Hvernig á að kjósa, þegar um fleira en tvennt er að velja? Ísafjarðarsöfnuður var, eins og kunnugt er, í slíkum vanda, þegar ákveða átti kirkjubyggingu eftir brunann. Sóknarnefnd tók það ráð að leggja fyrir safnaðarfólk til samþykktar þá hugmynd, sem hún vann að. Þegar henni hafði verið hafnað, voru menn litlu nær um það, hvaða úrræði söfnuðurinn kysi. Hugsanlegt er, þegar mál er lagt fyrir á þennan hátt, að alltaf myndist meirihluti um að hafna því, sem lagt er fyrir til samþykktar, en að sá meirihluti geti ekki sameinast um neitt annað. Samt þarf að ákveða eitthvert þessara úrræða.
Ég hef unnið fræðilega að slíkum málum. Ég hef lagt mig sérstaklega eftir aðferð, sem franskur stærðfræðingur hugsaði út og rökstuddi og tekin var í notkun í Vísindafélagi frakka skömmu eftir byltinguna þar í landi fyrir tveimur öldum. Hún var þó skamma stund í notkun, því að Napóleon beitti sér fyrir afnámi hennar fljótlega eftir að hann var kosinn í félagið (í aflfræðiskor raunvísindadeildar). Hann réð því eins og öðru, sem hann vildi þar í landi á þeim árum, en rök hans hafa þótt dularfull.
Fræðimenn víða um heim, rökfræðingar, stærðfræðingar, hagfræðingar og aðrir, hafa fjallað mikið um þessa aðferð vegna ýmissa kosta hennar, en ég mun einn um það að hafa flutt mig frá skrifborðinu og fengið hana notaða í raunhæfum vanda félagsskapar. Við Kjartan Stefánsson stærðfræðingur sömdum grein um málið og birtum hana nýlega í tímariti norskra stjórnmálafræðinga.
Kjartan kom að málinu, þegar hann var nemandi í menntaskólanum við Sund sem formaður nemendaráðs. Nemendur 4. bekkjar áttu að ákveða, hvernig ráðstafa skyldi tekjum nemenda af verslun vetrarins, og komu fram 9 tillögur. Hann kunni ekki ráð til að leggja svo margar tillögur fyrir nemendafélagið, á annað hundrað manns, en frétti þá af aðferð frakka, sem ég hafði kynnt í Lesbók Morgunblaðsins. Hann sannfærðist um ágæti aðferðarinnar og sannfærði einnig félaga sína, og voru greidd atkvæði samkvæmt henni. Fékkst niðurstaða í málinu sem þótti réttmæt.
Aðferðin er sú, að þátttakendur merkja á atkvæðaseðli við þá kosti eða þær tillögur, sem í boði eru, setja 1 við þann, sem þykir bestur, 2 við þann næsta og svo niður á við. Við talningu fær efsti kosturinn jafnmörg stig og kostirnir, sem hann er tekinn fram yfir. Ef kostirnir eru 5, fær efsti kosturinn, sá, sem kjósandi merkir með 1, 4 stig, næstefsti kosturinn, sá, sem kjósandi merkir með 2, fær 3 stig, o. s. frv., en neðsti kosturinn, sá, sem kjósandi merkir með 5, fær ekkert stig. Stigatalan verður þannig líkt og á skákmóti, þar sem allir tefla við alla.
Ég athugaði málsatvik á Ísafirði síðastliðið sumar og kynnti svo sóknarnefnd frönsku aðferðina með grein okkar Kjartans. Ég held mér sé óhætt að segja, að þeim tveimur sóknarnefndarmönnum, sem ég ræddi við, Birni Teitssyni og Gunnlaugi Jónassyni, hafi litist svo á, að aðferðin hefði komið sér vel í fyrravetur. Hins vegar töldu þeir ekki fært að fitja upp á henni nú, þar sem söfnuðurinn hefði þegar hafnað einum kostinum, en sá kostur ætti vitaskuld að vera með í slíkri atkvæðagreiðslu ásamt hinum kostunum, sem komið hafa til greina í sóknarnefnd og á safnaðarfundum.
Ég skil afstöðu þeirra vel. Fólk er vitaskuld tregt til að reyna óþekkta aðferð, þótt ekki bætist við að hafa með úrræði, sem þegar hefur verið hafnað með annarri aðferð. Engu að síður þykir mér rétt að skýra ísfirðingum frá þessu.
Bæjarins besta 4. apríl 1990