Strjálbýlið í sveitum landsins og örðugar samgöngur hafa ráðið nokkru um það að skólar til sveita hafa haft miklu fámennari árganga en skólar í þéttbýli. Sveitaheimilin hafa haft þörf fyrir aðstoð barna við bústörf nokkuð af þeim tíma, sem börn í þéttbýli eru í skóla, og börnin hafa eftir því sem ætla má viljað veita þá aðstoð. Það hefur valdið nokkru umþað að skólahald hefur verið styttra fyrir börn í sveitum en í þéttbýli. Í grein þessari verður rætt nokkuð um það hvað er heppileg skólastærð og skólatími.
Sveitafólk og fulltrúar þess hafa undanfarin ár látið skólamál til sín taka í vaxandi mæli, og á ég þá við mál barna- og unglingaskóla. í mörgum byggðarlögum hefur verið komið upp myndarlegum skólabyggingum með rausnarlegu framlagi úr ríkissjóði og hreppssjóði eða hreppssjóðum. Sveitafólk hefur viljað að sveitabörnin hlytu ekki lakari skólagöngu en tíðkast meðal frændfólks þess í þétt býli. Forystan hefur verið í þéttbýlinu, og þar hefur fyrst orðið það sem menn hafa talið horfa til framfara í skólamálum, en sveitirnar hafa komið á eftir fyrr eða síðar.
Hvað hefur svo fólki, hvort sem er í þéttbýli eða sveitum, gengið til með þeim mikla áhuga sem það hefur sýnt á skólamálum og þá helst eins og hann hefur komið fram í byggingu skóla? Auðvitað hafa menn verið að sækjast eftir þeirri menntun sem alltaf hefur verið yfirlýstur tilgangur skólahalds. Svo kemur til og þá fyrst og fremst í Reykjavík og stærri stöðum hér á landi eins og í öðrum lönd um með líka framleiðsluhætti, að það þarf að koma börnunum fyrir einhvers staðar meðan þau eru börn. Börnin í Reykjavík, svo ég taki dæmi, hafa bókstaflega misst bæinn sinn eins og hann var fyrir stríð í hendur eða öllu heldur undir hjól 30 þúsund bíla, en það er ekki fjarri því að vera bíll á barn. Hef ég þá ekki fyrst og fremst í huga umferðarhættuna, heldur það að börnin hafa tapað yfirráðum yfir götunum og athafnafrelsi sínu þar, en göturnar voru leiksvæði þeirra. Svo hafa skipulagsglaðir fullorðnir íbúar bæjarins þrifið burtu óregluleg svæði, eins og þau væru lýti. Ég nefni það sem ég þekki best, Klambratúnið og nágrenni, en það var sældarreitur barna í allri sinni fjölbreytni, en á nú að vera augnayndi fullorðinna í frítíma þeirra. Auk þess sem leikjum er ekki ætlaður neinn staður í eðlilegum tengslum við samastað barnanna, heimilin er atvinnu flestra nú þannig háttað, að þar eru börn og unglingar vandamál, en áður voru þau liðsafli, sem þörf var fyrir. Loks er víða lítið athvarf fyrir þau heima, þar sem enginn er heima á daginn 5 daga vikunnar. Allt þetta veldur því að það sýnist vera nærri réttu lagi að segja með helsta unglingafræðingi Norðmanna, að fólk ætti helst að fæðast fullorðið. En einhvers staðar verða börnin að bíða (þangað til þau verða fullorðin). Skólarnir eru hentugir til að leysa þessi vandræði nokkuð og því hentugri sem skólinn stendur lengur. Enda er það trúlega ekki fjarri hugmyndum margra unglinga og stálpaðra barna að skoða skólann sem hæli, þar sem þeim er komið fyrir. Væntanlega gildir það sem ég segi um skólann sem hæli og gæslustöð helst í þéttbýli og síður eða ekki í sveitum, þar sem flesta tíma árs er nokkurt lið í börnum og unglingum og suma tíma mikið, en þau börn sjaldfundin, sem sækja meira eftir þroska samkvæmt framlengdri stundaskrá skólans en þeirri viðbótarmenntun, sem vinnan veitir.
Margir íslendingar hafa sýnt fram á það hvað langt skólaár barna og unglinga er ekki síður hælisvist en menntun með því að ná þeim námsárangri, sem þarf fyrir framhaldsskóla með margfalt styttri skólagöngu en verður í löndum þar sem hælisþörfin er miklu meiri en verið hefur hér. Menn gera ef til vill ekki mikið með slíka reynslu, enda erfitt að skjalfesta hana og komast áfram á henni í nútímalegu skilríkja- og skjalalandi. Þó benda í sömu átt athuganir á því hvernig skólatími nýtist til náms, þar sem hann er orðinn langur. Það reynist vera furðu lítill hluti skólatímans sem nýtist til þess náms og þeirrar kennslu, sem er yfirlýst viðfangsefni skólanna.
Þriðja hlutverk skólanna er hlutverk, sem varðað hefur stöðugt fleiri beint síðustu árin og áratugina og á trúlega mestan þátt í áhuga forystuliðs sveitafólksins á bættu skólaskipulagi. Við skólagöngu hljóta menn þau skilríki, sem krafist er í landinu til þess að veitast ýmsar stöður og störf, og einmitt þau störf, sem fylgir betri efnahagur en skilríkjalausu störfunum. Þau skilríki, sem eru þannig ávísun á góð efni, hljóta menn að vísu ekki fyrr en í framhaldsskólum, en mér segir hugur að forystulið sveitafólksins telji tryggara að haga skólahaldi í sveitum líkt og gerist í fjölmenninu, þar sem það auðveldi börnum þeirra aðgang að skilríkjaskólunum.
Það má því til með að athuga hvað er góður skóli. Þegar börn byrja í skóla, hafa þau lært að nota líkama sinn, þau hafa lært að beita málinu og ráða við tilfinningar sínar. Þau hafa lært að reiða sig á sig sjálf og hafa hlotið lof fyrir að eiga frumkvæði að því að læra meira. Oft eru höfð á þessu endaskipti í skólum. Þá mæla aðrir fyrir hvað þau skuli læra, hvenær þau skuli læra það (svo til upp á mínútu), hvar og hvernig, og þau venjast á að verða öðrum háð um menntun sína. Þau fá að vita það, að það, sem er einhvers virði, er það, sem er kennt, og sömuleiðis, að ef eitthvað skiptir máli, þá verði einhver til þess kvaddur að kenna þeim það. Svona hafa þessi endaskipti á þroskaskilyrðunum verið orðuð af öðrum en mér. Hver er svo útkoman?
Það er ekki einleikið, hvað margir kennarar telja það miklu ánægjulegra að kenna börnum fyrstu skólaárin en árin, þegar þau fara að nálgast fermingu. Bendir það ekki til þess, að þá sé búið að kæfa með þeim heilbrigða þroskaviðleitni, þá þroskaviðleitni, sem fékk að njóta sín í bernsku án reglugerða um það, hvaða framför manni ber að taka samkvæmt staðfestri stundaskrá? Margir þekkja þennan mun að vera barn þar sem þroskalöngunin rekur barnið til að biðja um að fá að spreyta sig á einhverju, sem er í fullorðna lífinu eða þar sem stundaskráin og kennarinn svo að segja fyrirskipa hverja framför og banna eigin leiðir til þroska. Þess vegna nýtist tíminn svo miklu betur þar sem hugurinn er á undan verkefninu, og þá dugar tæplega og jafnvel spillir fyrir að lengja skóladag og skólaár, ef það verður gert þannig að hugurinn verður ekki einu sinni á eftir verkefninu, heldur langt í burtu.
Hér er um það að ræða að námið miðast við kennarann, og raunar er verið að gera kennurum rangt til með því að segja að svo sé, þar sem þeirra vinna er samkvæmt fyrirmælum, reglugerð og stundaskrá. Ívenjulegri bekkjarkennslu eiga börnin að ganga í takt eins og kennarinn ákveður. Það eru þó til aðrar aðferðir þar sem kennarinn á ekki kost á að láta börnin ganga í takt. Þá er sami kennari látinn hafa á sama tíma börn á ýmsum aldri og með misjafna greind. Við slík skilyrði þegar aldur og hæfileikar eru misjafnir tekur kennarinn frekar til þess bragðs að treysta á þann styrk til náms, sem á upptök sín í nemendunum: áhuga, sjálfræði, forvitni og rannsóknarhneigð, þreki og þolinmæði. Allt þetta er venjulega svo ríkt í eðlilegu barni að það eru beinlínis mannréttindi hvers nemanda að vera laus við kennarann öðru hverju, en það verður hann þegar hver kennari hefur fá börn úr hverjum árgangi eins og hér er talað um og þarf að skipta sér á árgangana.
Annað, sem léttir námið, þegar kennt er blönduðum aldurs- og greindarflokkum, er, að kennarinn og börnin hafa fyrir sér eðlilegan þroskamun í bekkjunum, en það sýnir börnunum, hvað það er eðlilegt að leita aðstoðar og hvetur þau til náms og léttir það að hafa stöðugt fyrir augun um félaga við nám, sem eru annað hvort á þeirri braut, sem þau eiga að fara eða hafa farið. Í Bandaríkjunum þar sem eru nokkur samtök um slíka kennsluhætti, komast menn svo að orði, að börnin læri á mismuninum í flokknum. Þetta er auðvitað ekki framandi sveitafólki og fólki, sem hefur alist upp í sveit og margt hefur gengið í fámenna skóla, þar sem kennarinn gat ekki annað en blandað börnum á ýmsum aldri og ýmsu námsstigi saman, en það sem hér er nýtt er sú kenning að skólahverfum sem hafa svo mörg börn að þar mætti hafa venjulega aldursskiptingu í bekki, skuli skipt í þannig blandaða flokka til að bæta námið. Auðvitað fylgja þessu að mörgu leyti aðrir kennsluhættir en í samstæðum bekkjum.
Enn einn kostur kannast menn við að fylgi slíkum blönduðum bekkjum eða námsflokkum barna. Í þeim er verulega minni hætta en í bekkjum stöðluðum eftir aldri að nokkur nemandi verði alltaf lakastur í hópi félaga sinna eða að annar verði alltaf bestur. Hvorugt er heppilegt uppeldi.
Ég geri ráð fyrir því að forystulið sveitanna muni áfram vinna að því að sveitabörn geti aflað sér með skólagöngu sömu skilríkja til lífsgæða og forystulið þéttbýlisins aflar sínum börnum. Með þessari grein minni vildi ég sýna fram á að þetta næst ekki endilega og ef til vill alls ekki með yfirborðsjöfnuði eins og lengd skólaárs og skólatíma yfirleitt, þar sem atvinnuhættir og félagshættir í sveitum bjóða upp á aðra kosti til náms, og þá kosti ber að nýta, frekar en koma á slíkum yfirborðsjöfnuði sem kann að vera mesti ójöfnuður. Það vill svo vel til að í þessu sýnist geta farið nokkuð saman námsþarfirnar, vinnuþörf sveitaheimilanna og vinnulöngun barnanna og jafnvægi milli dvalar barna í heimahúsum og fjarvistar þaðan í skólum. Kennsluhættina þarf að miða við það.
Eftirmáli
Ég skal kannast við það að þá yfirsýn, sem ég hef yfir skólamál í þessari grein, hef ég að mestu fengið við að lesa bókina Hvis skolen ikke fantes sem út kom í Noregi á síðasta ári, en hef þó staðfært efnið með tilliti til skólahalds í sveitum hér á landi sérstaklega. Nils Christie höfundur bókarinnar er félagsfræðingur og prófessor í afbrotafræði við háskólann í Osló og hefur því vegna menntunar sinnar og starfs flestum öðrum fremur athugað hvaða félagshættir og uppeldisskilyrði svo að segja skila af sér unglingum með eða án afbrotahneigðar. Þess nýtur hann þegar hann skrifar um skólamál. Útgáfa þessarar þörfu bókar er í rauninni stórviðburður í umræðum um þjóðfélagsmál, því að með því ljósi sem hún kastar á skólamál fæst einnig nærtækur skilningur á valdstjórn yfirleitt, hagstjórn og barnastjórn án nokkurra stóryrða.
Grunnskólanefnd hefur beðið þá sem kynnu að vilja gera breytingartillögur við grunnskólafrumvarpið og frumvarp til laga um skólakerfi að þeir sendi tillögur sínar til hennar í menntamálaráðuneytið. Ég óska eftir því að nefndin taki yfirleitt tillit til þeirrar greiningar á skólakerfinu sem Nils Christie leggur fram í bók sinni, en til vara að tekið verði að minnsta kosti það mikið tillit til þeirra atriða sem ég ræði í grein minni, að ný skólalöggjöf megi teljast til framfara í sveitum landsins.
Morgunblaðinu 24. ágúst 1972