Í haust tók ég að mér stærðfræðikennslu í 8. og 9. bekk unglingaskóla í forföllum í nokkrar vikur. Ég hafði aldrei kennt unglingum, en ég vissi að skólinn var í góðu áliti. Skólastjóri sagði mér að kennsla unglinga væri 90% mannleg samskipti. Ég tók eftir því í frímínútum að kennarar töluðu mikið um agamál, um það hvernig nú væri látið í þessum bekknum eða hinum bekknum og hvað væri til ráða og um vandræði einstakra nemenda. Nokkur huggun virtist vera í því fólgin að minnast enn erfiðari árganga. Mér varð hugsað til þess hvernig mundi vera í þeim unglingaskólum sem ekki væru í jafnmiklu áliti, hvílíkt taugastríð starf kennara væri og þá auðvitað um leið skóladvölin nemendunum.
Skólastjóri var alltaf tilbúinn að leggja kennurum lið, ef þeir voru í vandræðum. Einn kennarinn bar viðhorfin til agamála saman við ástandið í skóla þar sem hann kenndi áður. Þar hefði aldrei verið minnst á agavandræði, því að allir áttu að vera svo fullkomnir, og máttu kennarar eiga sín vandræði sjálfir. Var hann feginn því að hér töldust agavandamál ekki feimnismál og þakklátur fyrir þann stuðning sem fékkst til að stilla óróaseggi. Elsti kennarinn hélt því fram að þeim kennara væri ekki trúandi sem aldrei þættist eiga í vandræðum með nemendur.
Þó að skólabragur þætti góður miðað við það sem menn vildu búast við í unglingaskóla, spilltist námstími verulega af klið og óróa. Virkir námstímar verða því ekki margir á degi hverjum. Mér verður hugsað til þeirra sem hér áður fyrr lásu utan skóla eða voru stuttan tíma í skóla á vetri, eins og tíðkaðist til sveita, og þykist sjá af þessari reynslu hvað þar hefur munað miklu um að tíminn ódrýgðist ekki eins og nú gerist í skólum með fjölmenna bekki og með nemendur sem koma í skólann vansvefta eftir myndasýningar í heimahúsum. Nemendur í 9. bekk skiptust í bekki eftir því hve hratt þeir vildu fara yfir námsefnið, í hraðferð, miðferð og hægferð. Mér var ókunnugt um þetta skipulag og þótti það merkilegt.
Nemendur völdu hraða í hverri námsgrein, og gat sami nemandi t.d. farið hægferð í einni grein, en miðferð í annarri. Gátu bekkirnir því greinst nokkuð í sundur eftir námsgreinum. Í hægferðarbekk sem ég kenndi voru nemendur af ýmsu tagi. Sumir gátu lítið og höfðu lítinn áhuga, aðrir höfðu áhuga og vildu njóta kennslu, en þurftu að leggja talsvert að sér. Nokkrir hefðu getað lært, en kærðu sig ekki um það. Sumir hinna áhugalausu voru spakir í tímum, en aðrir óværir, og sagði kennarinn sem ég gegndi fyrir, að hér yrði að sætta sig við nokkurn klið. Þurftu hinir áhugasamari nemendur stundum að tala nokkuð hátt til að kennarinn heyrði til þeirra þegar hann
stóð upp við töflu.
Þessi aðgreining á nemendum 9. bekkjar þótti reynast vel. Meiri kyrrð væri í tímum en áður, og var fyrirkomulagið talið í þágu jaðarhópanna, þeirra sem minnst gátu og þeirra sem voru fremstir. Ég sé fyrir mér þá nemendur í hægferðinni sem verst eiga með að læra og reyna oft vanmátt sinn í tímum, hvort þeim hefði ekki liðið hálfu verr í bekk sem væri meira blandaður og með enn hraðari yfirferð. Það var nokkur ánægja að kenna þeim sem gátu lítið og vildu læra og njóta kennslu þrátt fyrir kliðinn, eiginlega var það það í starfinu sem mest var varið í og að fá fyrir í kveðjuskyni þakkir með handabandi. Ætli það sé ekki í slíka reynslu sem kennarar sækja styrk þegar á móti blæs? Kennslustund í hraðferðinni var hins vegar eins og leikur og daglegt tilhlökkunarefni. Þar heyrðist varla aukatekið orð, en stundum varð almenn umræða um rök reikningslistarinnar í tengslum við dæmaúrlausnir.
í 9. bekk er orðið nokkuð skýrt hverjum fellur skólanám og hverjir una skólaskyldunni illa. Ýmsir hljóta að valda áhyggjum.
Nemendur sem ekki hafa nokkurn áhuga á námi venjast á að verja tíma sínum illa, venjast þeirri tilfinningu að beygja sig fyrir því sem þeim hlýtur að finnast vera ofbeldi (skólaskyldunni), bíða eftir því að hverjum tíma ljúki, að hverjum degi ljúki, að kennsluvikunni ljúki og að veturinn endi og skólaskyldan. Þeir venjast á að hunsa allt sem þeir sem ráða ætlast til. Þótt þeim leiðist eru þeir ekki endilega til vandræða í tímum. Ég skil ekki að þetta sé í þeirra þágu. Þeir ættu að fá að ráða sér og eiga kost á því að koma til náms síðar þegar þeir hafa gert sér grein fyrir gildi þess. Sumum mun farnast illa, en svo er líka nú.
Reynslulitlum manni dettur ýmislegt í hug sem reyndum þykir óraunhæft. Fyrstu tvo dagana fylgdi ég kennaranum, sem ég leysti af, í tíma og gat liðsinnt honum með því að ganga á milli nemenda og leiðbeina þeim hverjum eftir ástæðum, en á meðan gat hann staðið við töfluna og kennt öllum hópnum. Þetta er einmitt það sem hver kennari þarf oft að gera samtímis, að kalla á almenna athygli og sinna þörfum einstakra nemenda. Er ekki líklegt að kennarar nýttust betur með því að tveir kennarar væru saman? (Til að halda óbreyttum kostnaði yrði að stytta kennslutíma um helming í þeim greinum þar sem þessu yrði beitt.) Þannig gætu kennarar komið til móts við mismunandi þarfir nemenda. Kennarar gætu líka lært hver af öðrum, og þeir þyrftu ekki að vera einir að kljást við erfiðan bekk. Ég spái því reyndar að erfiðum bekkjum og þreyttum kennurum mundi fækka verulega með slíkum vinnubrögðum.
Lesbók Morgunblaðsins 21. janúar 1989 3