GYLFI ÁSMUNDSSON SÁLFRÆÐINGUR SVARAR SPURNINGUM LESENDA:

 

Spurning: Nokkuð ber á því, þar sem ekki er framhaldsskóli, að foreldrar flytjist búferlum, þegar börnin komast á þann aldur og telji nauðsynlegt að halda heimili fyrir þau á skólastaðnum, enda séu margar hættur búnar ungmennum. Stundum fer aðeins annað foreldrið og foreldrarnir halda heimili á tveimur stöðum.

Ég heyrði konu halda því almennt fram í tilefni af því að grannkona hennar hugði á slíkt ráð, þegar yngsta barnið komst á þennan aldur, að konur væru aumingjar að elta börnin; það væri ekki vegna barnanna, að þær fylgdu þeim. Að fornu var kveðið á um, að börn færu til vistar annars staðar sextán ára; þeim skyldi sem sagt fleygt úr hreiðrinu. Hvað segir sálarfræðin um tilfinningar tengdar því að fljúga úr hreiðrinu eða að vera fleygt úr hreiðrinu?

 

Svar: Hér koma til mörg álitamál. Ekki er langt síðan sveitabörn þurftu að fara í eimavistarskóla strax á barnsaldri og vera þar alla vikuna, en koma heim um helgar. Það gat verið viðkvæmum börnum mjög erfitt og skapaði stundum meiri vanlíðan hjá þeim en þau gátu staðið undir. Nú eru flest börn keyrð í skóla og heim á degi hverjum. Það er ekki fyrr en að grunnskóla loknum, að þau verða að fara í kaupstaðinn í skóla, stundum langt fjarri heimilum sínum, og hugsa að meira eða minna leyti um sig sjálf.

Ungmenni eru lengur í foreldrahúsum en áður var. Einkum á það við um þau sem eiga sér heimili í þéttbýlinu, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Þau festa ráð sitt og stofna eigið heimili síðar en áður tíðkaðist. Mjög algengt er að þau búi heima þangað til þau ljúka námi. Fleiri eru nú lengur í námi en áður, og ekki er óalgengt að ungmenni búi hjá foreldrum sínum allt til loka háskólanáms á aldrinum 25-30 ára, ef þau hafa valið þá leið. Þau sem eiga heimili í hinum dreifðu byggðum eiga þess ekki kost og foreldrum finnst vafalaust að þau fari á mis við þann aðbúnað sem nemendum í kaupstöðum stendur til boða og vilja bæta þeim það upp.

Hvenær hefur barn eða unglingur nægilegan þroska til að standa á eigin fótum? Hvort er þroskavænlegra að þurfa að fljúga úr hreiðrinu á viðkvæmum unglingsaldri eða fá að njóta öryggis og skjóls heima hjá foreldrum sínum? Slíkt getur ráðist af mörgum þáttum. Bæði ávinningur og áhætta fyrir unglinginn fylgir því að hann fái að spjara sig sjálfur. Unglingar eru misjafnlega á vegi staddir sextán ára gamlir. Á þessum aldri eru þeir þó flestir að skerpa sína eigin sjálfsmynd og sjálfstæði og eru jafnvel í uppreisn gegn foreldravaldinu. Heilbrigðir unglingar á þessum aldri hafa oftast gott af að fara um tíma að heiman, þótt þeim sé það mikilvægt að geta komið heim þegar þeir geta og vilja. Margir foreldrar hafa áhyggjur af börnum sínum, að þau lendi í erfiðleikum eða óreglu án stuðnings foreldra sinna. Nemendur sem þurfa að fara „suður“ í skóla eru þá best komnir hjá ættingjum eða vinum, þar sem þeir njóta hæfilegs öryggis og aðhalds. Þetta er sú leið sem oftast er valin sé þess kostur, a.m.k. í fyrstu á meðan unglingurinn er að fóta sig. Áður en langt um líður kjósa margir þeirra að spjara sig alfarið sjálfir og búa í heimavist eða leiguhúsnæði.

Margir unglingar eiga þess kost að gerast skiptinemar í fjarlægum löndum, 17-18 ára gamlir. Það verður þeim oftast ómetanleg og þroskandi lífsreynsla, þótt hún geti stundum verið þeim sjálfum og foreldrunum nokkuð erfið. Margir foreldrar eiga mjög erfitt með að sleppa hendinni af börnunum. Þau verða að þessu leyti háð börnum sínum og umhyggja þeirra gerir börnin háð þeim og kemur í veg fyrir að þau fái að þroska sjálfstæði sitt. Í þeim tilvikum grípa foreldrar, annað eða bæði, stundum til þess ráðs að fylgja börnum sínum og halda fyrir þau heimili þar sem þau ganga í skóla. Foreldrar þurfa þó að hafa nokkuð góð efni til að halda heimili á tveimur stöðum. Stundum er þetta liður í þeim undirbúningi að flytja sjálf úr sveitinni, að eiga sér íbúð „á mölinni" til að hverfa að. Einnig getur það verið viðleitni þeirra til að koma fótunum undir barnið, sjá því fyrir framtíðarhúsnæði og eiga þar athvarf sjálf þegar svo ber undir. Þetta eru hagkvæmnisástæður, sem vel eiga rétt á sér. Höfuðmáli skiptir þó að hjálpa unglingnum til að standa á eigin fótum og verða sjálfstæður og sjálfbjarga einstaklingur.

Morgunblaðinu 5. desember 1998