FRAMUNDAN er að móta markmið nýrrar utanríkisforystu í Evrópumálum. Fráfarandi utanríkisforysta setti fram markmið sín á fundi EFTA-ríkjanna í Ósló 15. mars 1989. Þar tók hún undir ráðagerðir um evrópskt efnahagssvæði með fyrirvara vegna Íslands um afsal valds til yfirþjóðlegra stofnana og afsal fullveldis, um að halda rétti til ákvarðana, sem varða afkomu landsins og sjálfstæði, og um að halda yfirráðum yfir náttúruauðlindum Íslands og rétti til að ráða fjármagnsflutningum, flutningum vinnuafls og búsetu, og gerði frjálsa verslun með sjávarafurðir að skilyrði sínu.

Stjórnarandstaðan var sammála um ofangreind markmið og fyrirvara, en taldi tvíhliða samninga vænlegri til árangurs en samflot með hinum EFTA-ríkjunum. Sú varð raunin, að stjórnvöld hinna EFTA-ríkjanna stefndu að aðild að Evrópska sambandinu (ES), sem starfar á grundvelli Rómarsáttmálans frá 1957, en sérstök markmið og fyrirvarar Íslendinga helguðust einmitt af því, að slíkt var ekki ætlun þeirra.

Óhætt er að segja, að markmið Íslendinga náðust ekki. Nýleg aðild fiskveiðastórveldisins Spánar að ES hefur líklega meira en annað breytt aðstöðu Íslendinga innan vébanda ES.

Það tók utanríkisforystuna áratugi að færa út efnahagsleg landamæri Íslands, eins og fólst í útfærslu landhelginnar, í andstöðu við ríki Rómarsáttmálans, en í honum felst afnám efnahagslegra landamæra ríkjanna. Sigrar Íslendinga með útfærslu efnahagslögsögunnar gerðust þannig, að stjórnmálaflokkar, studdir sterku almenningsáliti, yfirbuðu hver annan og knúðu stjórnvöld til málflutnings. Þannig tókst að móta nýjan alþjóðarétt. Í samningum vegna markmiða áðurnefndrar Óslóaryfirlýsingar var um að ræða að gæta hagsmuna, sem tengdust nýfengnum rétti Íslendinga. Aðhald að utanríkisforystunni reyndist veikt, þegar hún hefði átt að vinna að markmiðum Óslóaryfirlýsingarinnar.

Árangur í utanríkismálum næst varla án þolgæðis. Framundan er að velja nýja utanríkisforystu í höndum þeirra, sem skilja, að markmið Íslendinga um skörp eigin efnahagsleg landamæri og markmið Evrópska sambandsins um afnám efnahagslegra landamæra eru ósamþýðanleg og verða ekki sett undir eina stjórn. Hin nýja utanríkisforysta þarf ekki að hafa fyrir því að skilgreina markmið í Evrópumálum, heldur getur tekið við því verkefni, sem stjórnmálaflokkarnir mótuðu eða studdu, en fráfarandi utanríkisforystu tókst ekki að leysa. Forysta flokkanna þekkir því rökin fyrir markmiðunum og á því að eiga auðvelt með að flytja málið.

 

BJÖRN S. STEFÁNSSON,

Kleppsvegi 40, Reykjavík.

Morgunblaðinu 11. febrúar 1995 (Bréf til blaðsins)