Vissulega er hagræði að því fyrir okkur Reykvíkinga í flugferðum innanlands að hafa flugvöll svo að segja í miðri borg. En annað fylgir því að hafa flugvöllinn við Skerjafjörð, sem ekki er eins æskilegt. Land borgarinnar hefur orðið að þenjast miklu meira upp um hollt og móa en orðið hefði ef flugvallarlandið hefði mátt nýta fyrir aðra starfsemi. Mikið af flugumferðinni er æfingarflug og óttast ýmsir flugslys í borginni. Ef byggja mætti á flugvallarsvæðinu yrði síður ástæða til að byggja í gömlu hverfunum yfir ýmsa starfsemi sem á heima miðsvæðis í borginni. Því má ætla að borgaryfirvöld fengjust til að fara mildari höndum við endurnýjun gömlu hverfanna en nú er ráðgert og ýmsum fellur þungt.

Þetta mál kemur Suðurnesjamönnum vel við. Þeir sem hafa viljað fá flugvallarsvæðið við Skerjafjörð til afnota fyrir ýmsa mikilvæga starfsemi og fyrir íbúðarhverfi, hafa athugað um annað flugvallarsvæði í nágrenni Reykjavíkur, en flugvallargerðin mundi vitanlega kosta stórfé. Nú hefur komið fram sú hugmynd að nota Keflavíkurflugvöll fyrir innanlandsflug og leggja sporbraut milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, þar sem lest flytti fólk og farangur á milli á 20 mínútum. Þótt brautin kosti allmikið er margt sem sparast í Reykjavík við að fá flugvallarsvæðið til annarra afnota og þyrfti að áætla það í kostnaðartölum.

Þegar þetta mál hefur verið rætt í Reykjavík er oft mælt gegn því að innanlandsflugið flytjist þaðan, þar sem hagræði sé að því að lenda í borginni og að geta lagt upp til baka fyrirvaralítið. Ég skal ekki dæma um allar ástæður landshlutana, en ég vil vekja athygli Suðurnesjamanna á hagsmunum þeirra. Ef Keflavíkurflugvöllur yrði í senn miðstöð innanlandsflugs og utanlandsflugs mundi ýmis starfsemi sem tengir Norðurland, Austurland og Vestfirði við útlönd vera betur sett á Suðurnesjum en í Reykjavík. Ég skal nefna dæmi.

Oft yrði auðveldara að skipuleggja komur erlendra ferðamann með því að byrja ferðina ekki í Reykjavík, heldur fljúga strax til Norðurlands, Austurlands eða Vestfjarða. Það liggur hins vegar illa við að skipuleggja ferðir þannig, þar sem fólkið þarf fyrst að fara til Reykjavíkur og þá fer þannig að ferðin hefst með gistingu þar og oftast akstri þaðan. Ef Keflavíkurflugvöllur yrði sams konar miðstöð áætlunarflugs innanlands og Reykjavíkurflugvöllur er nú, mundi oft liggja vel við að skipta um flugvél við komu til landsins og fljúga áfram út á land, en enda ferðina í Reykjavík. Með nýjum ferðaháttum gæti orðið grundvöllur fyrir gistihús á Suðurnesjum. – Oft gæti líka verið hagræði að því fyrir norðlendinga, vestfirðinga og austfirðinga sem ferðast til útlanda, að spara sér krókinn um Reykjavík. Eins er með vöruflutninga með flugvélum sem fara vaxandi. Að þeir tefjast af því að fara um Reykjavík.

Lagningu sporbrautarinnar fylgdu umsvif verktaka og atvinna í nokkur ár. Ég skal ekki dæma um hvort brautin ætti að vera tvöföld frá upphafi. Til að forðast tafir mætti hugsa sér endastöð í annarri ferðinni í Reykjavík, en í hinni ferðinni í Hafnarfirði.

Ég er ekki þaulkunnugur málum á Suðurnesjum, en hér er um framkvæmdir og skipulagsbreytingu að ræða sem virðist geta orðið til heilla fyrir Suðurnes í bráð og lengd. Í mörg horn er að líta áður en komist verður að réttri niðurstöðu. M.a. þarf að athuga hvernig innanlandsflug mætti falla að öðru flugi á vellinum og hvernig mætti laga nýju flugstöðina að því. Vitaskuld mundi málið mæta andstöðu. Þeim Reykvíkingum sem hafa helst kosið að leggja niður Reykjavíkurflugvöll mundi örugglega eflast ásmegin ef Suðurnesjamenn beittu sér í málinu.

Hér er um stóra ákvörðun að ræða. Orð eru til alls fyrst, en framhaldið er í höndum Suðurnesjamanna.

Víkurfréttum 3. júlí 1986