Í hverju felst staðfesting forseta Íslands á lögum?  Lögin taka nefnilega gildi, þótt forseti synji staðfestingar.  26. grein stjórnarskrárinnar mælir fyrir um meðferð laga, sem Alþingi hefur samþykkt.  Orð greinarinnar eru skýlaus.  Samkvæmt þeim felst það aðeins í synjun forseta um staðfestingu, að þeim er vísað til þjóðarinnar til staðfestingar.  Þau taka strax gildi og halda því, nema því aðeins að þjóðin synji um staðfestingu með atkvæðagreiðslunni.

Greinin segir ekkert um þær ástæður, sem forseti skuli hafa til að synja staðfestingar.  Þar er því ekki mælt fyrir um, að forseti skuli því aðeins gera það, að þau séu honum á móti skapi.  Þar er ekki heldur mælt fyrir um, að vitað sé að almenningi séu lögin á móti skapi.

Sem von var, lá utanríkisráðherra á að fullvissa utanríkisráðherra hinna EFTA-ríkjanna um, að hann hefði Alþingi með sér í EES-málinu.  Það sannaðist í atkvæðagreiðslu 12. janúar.   Hefði forseti Íslands þá synjað staðfestingar, hefði utanríkisráðherra engu að síður haft gild lög að leggja fram á fundi EFTA-ráðherra.  Hann hefði vitanlega getað látið það fylgja sögunni, að þau lög, sem önnur lög, mætti afnema.  Oftast er það löggjafarþing, sem afnemur lög, en í þessari stöðu hefði það einnig verið í hendi þjóðarinnar án milligöngu Alþingis.  (Það truflar reyndar allar rökræður um málið, að lögin eru um samning, sem ekki er til — það er eftir öðru í ráðslaginu, að slík lög skuli hafa verið sett)

Öðru máli hefði gegnt, hefði sú breyting verið komin á, sem einróma stjórnarskrárnefnd gerði tillögu um fyrir rúmum áratug.  Þá hefði í stað ákvæðis um, að lögin tækju gildi, þótt forseti synjaði staðfestingar, verið ákvæði, sem frestaði gildistöku laganna fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu.  Ef forseti hefði þá farið þannig að, hefði utanríkisráðherra ekki haft í höndunum gild lög um samninginn á fyrstu EFTA-ráðherrafundum sínum eftir atkvæðagreiðslu Alþingis.  Breytingartillaga stjórnarskrárnefndar, sem aldrei var afgreidd, hefði því aukið vald forseta.

Í umræðum um þetta mál er gjarna vitnað í sem æðsta dóm skoðanir og gerðir þeirra, sem ekki eru nú á dögum og hafa ekki, svo vitað sé, séð fyrir að slíkt mál kæmi upp sem lögin um EES-samninginn eru.  Það er lagt út af skoðunum þessara manna, eins og véfréttir séu.  Þeir, sem það gera, og þeir, sem vitnað er í, eru svo til allir lögfræðingar.  Slíkar tilvitnanir í framliðna minna á dýrkun helgra manna.  Stjórnarskráin er ekki dulmál ofar skilningi almennings, allra síst 26. grein hennar.

Maður nokkur tók sig til milli jóla og nýárs og fékk á fáum dögum svo til alla sem voru í námunda við hann, á 4. hundrað manns á kjörskrá, til að skora á forseta Íslands að vísa EES-málinu undir þjóðaratkvæði.  Skoðun hvers og eins þessara manna um gildi 26. greinar stjórnarskrárinnar er vitaskuld þyngri á metunum en skoðanir þeirra sem horfnir eru af þjóðskrá og kjörskrá.

Tímanum 10. mars 1993