Þrír flokkar stjórnarandstöðunnar njóta fylgis 63% kjósenda samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar í maí.  Þeir stóðu einhuga að því á Alþingi í vetur og vor, að EES-samningurinn yrði borinn undir þjóðina.  Þá höfðu þeir 27 þingmenn af 63, en mundu með núverandi fylgi fá 40.

Í EES-málinu hefur Alþýðuflokkurinn, sem mælist fylgisminnstur, ráðið öllu, en kosið sér flokka til aðstoðar, eins og hentaði.  Það er auðvelt fyrir þá þrjá flokka, sem stóðu einhuga að því að bera EES-samninginn undir þjóðina, að snúa leiknum við eftir næstu kosningar og ráða því, að næsta ríkisstjórn, hverjir sem standa að henni, gangi óðara úr skugga um afstöðu þjóðarinnar til EES-samningsins.

Af hverju hefur fylgisminnsti flokkurinn ráðið?  Forystan hefur lengi vitað hvað hún vildi.  Málið hefur verið keppikefli hennar síðan 1961.  Þá hét það aukaaðild að EBE, en í því fólst eins og í EES-samningnum að framselja í reynd stjórn í mikilvægum málum íslendinga til Brüssel.  Flokksforystan var árvökur að undirbúa jarðveginn og greip tækifærið þegar það gafst með aðstoð flokksfélaga í Noregi og Svíþjóð.

Þeir, sem voru andvígir markmiði flokksins, gættu sín ekki, ef þeir gerðu sér þá nokkra grein fyrir því sem var í húfi.  Þá hefðu þeir m. a. getað sett í stjórnarskrána ákvæði um rétt ákveðins fjölda kjósenda til þess að bera mál undir þjóðina.

Skýrsla stjórnarskrárnefndar frá 1983 leiðir sinnuleysið í ljós. Þar er nefnilega að finna tillögu fulltrúa allra flokka um slíkt þjóðaratkvæði.  Flokkarnir hafa svæft málið og flokkurinn, sem fyrst kom til sögu árið 1983, hefur ekki heldur tekið það upp.

Flokkarnir þrír, sem hafa svo mikið fylgi nú, geta sýnt örlítið brot af þeirri einurð, sem forysta Alþýðuflokksins hefur átt í aldarþriðjung, með því að gera það að afdráttarlausu skilyrði fyrir stjórnaraðild, að EES-málið verði borið undir þjóðina.  Það hafa þeir í hendi sinni.  Þannig mundu þeir sanna einlægni sína, þegar atkvæði þeirra eru ráðandi og sýna áhrif í hlutfalli við fylgi.  Um leið verður að setja í stjórnarskrána almennt ákvæði um þjóðaratkvæði líkt og flokkarnir sameinuðust um í stjórnarskrárnefnd fyrir 10 árum.  Nógu mörgum ætti að vera ljóst eftir nýfengna reynslu, að það hefur dregist hættulega lengi.

Tímanum 9. júní 1993