Jóhannes Snorrason (1917-2006), yfirflugstjóri, beitti sér mjög gegn aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sem tekist var á um fyrir einum tveimur áratugum. Ég kynntist honum í þeirri baráttu. Hann sagði mér þá, af hverju hann væri knúinn í baráttunni. Það var þannig, að hann lærði að fljúga í Kanada í stríðinu, og fyrst eftir stríð flaug hann milli Kanada og Evrópu. Eitt sinn varð hann í vélinni áheyrandi að tali þýskra farþega, Þeir hafa væntanlega ekki gert ráð fyrir, að flugmaður á kanadískri vél skildi þýsku, eins og Jóhannes gerði eftir menntaskólanám á Akureyri. Þeir þóttust eiga dálítið undir sér, heyrðist honum. Stríðslokin voru rædd, og þeir sögðu: Næst förum við öðru vísi að. Jóhannes kvaðst líta á myndun Evrópska efnahagssvæðisins í þessu ljósi—með því sæktu þjóðverjar fram— og orð þeirra sóttu á hann.
Í vetur hitti ég í fyrsta sinn eftir tuttugu ár son Jóhannesar, Snorra bónda á Augastöðum í Hálsasveit og refaskyttu. Það var í Snorrastofu (Sturlusonar) í Reykholti. Hann flutti þar erindi um refinn. Á eftir ræddi ég við Snorra um sögu Jóhannesar af samtali þýsku farþeganna og hvers vegna hann hafði hana ekki með um árið í skrifum sínum. Mér hafði dottið í hug, að sem flugmaður hafi hann almennt verið bundinn trúnaði um það, sem hann yrði vitni að í starfi, þótt hann segði mér þetta að vísu. Snorri taldi, að trúnaðinum hlyti nú að vera aflétt.
Í Morgunblaðinu 11. f.m. er grein eftir Bjarna Harðarson, sem lýsir því, hvernig nú er farið að því að taka Ísland. Grein Bjarna heitir Hvernig er hægt að komast í Evrópusambandið þótt flestir vilji vera fyrir utan það?

Morgunblaðinu 1. maí 2013 (eilítið stytt)