HVERNIG litist fólki á, að barnaskólinn byrjaði klukkan hálftíu? Þannig er það reyndar með þjóð, sem Íslendingar bera sig gjarna saman við, eins og nú skal sýnt fram á.
Ég var staddur í Osló snemma í desember í vetur og átti leið framhjá barnaskóla að morgni dags klukkan hálfníu, í myrkri, og tók eftir því, að ljós voru ekki kveikt í skólastofum og þótti það undarlegt. Ég komst þá að því, að þar í borg hefst kennsla ekki fyrr en klukkan 10 mínútur fyrir níu í öllum bekkjum grunnskóla. Ef Norðmenn flýttu klukkunni að vetrarlagi um eina stund, eins og Íslendingar gera, og skólinn hæfist á sama tíma miðað við sólargang, væri það klukkan 10 mínútur fyrir tíu. Þar sem barnakennsla í skólum Reykjavíkur hefst um áttaleytið fannst mér þetta svo forvitnilegt, að ég kynnti mér skólatíma í Noregi, þar sem líkt stendur á og í Reykjavík, en það er í Kristjánssundi á Norður-Mæri. Sá bær er aðeins sunnar og stendur líkt af sér miðað við þann lengdarbaug, sem skiptir máli fyrir staðartíma. Í Kristjánssundi er sól í hádegisstað um klukkan hálfeitt, en grunnskóli hefst fjórum klukkustundum fyrr, klukkan hálfníu. Ef skóli í Reykjavík, þar sem sól er nú í hádegisstað um klukkan hálftvö, ætti að hefjast eins snemma og í Kristjánssundi miðað við hádegisstað sólar, fjórum tímum fyrr, væri það klukkan hálftíu, en er hálfum öðrum tíma fyrr, klukkan átta. Þegar börn í Reykjavík fara á fætur klukkan sjö til að hafa sæmilegan tíma til að klæða sig, nærast og komast í skólann, er það sex og hálfum tíma fyrir hádegisstað sólar; miðað við klukku, sem er sett þannig, að sól er í hádegisstað klukkan tólf, er fótaferð þeirra klukkan hálfsex. Óhugsandi er, að börn annars staðar í heiminum séu rekin á fætur klukkan hálfsex, og mundi alls staðar talin ill meðferð á börnum og ekki þykja þurfa frekari rannsóknar við. Svefnfræðingur, sem fylgst hefur með þessum málum hér og kynnt það álit sitt, að illt sé við að una, kveðst hins vegar fá þau svör, að það þurfi að athuga frekar, hvort þessi fótaferð sé heilsuspillandi. Mér sýnist hins vegar, að sá, sem ekki skynjar það strax að þannig sé illa farið með börn og að taka þurfi í taumana, þurfi rannsóknar við, eins og raunar er lögfest um þá, sem fara illa með börn.
Morgunblaðinu, Fimmtudaginn 4. janúar, 2001