Í skrúðgörðum landsins nýtur ekki sólar á gangstígum mikinn hluta ársins, enda þótt sólin skíni á trén. Skipulag skrúðgarða hér á landi hefur ekki lagað sig að því, að sólin skín hér framan í fólk, en í löndum, sem eiga langa skrúðgarðamenningu, skín sólin á sumrin í hvirfil manna. Í skrúðgörðum suðursins gat fólk varið sig fyrir sterku skini sólar. Um aldir bjargaði sólskin á andlitið íslendingum frá kröm, en nú má kaupa ígildi sólar í fjölbreyttri fæðu og í lyfjabúðum. Eftir situr djúpt í sálinni þrá eftir sólarljósinu. Íslendingar ganga því helst sólarmegin á eigin borgargötum, og þeir forðast skuggsæla göngustíga skrúðgarða.

Ég nefni nokkur göngusvæði, sem ég nýti mér, þar sem maður lendir gjarna í skugganum þegar í ágúst og bíður lengi á vorin eftir því, að sólargeislarnir lyfti sér yfir trén. Í skrúðgarðinum í Laugardal í Reykjavík hafa trén teygt sig æ hærra, svo að sólar nýtur illa á göngustígum. Eins er á Klambratúni. Á heilsuhælinu í Hveragerði er ganga undir stjórn kunnáttumanna fastur liður hjá dvalargestum, það er fyrir hádegismatinn. Þar er orðið til vandræða gróðursælt fyrir gönguflokkinn, til að njóti sólar, það á við um götur þorpsins og Reykjaland.

Skógi vaxinn Noregur er póstkortaland. Á ferð í bíl eða járnbrautarlest fær maður sjaldan meira en andartaks sýn á fagurt land; annars byrgja trén útsýnið. Þessi andartök eru seld á póstkortum. Á Íslandi hefur skógur óvíða byrgt sýn. Í fyrrahaust ók ég dag einn um miðjan nóvember úr Reykjavík snemma morguns austur í Skaftafellssýslu. Himinninn var heiður. Dagrenningin var hæg og löng. Það var fyrst í Mýrdal, að sólin mætti manni í háaustri. Á leið um Flóa, Holt og Rangárvelli blasti við víður fjallahringur, í Holtunum lítillega skertur af tráreitum. Ég fór þarna aftur um daginn, farþegi í bíl. Þá tók ég eftir því, að fyrir norðan þjóðveginn á Rangárvöllum hafa allvíða verið gróðursett tré. Þau eru enn lágvaxin, en fyrr en varir má búast við, að þau verði hærri en venjulegur bíll. Þá lokast bílfarþegum sýn á fjallahringinn nema á efri hæð í tveggja hæða bílum. Síðari tíma menn munu ekki sakna þessa, þar sem þeir munu ekki hafa hugmynd um þá dýrð, sem nú getur mætt auganu. Á Suðurlandi hefur sýn til fjalla reyndar þegar lokast vegna trjáræktar, svo sem á leiðinni upp að Flúðum, og ógnin vex hratt í Biskupstungum. Þannig breytist útsýnislandið Ísland í póstkortaland.

Morgunblaðinu 25. ágúst 2012