Skólarnir eru þrír: Hvanneyri, Hólar og Reykir í Ölfusi

 

Eins og kunnugt er starfa nú þrír búnaðarskólar á landinu. Á Hvanneyri og á Hólum er kennsla miðuð við þann búskap, sem flest sveitaheimili stunda, en á Reykjum eru nemendur fyrst og fremst búnir undir garðyrkju. Það hefur lengi verið stefnt að því af sunnlenskum bændum að koma upp á Suðurlandi búnaðarskóla af því tagi, sem hefur verið á Hvanneyri og á Hólum. Málið fékk meira að segja þær undirtektir í lok síðustu heimsstyrjaldar að sú stefna var lögfest. Þó hefur alltaf setið við ráðagerðirnar. Enn var málið á dagskrá á Búnaðarþingi síðastliðinn vetur og undirtektir enn góðar. Ég hygg þó að sú langa bið, sem orðið hefur á málinu, sýni að málið er í sjálfheldu, og að það kunni að verða það alllengi enn. Það er mikið átak og kostnaðarsamt að koma upp frá grunni velbúnum búnaðarskóla. Ég geri ráð fyrir því, að þeim, sem er helst ætlað að sækja fé til skólans í ríkissjóði, þingmönnum Sunnlendinga og þingmönnum, sem helst sinna landbúnaðarmálum, þætti gott ef lausn fyndist á málinu án mikillar fjárfestingar.

 

Hvar á Bændaskóli á Suðurlandi að vera?

Sú lausn er til, tel ég. Hún er sú að kannast við það, að á Suðurlandi er nú þegar búnaðarskóli. Þar eru að vísu ekki kenndar ýmsar þær greinar, sem kenna verður við búnaðarskóla, sem henta skal íslenskum búskap yfirleitt. Ef menn vilja gera búnaðarskólann á Reykjum alhliða, svo hann búi menn undir hvers konar búskap, kúahald og fjárbúskap með heyöflun og garðyrkju verður það hægast gert með því að breyta námsskrá, ráða kennara við nýjar greinar og gefa nemendum kost á því að velja á milli námsgreina eftir því til hverrar greinar búskaparhugur þeirra hneigist. Sumt af því, sem nú er kennt við skólann á Reykjum, á erindi til allra nemenda búnaðarskóla, og þykist ég því sjá fram á að kennslukraftar myndu nýtast betur við nýskipan skólans. Sú nýskipan, sem ég ræði, ætti að geta komist á án mikils byrjunarkostnaðar; í næsta nágrenni er búrekstur og jarðir á hendi ríkisins, sem nota má í þágu skólans, og ekki er heldur langt að sækja búfræðikennara. Gæti hentað að þeir væru að hluta ráðunautar bænda á Suðurlandi.

Við búnaðarskólann á Hvanneyri starfar búvísindadeild. Starfsmenn þeirrar deildar ráða eins og margir kannast við yfir haldgóðri þekkingu á ýmsum greinum búfræðinnar. Starfslið deildarinnar hefur stöðugt styrkst. Geri ég ekki upp á milli manna, en mest munaði um það að fá að deildinni í einu tvo menn vísindalega þjálfaða í búfjárfræði, Magnús skólastjóra og Ólaf yfirkennara við deildina. Það er enn ágreiningur um það meðal háskólamenntaðra búfræðinga hvort heppilegra sé að bjóða upp á framhaldsmenntun í búfræði við búvísindadeildina á Hvanneyri eða hefja slíka kennslu við Háskólann í Reykjavík. Hitt tel ég að ekki verði deilt um, að menn sækja ekki lakari menntun til starfa við íslenskan landbúnað í búvísindadeildina á Hvanneyri en menn fá með B.Sc.- prófi í erlendum háskólum. Þess vegna er óhætt að segja, að á Íslandi er nú starfandi búnaðarháskóli þó að lög heimili ekki að kalla búvísindadeildina því nafni og rita með stórum upphafsstaf. Slík lagabreyting skiptir ekki miklu máli hjá því að bæta starfsskilyrði deildarinnar.

Mér er kunnugt um það, að þeir tveir menn, sem ég nefndi að ofan, væntu þess þegar þeir sóttu um starf þar, að stjórnvöld styddu vel við deildina. Var það ekki síst fyrir það, að landbúnaðarráðherra hafði þá nýlega lýst því yfir á Búnaðarþingi, að hann stefndi að því að á Hvanneyri yrði miðstöð búfræðirannsókna og kennslu. Það er óhætt að fullyrða að þeim, sem fylgjast best með málum, finnst að þessari stefnuyfirlýsingu hafi verið fylgt slælega eftir. Það er alvarlegt mál og varðar alla þá, sem hafa áhuga á eflingu stofnana utan næsta nágrennis Reykjavíkur, þegar þannig er að máli staðið, ekki síst fyrir það, að hér verður því ekki við borið eins og oft ella að ekki fáist vel hæfir menn til starfa.

Það er margt smátt, sem kemur til kasta stjórnvalda í þessu efni og samanlagt ræður því, hvort í raun stefnir að því að gera á Hvanneyri þá miðstöð, sem ráðherra vildi stefna að með yfirlýsingu sinni. Slíku marki ná stjórnvöld ekki nema þau hafi það að leiðarljósi við afgreiðslu smárra mála jafnt sem stórra. Ég ætla ekki að rekja hér þau mál, sem þarf að sinna og hefði mátt sinna betur. Það er þó óhætt að segja, að það mæðir mikið á forstöðumönnum stofnana utan Reykjavíkur þegar þeir geta ekki treyst stjórnvöldum fyllilega að því er varðar vöxt og viðgang stofnunarinnar, heldur þurfa að vera á stöðugum þeytingi til og frá Reykjavík til að halda stjórnvöldum við efnið, jafnvel við eigin yfirlýsingar. Auk þess er þannig farið illa með tíma vísindalega þjálfaðra manna.

 

Í sama frumvarpi eru ákvæði um búnaðarháskóla á Hvanneyri.

Frumvarpið gerir ráð fyrir verulegri eflingu búnaðarfræðslunnar.

Von er á því að þetta frumvarp verði bráðlega lagt fyrir alþingi.

 

Frey 71 (1975) 472-4