Stjórn ríkisins hefur síðan í haust flutt málstað Íslands úr heimi laga og réttar í heim aflsmuna. Það gerist þannig, að því er ekki ansað að leita réttar að lögum, þegar mest á ríður gagnvart öðrum ríkjum, þar sem er verulegur aflsmunur, heldur mál útkljáð á annan hátt. Fremstu kunnáttumenn landsins í lögum og rétti eru sniðgengnir. Forseti lagadeildar Háskóla Íslands, Björg Thorarensen, sagði í erindi á fullveldisdaginn 1. desember síðastliðinn, að í ljós hefði komið þá um haustið, að Ísland átti engan vin, ekki einu sinni á Norðurlöndum. Tilefnið var viðbrögð við því, að Bretland beitti hryðjuverkalögum gegn Íslandi, sem reyndar voru sett til að verjast samtökum eins og al-Qaeda. Alþjóðalög og reglur, sem giltu um fullvalda ríki að þjóðarétti, bæði stór og smá, hafi verið látnar víkja fyrir pólitískum þrýstingi og ofurafli ríkja, sem telja eigin hagsmunum betur borgið með því.

Björg hefur gefið sig sérstaklega að mannréttindum og stjórnskipunarrétti. Ég hef hér eftir henni eitt atriði af mörgum í erindinu: „Með aðgerðum breskra stjórnvalda var í raun brotið bæði gegn þjóðréttarskyldum í samskiptum við annað ríki, sem er sjálfstætt skoðunarefni, sem íslenska ríkið getur sótt rétt sinn vegna. Auk þess var brotið gegn réttindum íslenskra aðila, sem þannig eignast kröfu á hendur breskum stjórnvöldum. Um það síðarnefnda eru afdráttarlausar skyldur leiddar af Mannréttindasáttmála Evrópu, sem Bretland hefur gengist undir og jafnframt leitt í lög.“ Ekkert hefur verið gert með eindreginn málflutning deildarforsetans.

Annað stórmál, þar sem stjórn ríkisins fór ekki á braut réttlætis, er Icesave-krafa Bretlands og Hollands. Fremsti maður lagadeildar Háskólans í Evrópurétti, Stefán M. Stefánsson, hefur ásamt öðrum lögfræðingi flutt það mál hvað eftir annað, að Bretland og Holland eigi ekki rétt til kröfu á íslenska ríkið. Í vor sendu þeir alþingismönnum áskorun í grein í Morgunblaðinu um að sinna rökum þeirra. Mér sýnist af samhenginu, að um hafi verið að ræða meira en áskorun, greinin hafi verið ákall í örvæntingu. Kunnátta í Evrópurétti í aldarþriðjung var einskis metin.

Í réttarríki er hagað svo til, að málsaðilar standi jafnt að vígi fyrir dómi og reynt að draga úr hættunni á, að neytt sé aflsmunar. Í samskiptum ríkja hér um slóðir hefur verið leitast við, að mál megi leysast á sama hátt, án aflsmunar, og komið skipulagi á slíka málsmeðferð.

Margir munu líta svo á, að ekki síst flokkar jafnaðarmanna víða um heim hafi beitt sér fyrir því, að einstök ríki og heimurinn allur mætti mótast af lögum og rétti, þannig að ekki gæti aflsmunar. Þess vegna er það öfugt við það, sem við mátti búast, eins og ýmislegt annað að undanförnu, að jafnaðarmenn á Íslandi og í Bretlandi skuli einhuga hafa hagað málum svo, að örlög Íslands eru nú ráðin í heimi aflsmunar, en ekki í heimi laga og réttar.

Stjórn ríkisins, sem vill flytja Ísland aftur í heim laga og réttar, getur gert erindið, sem Björg Thorarensen flutti 1. desember, að stefnuskrá sinni.

Morgunblaðinu 30. ágúst 2009 26