Margir vísa þessa dagana til efasemdarorða utanríkisráðherra á Alþingi á dögunum um, að EES-samningurinn taki nokkuð gildi, vegna þess að erfitt verði að fá hann samþykktan í ýmsum ríkjum Evrópska samfélagsins (ES).
Slíkar efasemdir styðjast aðeins við orð, en ekki athafnir, fyrst ríkisstjórnirnar gerðu samninginn þingtækan. Spánverjar hafa lýst yfir óánægju um það, sem þeir töpuðu við fráhvarf Sviss, en þeir fara vitaskuld ekki að hleypa málinu upp og tapa þannig til viðbótar rétti milljóna atvinnulausra spánverja til að stunda atvinnu í fimm EFTA-ríkjum án tillits til atvinnuástandsins í þeim.
Spánverjar hafa kvartað yfir því að hafa ekki fengið sams konar skilyrði fyrir sölu landbúnaðarafurða í EES-samningnum og Tyrkland og Ísrael hafi fengið í fríverslunarsamningnum við EFTA. Það væri samt ekki í þágu spánsks landbúnaðar að gefa frá sér þá innflutningsrýmkun, sem EES-samningurinn veitir á Norðurlöndum, með því að hleypa EES-málinu upp. Óánægjuorð spánskra ráðamenna geta ekki verið fyrirboði um uppnám EES-málsins, heldur eiga þau eitthvert erindi við spánskan almenning, sem við, sem fjarri erum, getum illa ráðið í.
Ef menn vænta þess, að gildistaka EES-samningsins dragist á langinn og vilja hlíta ráðum þjóðarinnar, er tækifæri til að leggja málið fyrir þjóðina með því að setja í lögin um endanlegan EES-samning ákvæði um, að þau taki því aðeins gildi, að þau hafi verið samþykkt í þjóðaratkvæði.
Mönnum getur sýnst ýmislegt í óvissu í málum Evrópska samfélagsins. Það verður ekki séð, að EES-samningurinn trufli það á nokkurn hátt. Vinningurinn við nýlendustefnu fólst í því að eignast efnahagslögsögu fjarri heimalandinu. EES-samningurinn færir gömlu nýlenduveldunum Frakklandi, Englandi, Spáni, Portúgal, Hollandi og Belgíu, og Þýskalandi og Ítalíu, sem tóku seint við sér í þeim efnum, efnahagslögsögu í auðugum ríkjum. Engir landvinningar hafa orðið þeim eins ódýrir. Þeir kostuðu lítið annað en fundi og ferðalög.
Tímanum 1. apríl 1993