Talsverð starfsemi fer fram við Háskóla Íslands sem greidd er af útlendingum. Svo er um fleiri rannsóknarstofnanir. Hér á landi er margt sem þykir merkilegt rannsóknarefni erlendis. Þess vegna er óskað eftir þátttöku íslendinga. Einnig eru dæmi um að íslenskir vísindamenn séu fengnir til starfa og greitt fyrir það af útlendingum fyrir það eitt að þeirra er þörf, ef vel á að vinna.
Harðnandi samkeppni
Færir háskólagengnir íslendingar hafa átt auðvelt með að fá störf erlendis. íslenskt ríkisfang þeirra og aðrir annmarkar á starfsréttindum ytra hefur ekki spillt því að þeir væru ráðnir ef þeir voru eftirsóknarverðir til starfa.
Öðru máli gegnir um háskólagengna miðlungsmenn sem vilja ráða sig til starfa erlendis um lengri eða skemmri tíma. Bæði í Vestur-Evrópu og Bandaríkjum Norður-Ameríku eiga innlendir rétt til vinnu á undan erlendum mönnum. Samningurinn um evrópskt efnahagssvæði breytir þessu. Ef Ísland gerðist aðili að honum yrði hægara fyrir háskólagengna miðlungsmenn íslenska að ráða sig til starfa um lengri tíma ytra.
Þrengt er að Háskóla íslands með rekstrarfé. Kennarar Háskólans flytja það mjög í dagblöðum hvað þjóðinni sé mikil nauðsyn að efla starfsemi hans en draga ekki úr henni. Meðal annars er vísað til harðnandi samkeppni og tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins.
Hvenær er nóg komið?
Vitaskuld trúir almenningur því að mennt sú sem býðst við Háskóla Íslands sé máttur, ekki aðeins máttur þess sem þannig fær starf og getur vegna prófskírteinis skákað öðrum, heldur líka máttur í þágu lands og þjóðar. En hvenær er nóg komið? Stjórnvöld þrengja víðar að vegna erfiðs fjárhags. Þess vegna er líka þrengt að Háskólanumen ekki vegna vanmats á honum, svo kunnugt sé.
Skyldu greiðari tækifæri fólks með miðlungs háskólagöngu og meðalárangur til starfa í Vestur-Evrópu leiða til þess að farið yrði að líta á kostnað við háskólagöngu hér á landi sem styrki til útflutnings þess fólks? Ef svo færi er hætt við að það mótaði fjárveitingar fljótlega. Það er að vísu aldrei vitað í upphafi hvort háskólaganga hvers og eins verði leið út í heiminn án afturhvarfs en útflutningsstyrkir þykja yfirleitt óæskilegir.
Reynslan frá Nofegi
Það er þekkt víða um lönd að ungt fólk, sem hefur háskólagönguí fjarlægum stöðum, snúi ekki heim. Það á ekki síst við í norðlægum landshlutum sem eðlilegt er að bera Ísland saman við. Stofnun háskóla í Tromsö í Noregi fyrir tveimur áratugum varð mikil lyftistöng fyrir bæinn og landshlutann. Margir starfa við hann og það varð auðveldara að fá háskólagengið fólk til starfa í Norður-Noregi.
Þetta er þó ekki að öllu leyti sambærilegt við Háskóla Íslands. Háskólinn í Tromsö er kostaður af norska ríkinu. Norskir norðlendingar hafa ekki ástæðu til að telja það eftir sem útflutningsstyrki, þótt fólk úr Tromsö-háskóla hverfi til starfa syðra, heldur fá Tromsö og Norður-Noregur þannig framlag til starfsemi sem áður var einskorðuð við Osló, Björgvin og Niðarós.
Áhugaleysi almennings
Það má búast við því að aðild Íslands að EES verði til þess að slæva tilfinningu almennings fyrir því að efling Háskóla Íslands sé í þágu lands og þjóðar, heldur verði hann frekar en nú talinn í þágu þeirra sem starfa við hann og framlög til hans metin í samræmi við það.
Áhugaleysi almennings yrði að því leyti enn bagalegra en nú er að með EES-samningnum mundu aukast freistingar háskólagenginna að starfa erlendis.
Þannig gæti aðild Íslands að EES-samningnum þrengt að Háskólanum frá þremur hliðum, hann þyrfti meira til að standast samkeppni, hann fengi minna vegna minni áhuga almennings á starfsemi hans og honum héldist verr á fólki.
Vísi 16. nóvember 1992