Kosning rektors Háskóla Íslands fór fram í tveimur umferðum vorið 1997. Ákvæði um það, að kjósa skuli aftur um þá tvo, sem fá flest atkvæði í fyrsta sinn, ef enginn fær þá meirihlutafylgi, er að vísu eldra, en nú reyndi í fyrsta sinn á það. Allir prófessorar eru kjörgengir, en fimm þeirra buðu sig sérstaklega fram. Fyrst fór reyndar fram prófkjör. Þar fengu frambjóðendurnir 25%, 21%, 22%, 11% og 15% atkvæða. Sá, sem fékk minnst fylgi, dró sig í hlé. Mánuði síðar var kosið. Reyndist fylgi þeirra (í sömu röð) 27,2%, 28,6%, 21,3% og 21,2%. Viku síðar var kosið um þá tvo, sem hlutu mest fylgi, og breyttist röð þeirra ekki.
Ekki hefur verið kannað, hvort brögð hafi verið að því við fyrri kosninguna, að kjósandi léti vera að kjósa þann, sem hann taldi hæfastan, vegna þess að vonlítið væri, að sá hlyti nægilegt fylgi til þess að komast í aðra umferð. Ekki hefur heldur verið athugað, hvernig kjósendur matsröðuðu í huga sínum frambjóðendunum, sem þeir kusu ekki. Ímyndum okkur, að þeir tveir, sem fengu mest fylgi, hafi verið taldir sístir af þeim, sem ekki kusu þá. Ímyndum okkur, að þeir tveir, sem hlutu minnst fylgi, hafi verið taldir næstbestir af þeim, sem ekki kusu þá. Um það er hvorki vitneskja né grunur í þetta sinn, en ef svo er, getur þetta fyrirkomulag leitt til þess, að í annarri umferð verði kosið um þá tvo, sem flestir töldu sísta, og annar þeirra hlotið kosningu.
Lítum á, hvernig leikurinn hefði farið í raðvali með þeim forsendum, sem að framan greinir, að þeir, sem ekki settu A og B efst, settu þá neðst, og C og D voru næstefstir hjá þeim, sem ekki settu þá efst. Við setjum atkvæðatölur nærri raunverulegum úrslitum, þannig: A 27, B 29 og C og D 21 hvor. Raðvalsniðurstaðan hefði orðið þessi:
27 29 21 21
A B C D
C,D C,D D C
B A A,B A,B
Stigin verða:
A: 27x3+21x0,5+21x0,5=102 (A og B skipta með sér stiginu fyrir 3. sæti)
B: 29x3+21x0,5+21x0,5=108
C: 27x1,5+29x1,5+21x3+21x2=189 (C og D skipta með sér stigunum fyrir 2. og 3. sæti)
D: 27x1,5+29x1,5+21x2+21x3=189
Niðurstaðan er, að C og D fá jafnmörg stig og talsvert fleiri en A og B, sem kosið var um í annarri umferð.
(Lýðræði með raðvali og sjóðvali)