Lítum á dæmi um það, hvernig yfirvöld könnuðu afstöðu almennings með raðvali, áður en þau tóku ákvörðun.

Á Hvanneyri í Borgarfirði átti að velja lóð fyrir tvær byggingar, aðra fyrir rannsóknarstofu bændaskólans og hina fyrir bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Ríkið á jörðina. Landbúnaðarráðuneytið bað skólastjóra, staðarhaldarann, að benda á heppilegar lóðir. Ýmsar skoðanir voru um staðarval. Staðarbúar þurftu að taka tillit til starfsemi bændaskólans og bútæknideildar og meta áhrif staðarvals á vélaumferð og aðra umferð á íbúðarhúsasvæðum.

Skólastjóri taldi víst, að ýmsum mundi líka það illa, sem hann legði til, hvað sem það yrði, en hann vildi komast vel af við staðarmenn. Hann tók það ráð sem formaður byggingarnefndar staðarins að bera málið undir íbúa Hvanneyrar. En hvernig mátti bera málið undir almenning, fyrst ýmislegt kom til greina? Auðvitað mátti leggja fram það, sem byggingarnefnd kynni að koma sér saman um, en málið var það, að sá kostur myndi ekki aðeins vekja óánægju sumra, hver sem hann yrði, heldur gæti meirihlutinn reynst andvígur honum. Sá meirihluti mundi næsta víst aðeins sameinast um andstöðuna, en vera sundraður um það, sem ætti að verða. Úrræðið var að leita afstöðu íbúanna með raðvali. Lagðir voru fram 12 kostir, og gafst hverjum íbúa kostur á að matsraða þeim. Athugun á matsröðum þeirra staðreyndi ætlun skólastjóra um það, hversu sundurleit sjónarmiðin væru.

Niðurstaða raðvalsins var lögð til grundvallar samkomulagsþreifinga í byggingarnefnd og meðal starfsmanna á rannsóknarstofunni og á bútæknideild. Ákvörðunin varð reyndar önnur samsetning lóða en var meðal kostanna 12, en það voru málalok, sem allir létu sér vel líka. Og það hefði ekki getað gerst öðru vísi en með raðvali, sem veitti vitneskju til grundvallar samkomulagsþreifingum og skilningi, um það var skólastjóri sannfærður.

Hér var um stjórnvald (skólastjóra og byggingarnefnd) að ræða, sem vildi komast undan ábyrgð á ákvörðun, af því að ákvörðunin gæti spillt samskiptum við íbúana. Betra þótti að leggja ábyrgðina á almenning.

Við raðval verða kostir máls auðveldlega fleiri en fólk hefur átt að venjast. Í skipulagsmálum, eins og í þessu dæmi, geta þeir orðið ótölulegir og fleiri en menn ráða við að taka afstöðu til og matsraða. Þá virðist ráðlegt, að þeir, sem hafa frumkvæði í málinu, leggi fyrst fram tvo–þrjá kosti, en aðilar málsins fái tækifæri til að draga sig saman og móta nokkra aðalkosti, sem verði ræddir og rökstuddir skipulega. Þetta sýnir, að aðferðin hvetur til skipulegrar málsmeðferðar. Mál verður að leggja fram með fyrirvara, svo að tækifæri gefist til að móta afbrigði. Þá knýr aðferðin þá, sem flytja málið, til að rökstyðja afstöðu sína með því að vega saman kostina, en aðrir þátttakendur verða að gera upp hug sinn um matsröð þeirra.

Formleg málsmeðferð er greinilega fyrirhafnarsamari við raðval en menn hafa átt að venjast. Samt er ekki víst, að fyrirhafnarsamara verði að komast að niðurstöðu. Dæmið frá Hvanneyri sýnir það.

Lýðræði með raðvali og sjóðvali 2003, I.A.5.