Á Akureyri var helsta verslunargatan, Hafnarstræti, göngugata í nokkur ár. Svo vildu menn leyfa aftur bílaumferð þar, en skoðanir voru skiptar og, vel að merkja, tvískiptar. Á skipulagsstofu bæjarins var rætt um skoðanakönnun. Fyrst var spurningin, hverjir væru marktækir. Var það verslunarfólkið í Hafnarstræti, allir akureyringar eða eitthvað þar á milli? Hvað sem því leið, var álitið, að raðval hentaði ekki, þar sem kostirnir í málinu væru aðeins tveir. Að vísu mætti útfæra hvorn kost á ýmsa vegu, en þeir, sem vildu göngugötu, myndu ekki setja neitt bílakstursafbrigðið ofar, og á hinn bóginn mundu bílaksturssinnar ekki setja neitt göngugötuafbrigðið ofar bílakstursafbrigði.
Fólkið á skipulagsstofunni taldi víst, að fylkingarnar væru aðeins tvær. Ef raðval er viðhaft, er lítil ástæða fyrir þá, sem undirbúa skoðanakönnun, að geta sér til um, hvort skoðanir skiptist þannig. Ef sjónarmiðin eru í aðalatriðum tvenn, geta skoðanir engu að síður verið skiptar um það, hvernig útfæra eigi málið. Með raðvali má rata á það, hvað hvor fylking vill helst, með því að setja fram alla raunhæfa kosti, og fylkingarnar þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af því, að það færi aðalandstæðingnum sigur að tjá skiptar skoðanir sín á meðal.
Málið leystist þannig, að bílakstur var leyfður til reynslu frá því fyrir jól og fram á vor. Eftir þá reynslu þótti ekki leika vafi á því, að fólk vildi halda í göngugötuna.
Lýðræði með raðvali og sjóðvali 2003, I.A.8.