Að minni hyggju hefur menntun sú, sem bændaskólarnir hafa veitt frá upphafi til þessa dags, verið fyrst og fremst almenn menntun og þjálfun í að umgangast þekkinguna. Ég tel, að þetta hafi skipt ekki minna máli en sá búfræðilærdómur, sem menn gátu innbyrt. Þetta held ég líka, að eigi að einkenna alla menntun, þó að hún sé bundin við sérgrein, að hún sé alhliða þroskandi og hjálpi mönnum til að hafa betri tök á umhverfinu, hvernig sem það er. Bændaskólarnir hafa breyst mikið síðustu áratugina. Nú er gert ráð fyrir talsvert meiri almennri kunnáttu nemenda, þegar þeir koma í skóla, og síðast var yngri deild lögð niður við bændaskólann á Hvanneyri. Er þá ætlast til þess, að nemendur komi í skóla með landspróf eða gagnfræðapróf. Þessari nýskipan fylgir sá ókostur, að nú vantar tengilið milli árganga eins og var, þegar allmargir stunduðu nám tvo vetur, og verður því erfiðara að fá festu í skólalífið. Þrátt fyrir þær breytingar, sem orðið hafa á kennslu bændaskólanna, þarf enn að gera breytingar, ef búfræðingsmenntun á að halda þeim sessi, sem hún hafði um áratugi. Annars fer um þá menntun eins og gagnfræðamenntunina, en gagnfræðingar voru mikils metnir á fyrstu áratugum þeirrar menntunar, en nú er gagnfræðanám ekki mikils metið víða.

Það er efalaust margt, sem kæmi til greina að gera til umbóta á bændaskólunum. Án þess að ræða alla kosti og orðlengja það frekar, set ég hér fram tillögur um þetta efni:

 

1. Búfræðingsmenntun verði miðuð við tveggja ára nám fyrir þá, sem lokið hafa gagnfræða- eða landsprófi. Aukning námsefna verði mest í almennum greinum, líffræði, umhverfisfræði, hag- og félagsfræði strjálbýlis og íslensku.

2. Öðrum bændaskólanum verði breytt í menntaskólameð aðaláherslu á búfræði, líffræði, umhverfisfræði, hag- og félagsfræði strjálbýlisins, en veiti að öðru leyti almenna menntun í raungreinum, tungumálum og öðru sem telst til nauðsynlegrar fræðslu á menntaskólastigi. Ef bændaskólinn á Hvanneyri yrði gerður að menntaskóla um leið og Samvinnuskólinn á Bifröst yrði gerður að fjögurra vetra menntaskóla, hefðu skólarnir stuðning af kennslukröftum hvors annars. Sérstaklega mundi það henta í tungumálum. Nú þegar er til eða að verða til húsnæði á báðum skólastöðum fyrir fjóra 20 manna bekki. Á milli staðanna er ekki nema hálftíma ferð. Gæti því kennari, sem ekki fær nema hálfa kennslu í greinum sínum, þar sem hann býr, kennt á hinum skólastaðnum tvo eða þrjá daga vikulega. Því miður mundi skóli á Hólum ekki hafa neinn skóla í nágrenninu að styðjast við. Æfingakennsla við menntaskóla á Hvanneyri  mundi geta stuðst við þá rannsóknastarfsemi, sem þar er og hlýtur að eflast, en hvor skólinn um sig hefði stuðning af kennslukröftum hins. Menntaskóli á bændaskóla á engan tilverurétt nema stuðst sé við umhverfi skólans við kennsluna, búféð, plöntur og villt dýralíf á landi og í ám og vötnum og sögu og mannlíf í kring.

3. Ef bændaskólinn á Hvanneyri yrði gerður að fjögurra vetra skóla og skólinn á Hólum að tveggja vetra skóla eftir gagnfræðanám, yrði með óbreyttum húsakosti ekki unnt að taka í skólann árlega nema helming þeirra nemenda, sem nú hefja nám þar. Þó að aðsókn ykist ekki frá því, sem nú er, yrði með þessu þörf fyrir nýjan bændaskóla. Kæmi þá röðin að Sunnlendingum, og þykir ýmsum mál til komið.

Frey 66 (1970) 466