýðusamband Íslands mælti að vísu ekki með EES-samningnum, en það mælti ekki á móti honum; það tók aðeins þá afstöðu í málinu að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Að fenginni þessari reynslu hér á landi er ég ekki sannfærður um, að áhyggjur af atvinnuleysi yrðu til fyristöðu hjá ES í Brussel vegna aðildar Póllands að EES.

DV 22. mars 1993