Ráðamenn hafa lengi átt í vandræðum með að hafa hóf á hverju einu í búi þjóðarinnar og hafa enn. Þegar í heimsstyrjöldinni síðari fór að tíðkast að semja um launakjör án tillits til greiðslugetu þeirra fyrirtækja, sem ekki gátu velt kostnaðinum út í verðlagið, og enn vill réttlæti, vitaskuld aðeins lauslega afmarkað í krónum, vera ofar í umræðu um kjarasamninga en greiðslugeta fyrirtækja eða greiðsluvilji almennings og fulltrúa hans. Menn hafa smám saman náð tökum á ramma um framlag ríkisins til samgöngumannvirkja. Fjárlög hefur  tekist að setja á skipulegri hátt en lengi vildi verða. Ríkið hefur nú orðið lítil tök á að leggja fé til að auka atvinnurekstur, eins og áður tíðkaðist, en samanlagður atbeini ríkisins veldur engu að síður athafnasemi, sem sumir telja of mikla og leiði eftir krókaleiðum hagkerfisins til vandræða.

Eins og kunnugt má vera úr ritinu Lýðræði með raðvali og sjóðvali hentar sjóðval til að halda hverju einu innan hóflegs ramma. Í kafla um stórmál er fjallað um fjárhagsáætlun, áætlun um samgöngumannvirki og ramma um virkjun vatns og jarðvarma meðal annars. Lýðræðissetrið ehf í Reykjavíkurakademíunni gengst nú fyrir sjóðvali um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, en henni á að ljúka af hendi hins opinbera árið 2009. Sveinbjörn Björnsson, sem var fyrsti formaður verkefnisstjórnar um slíka áætlun, lítur svo á, að sjóðval sé fallið til að móta hana. Álit hans birtist á heimasíðu Lýðræðissetursins. Til þátttöku verður boðið Landverndarmönnum. Þeir þurfa ekki að vera margir í upphafi, en fyrirkomulag sjóðvals er þannig, að vel liggur við að bæta við nýjum þátttakendum. Sömuleiðis, óháð sjóðvali Landverndarmanna, verður alþingismönnum og varaþingmönnum boðið að móta slíkan ramma með sjóðvali. Ætlunin er að bera undir menn hugmyndir verkefnisstjórnar, eftir því sem þær koma fram. Sjóðval er þannig vaxið, að vel má kanna afstöðu til máls, þótt það sé ekki fullmótað, og kanna afstöðuna svo aftur,  þegar málið hefur mótast betur. Það álit, sem kemur fram í slíku sjóðvali, ætti að vera meðal þess, sem verkefnisstjórn og stjórnvöld hafa fyrir sér, þegar ljúka skal málinu. Rétt er að halda ráðherrum utan við þetta sjóðval annarra þingmanna, þar sem þeirra er að meta niðurstöðu sjóðvalsins til ákvörðunar.

Fiskveiðistjórn er annað mál, sem Lýðræðissetrið beitir sér fyrir, að fjallað verði um með sjóðvali. Þar stendur einnig til að bjóða alþingismönnum og varaþingmönnum að sjóðvelja. Þar yrði varpað fram tillögum um breytingar á fiskveiðistjórn frá þeim, sem hafa með sér samtök um sjávarútveg, svo og stofnunum, eins og Hafrannsóknastofnun, og öðrum sérfræðingum. Ætlunin er að efna til samsvarandi sjóðvals í Færeyjum.

Morgunblaðinu 29. júní 2008