Árið 1962 hélt félagið Frjáls menning ráðstefnu í tilefni af ráðagerðum um, að ríki Fríverslunarbandalagsins bættust í Efnahagsbandalag Evrópu. Spurningin var, hvað þá yrði um Ísland, sem í hvorugu bandalaginu var. Félagið gaf umræðurnar út í ritinu Sjálfstæði Íslands og þátttaka í efnahagsbandalögum.
Eftirfarandi orð Bjarna Braga Jónssonar á ráðstefnunni eru upphafsorð umræðu um auðlindaskatt á Íslandi:
„Efnahagsbandalagið á að geta skilið, að við eigum þessar auðlindir í þjóðarsameign og þurfum að halda því áfram, og við þurfum með einhverjum hætti að geta takmarkað ásóknina og skattlagt hæfilega þessa uppsprettu. Við höfum gert það með tollapólitíkinni í raun og veru. Þess vegna vil ég halda því fram, að ef við göngum í slíkt bandalag, sem ég tel að muni þá vera með aukaaðild, þá muni vera raunhæft að hækka nokkuð verðið á erlendum gjaldeyri til mótvægis við lækkun tollanna, en taka tilsvarandi hluta af gjaldeyriskaupum frá sjávarútvegi og fiskvinnslu og líta á þann skatt sem auðlindaskatt til þjóðarinnar.“ — Að hækka verð á erlendum gjaldeyri er oftast nefnt gengislækkun.
Í Fjármálatíðindum 1975 útfærði Bjarni málið með greininni Auðlindaskattur, iðnþróun og efnahagsleg framtíð Íslands. Þar kemur fram, að helstu ráðamenn efnahagsstjórnar landsins eru á sama máli og hann. Það var einmitt árið 1975, að íslendingar voru að því komnir að eignast forræði yfir svo til öllum fiskimiðum við landið. Því var eitt atriði í máli Bjarna orðið brýnt úrlausnarefni, það að hafa stjórn á nýtingu fiskimiðanna. Um það efni vísar hann til fræðigreina, sem urðu stofn umræðu um hagfræðilega fiskveiðistjórn; þær eru eftir bretana Gordon (1954) og Scott (1955). Reyndar vísa bretarnir á sóknarstjórn til hagkvæmrar nýtingar sameiginlegrar auðlindar, en í umræðu hér og annars er vísað á aflastjórn, og þykjast menn engu að síður styðja mál sitt með uppstillingu bretanna.
Annað atriði í máli Bjarna var, að það væri réttlátt, að eigandi hinnar sameiginlegu auðlindar, eins og hann kvað þjóðina vera, tæki með valdi (ríkisins) gjald af þeim, sem hagnýttu sér hana. Þar hefur verið föst sú hugsun, að fiskstofnarnir séu auðlind. Svo er ekki, það er lífríkið, sem ber uppi nytjafiskana, sem er auðlind, á sama hátt og skóglendi er auðlind, en ekki skógarviðurinn.
Þriðja atriðið er það, sem felst í orðunum iðnþróun og efnahagsleg framtíð í greinarheiti Bjarna, að sjá til þess, að ríkidæmi sjávarins, sem væri takmarkað, spillti ekki fyrir starfsemi, sem getur vaxið. Það vildi hann gera með því, að ríkið taki hluta af gjaldeyrinum, sem sjávarútvegurinn aflar, og kallar það auðlindaskatt.
Á ráðstefnunni 1962 kom fram, annars vegar, að leitað yrði eftir því við aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu, að Ísland héldi forræði fiskimiða—landhelgin var þá 12 mílur, og hins vegar, að öll fyrirtæki bandalagsins hefðu sama rétt til fiskveiða við Ísland, en íslenska ríkið seldi réttinn þeim, sem best byðu; þannig héldu íslendingar arðinum af auðlindinni. Rétturinn, sem þá hefur alltaf verið átt við, er réttur til afla.
Upp úr 1980 bar á því, að þess væri krafist, að fest yrði í lög, að fiskveiðiauðlindin væri sameign þjóðarinnar, og mælt með því, að ríkið seldi aflaheimildir, gjarna af sömu mönnum. Að þessu stóðu þeir, sem leynt og ljóst ætluðu Íslandi stöðu í Efnahagsbandalaginu, því hlaut maður að taka eftir á þessum árum.
Í þessu ljósi verður skilið, hvernig framsal fiskveiðiheimilda komst á í áföngum. Þar er hlutur Halldórs Ásgrímssonar í ráðherrastöðu mestur. Síðan árið 1972 átti Halldór sér þá hugsjón, að Ísland gengi í Efnahagsbandalagið. Hann varð þingmaður Framsóknarflokksins 1974, án þess að flokksmenn hefðu hugmynd um þessa afstöðu hans, og fyrr en varði var hann orðinn varaformaður flokksins og síðar formaður. Hann var þingmaður 1974-78 og 1979-2006 og ráðherra 1983-1991 og 1995-2006, sjávarútvegsráðherra 1983-1991. Það var fyrst í viðtali í Morgunblaðinu 18. ágúst 2006, að mönnum varð kunnugt um þessa staðföstu hugsjón hans, rétt eftir að hann hafði sagt öllu af sér. Það kemur fram í grein Svans Kristjánssonar Lýðræðisbrestir íslenska lýðveldisins. Frjálst framsal fiskveiðiheimilda í Skírni haustið 2013, hvílíkt kapp Halldórs var einmitt í því máli, framsali fiskveiðiheimilda.
Þannig verður einnig skilið, hvers vegna þeir, sem vilja hafa Ísland í Evrópusambandinu, brugðust illa við í ár, þegar lagt var til að miða auðlindagjald á sjávarútveg við afkomu fyrirtækja, en ekki aflamagn. Með því móti verður nefnilega ekki sameiginlegur grunnur til að miða við öll fyrirtæki Evrópusambandsins, eins og gæti orðið með sölu á aflarétti þeim til handa.
Enn má skilja í þessu ljósi það kapp, sem þeir, sem hafa ætlað Íslandi stöðu í Evrópusambandinu, hafa sýnt við að fá sett í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á fiskimiðunum. Slíkt ákvæði yrði efni í málatilbúnað við upptöku Íslands í Evrópusambandið, þar sem menn mættu ætla sér að halda því fram, að með því að viðhafa sölu á aflaheimildum á Íslandsmiðum væru öll fyrirtæki sambandsins við sama borð, íslensk fyrirtæki jafnt og fyrirtæki annarra ríkja sambandsins.
Morgunblaðinu 30. júlí 2015 62