Þeir komust hálfa leið
Umbætur á reglum um atkvæðagreiðslu og kosningu reyna á þolgæði. Stjórnmálamenn eru gjarna tortryggnir á hugmyndir um umbætur á slíkum reglum. Til þess getur verið sú ástæða, að almennt vanti skilning á grundvallarhugsunum um kosningar og atkvæðagreiðslu, og þá kann að verða talið, að annað liggi á bak við umbótatillögur en látið er í veðri vaka. Hér segir af dæmi um þolinmæðisverk, þar sem ætlunin var að fylgja eftir hugsuninni hér að framan (grein 10, Að kjósa nýjan eða gamlan, karlmann eða kvenmann) með fyrirkomulagi, sem skyldi draga úr hættunni á, að menn skipuðust óheppilega saman við kosningu. Menn komust aðeins hálfa leið að marki.
Samkvæmt lögum um Háskólann á Akureyri, sem tóku gildi árið 1999, skyldu kennarar kjósa tvo úr sínum hópi í háskólaráð. Samin var tillaga um reglur, sem byggðist á framangreindum athugunum. Lagt var til að kjósa í tveimur umferðum. Í fyrri umferð fengi kjósandi lista með öllum kjörgengum, sem ekki hafa neitað að taka kjöri, og setji 1, 2, 3 og 4 við fjögur nöfn, og raðvalsstig reiknuð. Var þetta ætlað til þess að komast að því, hverjir kæmu helst til greina. Í annarri umferð skyldi kosið um þá fjóra, sem fengu flest stig í fyrri umferð. Það skyldi gerast með því að skipa þeim í tvenndir (þær verða sex), og matsraði kjósendur þeim, en niðurstaðan fengist með því að reikna raðvalsstig. Ætlunin með þessu var að hindra, að tveir, sem fáir kærðu sig um, að næðu kjöri saman, næðu kjöri, tveir, sem kynnu að vera velmetnir hvor í sínu lagi.
Þessu var hafnað. Sögðu þá kennararnir, sem hafði verið falið að semja reglur fyrir kosninguna, því starfi af sér. Síðan var annað fyrirkomulag ákveðið á öðrum kennarafundi. Það var líka í tveimur umferðum, hin fyrri eins og lýst var hér að framan. Í seinni umferð skyldi raða þeim, sem höfðu sex hæstu stigatölurnar eftir fyrri umferð. Þeir tveir, sem þá fá flest stig, verða aðalmenn og þeir tveir, sem koma næst, varamenn. Fyrstu reynslunni af þessu fyrirkomulagi er lýst hér á eftir til umhugsunar.
Athugað var, hverjir voru í fyrsta og öðru sæti á hverjum seðli í annarri umferð. Urðu um það 11 ólík dæmi (af 21 hugsanlegu, þegar um sjö menn er að tefla, eins og var í þetta sinn). Einstök tvennd kom oftast fyrir 6 sinnum—það kom fyrir tvær þeirra—og var sá, sem fékk flest stig, á báðum. Næstar að tíðni voru tvær tvenndir, sem komu fyrir fjórum sinnum, og ein, sem kom fyrir þrisvar. Þar var sá, sem fékk næstflest stig, en þessir tveir komu aðeins einu sinni fyrir saman í tveimur efstu sætunum.
Þeir komust alla leið
Ekki tókst vorið 1999 að kjósa formann nemendafélags Mennta-skólans á Akureyri á þann hátt, sem mælt var fyrir um. Það var ekki í fyrsta sinn, að það þvældist fyrir mönnum að fylgja reglum um kosningu í félaginu. Félagið nefndi þá menn til að setja fram nýjar reglur. Nefndin mælti með raðvali. Vel sóttur nemendafundur samþykkti það einróma. Reglan er sú, að fólk skal bjóða sig fram, hver með meðmæli 10 til 25 nemenda. „Séu fleiri en tveir í framboði, raðar kjósandi frambjóðendum í númeraða röð, eftir því hvern hann vill helst (1), næst helst (2) og svo framvegis. Kjósandi má merkja við eins marga og hann vill og þarf ekki að taka afstöðu til allra, heldur getur til að mynda bara tekið afstöðu til þess, sem hann vill helst og þess, sem hann vill síst.“ En menn leiddu ekki hugann að því fyrirkomulagi, sem lýst er hér að framan (grein 10, Að kjósa nýjan eða gamlan, karlmann eða kvenmann) til að draga úr hættunni á, að menn veljist óheppilega saman, heldur ná þeir tveir kjöri, sem fá flest stig, þegar kjósa á tvo (tveir meðstjórnendur).
Í fyrsta sinn, sem raðval fór fram, vorið 2000, átti í eitt skipti að kjósa tvo (það voru meðstjórnendur). Sex buðu sig þar fram. Annars átti aðeins að kjósa einn. Í eitt skipti buðu 5 sig fram (það var formennskan), þrisvar voru 3 frambjóðendur, fjórum sinnum 2 frambjóðendur og 16 sinnum var aðeins einn frambjóðandi. Kjörsókn var 80%. Í skýrslu um kosninguna heldur laganefndarformaðurinn því fram, að raðval verði notað við Menntaskólann á Akureyri um ókomna tíð.
(Lýðræði með raðvali og sjóðvali, II.A.11)