Eins og kunnugt er hefur bændaskólinn á Hólum ekki starfað síðan vorið '79.(Að vísu voru haldin þar nokkurra vikna búnaðarnámskeið í fyrravetur og eru ráðgerð í vetur). Ætlun stjórnvalda er að hefja þar reglulega kennslu komandi haust. Staðurinn hefur þó ekki verið í eyði. Unnið hefur verið að ýmsum nýmælum sem ættu að styrkja skólastarfið. Með hinni nýju fiskeldisstöð gefst tækifæri til að kenna fiskeldi verklega samhliða bóklegri kennslu. útihús eru aukin í þágu búfjárhalds af ýmsu tagi. Einhvers staðar í landinu þarf að bjóðast rækileg kennsla í hestamennsku. Æskilegt er að sú kennsla verði við bændaskóla. Að öðrum kosti má búast við að slík kennsla verði hafin annars staðar og án tengsla við kennslu í almennri búfræði. Ekki er afráðið hvar skuli kenna loðdýrafræði. Loðdýrarækt hefur vissulega lánast betur norðan lands en sunnan. Skógur þrífst vel á Hólum. Komið hefur til greina að skógarvörður héraðsins sitji þar og kenni um leið skógrækt.
Allt er þetta góðra gjalda vert. Endurreisn staðarins er samt ekki trygg nema takist að koma á góðu lagi og festu á almenna búnaðarfræðslu Hólaskóla. Annars má óttast að hinir ýmsu sérfræðingar sem þangað þarf að ráða til að sinna sérstökum verkefnum fælist staðinn og vilji önnur störf frekar. Hér má einnig hafa í huga sjónarmið fjölskyldunnar allrar þegar hjón eiga hlut að máli og velja sér búsetu.
Skólasókn að Hólum hefur oft og tíðum verið dræm svo að til vandræða hefur horft, eins þótt hinir merkustu menn hafi stjórnað skólanum. Eftir sem áður hlýtur að bera minna á Hólastað en Hvanneyri þó að hafin verði á Hólum ýmis ný og merk starfsemi. Hætt er því við að nemendur í almennri búfræði muni miklu fremur sækja að Hvanneyri en Hólum. ef staðirnir eiga að gegna þar sama hlutverki. Hlutskipti kennara á Hólum yrði þá heldur dapurlegt ef þeir sætu að nokkru leyti uppi með þann úrtíning sem ekki kæmist að á Hvanneyri á hverju ári. Vissulega getur verið meira varið í að vera á fámennum skóla þar sem náin kynni verða á milli nemenda og kennara og víst er einhver sérstakur þokki yfir Hólum sem heillar menn, en þessu gera menn sér tæplega grein fyrir að óreyndu.
Undanfarið hefur verið eins vetrar nám í bændaskólunum. Þar áður var boðið upp á tveggja vetra nám þeim sem höfðu takmarkaða skólagöngu. Þá lærðu þeir nemendur fyrri veturinn almennar greinar eins og í gagnfræða- og héraðsskólum en sneru sér svo seinni veturinn að fullu að búfræðinámi. Nemendur áttu að hafa reynt sveitastörf, en skólinn hafði engin afskipti af þeirri starfsreynslu.
Samkvæmt nýjum lögum um búnaðarfræðslu eiga nemendur að vera fyrst í skóla þrjá mánuði, síðan þrjá mánuði í verknámi á bændabýlum á vegum skólans og loks vetrarlangt í skóla. Þetta sýnist miklu álitlegra skipulag en tveggja vetra námið eins og það var, þar sem fyrsta bóklega námið verður sem hagnýtust búfræði vegna búfjárhirðingar (fóðrun, mjaltir, burður), áburðar og vélanotkunar til að nemendur hafi sem mest not af verknáminu, kunni skil á því sem vinna þarf á bæ og ráði við verkefni sem verkkennarar bændaskólanna setja þeim fyrir. Seinni veturinn má svo fara rækilegar í fræðin og kenna almennar greinar frekar en gert hefur verið í grunnskólanum. Þannig hlýtur að eiga að útfæra tilgang hinna nýju laga.
Nú er spurning hvort ekki væri heppilegast og nýtti kennslukrafta og húsakost best að tengja saman námið á Hólum og Hvanneyri. Hólar rúma um helming á við Hvanneyri. Þá mætti hafa upphafsnámið á Hólum. Þar yrðu teknir inn nemendur tvisvar á vetri. Þeir færu svo allir í verknám í apríl og kæmu allir að Hvanneyri haustið eftir. Með þessu móti stæði Hólaskóli ekki í skugga Hvanneyrar, heldur væru skólarnir samvirkir. Mér þykir líklegt að byrjunarnemendur verði áhugasamir í besta lagi, eins og ég geri ráð fyrir að byrjunarbóknámið verði. Þeir eru nefnilega að búa sig undir verknámið út um sveitir og ætla að standa sig þegar þeir koma hver á sinn bæ. Kennarastarf á Hólum yrði þá ekki síður eftirsóknarvert en á Hvanneyri. Sérgreinakennsla yrði á báðum stöðum og hefðu nemendur tækifæri til að velja sér slíkar greinar á hvorum staðnum um sig ásamt almennu búfræðinámi. Slíkt samstarf skólanna mundi vekja ánægjulegan anda á báðum skólastöðum.
Tímanum 1. febrúar 1981, Frey 77 (1981) 48,58