Það þarf að tryggja gistingu á einum bæ í öllum venjulegum sveitahreppum landsins fyrir þá sem vilja ferðast ódýrt, hvort sem þeir eru á bíl, ríðandi eða gangandi. Það þarf að skipuleggja gönguleiðir um byggðir og niðri við byggð og tryggja göngumönnum gistingu á bæjum, þannig að þeir þurfi ekki að bera með sér annað en nestisbita. Það vantar reiðleiðir um sveitir með áningarstöðum fyrir menn og hesta og það þarf að hyggja að vetrarferðum um sveitir norðan lands og austan.
Ýmsir gera sér vonir um að íslendingar geti haft góða atvinnu af ferðaútvegi. Í þessari grein ætla ég sérstaklega að ræða, hvaða atvinnu sveitafólk getur haft af ferðaútvegi. Auðvitað verður það að miðast við þá fyrirgreiðslu, sem ferðafólk þarfnast. Eins og er hafa bændur nokkrar tekjur af veiðileigu, en fyrirgreiðsla við veiðimenn veitir litla atvinnu í sveitunum. Óvíða er um að ræða gistingu fyrir almenna ferðamenn í sveitum. Er það helst í Mývatnssveit að heimamenn hafa nokkra atvinnu af ferðaútvegi, en annars staðar, þar sem um almenna gistingu er að ræða, fer hún víðast fram í heimavistarskólum undir forstöðu aðkomufólks. Til þess að auka gistirúm í sveitum landsins hafa yfirvöld ferðamála styrkt byggingu og búnað sumra heimavistarskóla. Hefur það auðvitað komið sér vel. Enn meiri stoð yrði að slíku fyrir sveitirnar ef sama fólk sem stendur fyrir heimavist á skólum að vetrinum veitti móttöku ferðamanna að sumrinu forstöðu. Tryggir það auðvitað betur fjárhag og atvinnu viðkomandi sveita að ráða þannig þessum atvinnurekstri.
Það er nýtt í málinu, að tala um ferðaútveg sem sérstaka atvinnugrein á borð við sjávarútveg, landbúnað, iðnað og verslun. Ferðaútvegur er atvinnuvegur sem er í vexti víða um lönd. Vöxtur atvinnulífsins er eins og kunnugt er mestur í þéttbýli um þessar mundir. Margir gera sér hins vegar vonir um, að ferðaútvegur sé sá atvinnuvegur, sem eigi ekki síður vaxtarskilyrði í strjálbýli en í þéttbýli. Þó verður ekki sagt, að þess gæti verulega hér á landi. Gistihúsabyggingar eru mestar í þéttbýli, og verkalýðsfélög og einstaklingar koma sér upp sumarbúðum víða um land, án þess að því fylgi nokkur atvinna í sveitunum. Nýlega hafa nokkrir alþingismenn hvatt til hópferða íslendinga að vetrarlagi til útlanda. Á það meðal annars að bæta fjárhag íslensku flugfélaganna. Aðrar leiðir til þess væru vissulega æskilegri en ýta undir gjaldeyrisnotkun landsmanna, enda er tilveruréttur flugfélaganna íslensku fyrst og fremst sá að afla landsmönnum gjaldeyris.
Þeir sem fara um sveitir Íslands á bíl, geta nú gert sig meira eða minna óháða fyrirgreiðslu þess fólks, sem verður á braut þeirra, með ýmsum útbúnaði, tjöldum sem eru að verða eins og heil hús, viðleguútbúnaði og matarbirgðum. Það er því ekki neitt sjálfsagt og óhjákvæmilegt, að aukin atvinnu- og tekjuskilyrði í sveitum landsins, heldur kann hún, ef ekki er sinna á þessum málum af hendi sveitafólks, aðeins að færa með sér aukið ryk á vegunum, aukinn átroðning og landspjöll. Í þessum þætti ætla ég að ræða nokkra kosti, sem virðast vera fyrir sveitafólk að auka atvinnu í sveitum af ferðaútvegi.
Margir sem fara um landið, finna til þess að langt er milli almennra gististaða, og oft verða menn að leita gistingar í þorp og kaupstaði, - kunna ekki við að beiðast gistingar, þar sem ekki er auglýst móttaka ferðamanna, en vildu þó helst gista í sveit, - þykir það skemmtilegra og eðlilega oft hentugra. Víða í sveitum er þó viðunandi gistirými og skortur á arðbærum verkefnum. Ég minni á það, að niðurstöður Búreikningastofu landbúnaðarins sýna að bændur og þeirra lið hefur almennt ekki nema 30-40 krónur á tímann fyrir vinnu sína við búskap. Það þarf því ekki að vera merkileg atvinna, sem menn hafa af gistingu og greiðasölu til þess að hún geri betur en búskapurinn. Samkvæmt reynslu norðmanna eru yfirburðir sveitaheimila við ferðaútveg þeir, að þar er nýttur húsakostur, sem er til hvort sem er, - húsaleiga er því lítil sem engin, og leitast er við að láta matreiðslu fyrir heimilisfólk og ferðafólk fara saman. Matarins má neyta á tveimur stöðum, ef vill. Slík fyrirgreiðsla miðast aðeins við það ferðafólk, sem ekki gerir miklar kröfur. Vegna lítils tilkostnaðar getur hún orðið sæmilegt búsílag, þó að verðlag sé ekki haft hátt. Til þess að einhver brögð geti orðið að slíkum ferðaháttum, þarf að vera hægt að ferðast um allt landið á þennan hátt. menn þurfa að geta fengið ferðabækling með yfirliti yfir alla slíka ódýra gististaði með auglýstu verðlagi. Um leið þarf að sjá þeim sem taka á móti fólkinu fyrir leiðbeiningum um kost og gistingu, svo að bæði ferðafólk og gestgjafar viti hvers vænta má. Búnaðarfélag Íslands ætti með aðstoð menntaðs ferðamálamanns og héraðsráðunauta að tryggja í öllum venjulegum sveitahreppum landsins einn gististað af þessu tagi og leiðbeina gestgjöfum um móttöku gesta, aðbúnað og matreiðslu.
Frá öðrum löndum er vitað, að aðstaða slíkra gestgjafa, sem nota eigin húsakost og vinnuafl heimilisfólks, er mjög sterk í samkeppni við venjulegan gistihúsarekstur. Hefur því komið fyrir, að reynt hafi verið að bregða fæti fyrir þá starfsemi af stærri gistihúsaeigendum. Til að halda þessum litlu keppinautum niðri eru alls konar opinberar reglugerðir hentugar, til dæmis reglugerð um útbúnað á gististöðum. Vel mætti samt setja reglugerð um útbúnað vegna auglýstrar gistingar á sveitabæjum á þess að spilla fyrir. Þær reglur skyldu fyrst og fremst vera til þess gerðar, að gestir viti á hverju þeir megi eiga von. Það er þekkt úr öðrum löndum, að gististaðir eru flokkaðir og gerðar misstrangar kröfur til útbúnaðar á þeim. Eins mætti gera hér. – Þess má geta, að Flugfélag Íslands hefur nú byrjað að útvega erlendum ferðamönnum gistingu á sveitabæjum. Er þá um að ræða dvöl um nokkurra daga skeið á sama stað. Ég hef hins vegar í huga jöfnum höndum dvöl um lengri eða skemmri tíma og næturgistingu með kvöldverði og morgunmat, þar sem menn geta nestað sig til dagsins. Mér virðist, að þeir sveitabæir sem Flugfélagið býður erlendum ferðamönnum til gistingar í sumar, séu betur hýstir en nauðsynlegt er á óbreyttum gististöðum.
Annar ferðaháttur sem ekki er greitt nóg fyrir í sveitum landsins er skipulagðar gönguleiðir. Menn telja að vísu að íslendingar séu ekki mikið fyrir göngur, en hitt er víst, að hér á landi er ekki boðið upp á skipulagðar gönguleiðir eins og gert er í Noregi og í Svíþjóð og víðar, þar sem menn geta gengið milli náttstaða án þess að bera með sér meira en nestisbita og klæði. Ég tel hins vegar víst, að slíkar leiðir yrðu vinsælar hér á landi, ef þær kæmust á. Það er mikið fyrir skort á fyrirgreiðslu í sveitum, að allur fjöldinn af ferðafólki hefur undanfarið leitað inn í óbyggðir. Veðrátta í byggð og niðri undir byggð er hér á landi einmitt við hæfi göngufólks og lík því sem er á vinsælustu gönguleiðum til fjalla í Noregi. Gönguleiðirnar þarf að skipuleggja þannig, að hæfilega langt sé á milli náttstaða, en það eru 20-30 kílómetrar. Í náttstað eiga menn að geta fengið aðalmáltíð dagsins um kvöldverðarleytið eða litlu fyrr og morgunmat áður en lagt er upp að morgni og nestað sig um leið til dagsins. Til að létta af mönnum viðleguútbúnaði og tryggja hreinlæti í náttstað má nota það fyrirkomulag, sem tíðkast á skipulögðum gönguleiðum í Noregi. Þar bera menn með sér tvö lök eða lakapoka, sem þeir liggja í, en fá í náttstað lánaðar ofan á sig ábreiður í rúmið. Húsakynni mega vera fábrotin; má jafnvel innrétta fjós til gistingar, og göngumótt fólk þarf ekki upphituð herbergi að sumarlagi. Nauðsynlegt er að gönguleiðirnar sneiði hjá bílaleiðum. Ég nefni nokkur dæmi um álitlegar gönguleiðir, sem liggja bæði í byggð og niðri undir byggð.
Ein leiðin gæti byrjað fyrir austan Reykjavík á Mosfellsheiði, ganga þaðan yfir í Kjós og yfir fjall í Brynjudal og Botnsdal í Hvalfirði, þaðan áfram upp á Botnsheiði um Síldarmannagötur niður í Skorradal, yfir Englandsháls eða frá Háafelli til Lundarreykjadals, yfir Lundarháls um framanverðan Flókadal til Reykholtsdals um Hálsasveit í Húsafellsskóg. Úr Húsafellsskógi má halda í Hvítársíðu yfir Síðufjall að Kjarrá og niður í Þverárhlíð, þaðan yfir að Hreðavatni og fylgja síðan efstu byggð á Mýrum eða krækja í Langavatn og Hítárvatn, halda svo inn í Hnappadal og ef til vill þaðan vestur í Dali. Þetta eru einar 10-15 dagleiðir, sem menn geta gert sér miserfiðar með því að krækja upp á fjöll sem á leið verða. Ég tek það fram að ég er ekki kunnugur að hluta á þessari leið og veit því ekki gerla, hvar hentugast er að leggja leiðina, þar sem þurrt er og merkilegir staðir verða séðir. Leiðina þarf að merkja vel bæði á korti og sjálfa leiðina og tryggja gististaði á henni. Á þeim ættu þeir sem koma úr næsta náttstað að eiga forgangsrétt fyrir öðrum ferðamönnum.
Aðra gönguleið þarf að skipuleggja frá Akureyri. Mér virðist álitlegt að leggja hana austur í Þingeyjarsýslu, fara úr Kaupangssveit yfir í Fnjóskadal um Bíldsárskarð, fram dalinn og yfir fjall til Bárðardals. Úr Bárðardal þyrfti að finna greiða leið um Mývatnsheiði til Mývatns og síðan niður Laxárdal, norður í Þeistareyki, en þar yrði gist í óbyggðum, og áfram í Kelduhverfi. Hér er um 7-8 dagleiðir að ræða. Á Vestfjörðum virðast víða álitlegar leiðir. Mætti þá oftast fara með sjó, en bregða sér iðulega yfir hálsa og fjöll í aðrar sveitir. Krókóttar strendur Barðastrandarsýslu og Ísafjarðardjúps eru freistandi gönguleiðir og hæfileg ganga yfir hálsa og heiðar á milli.
Það er mikilvægur kostur við slíkar gönguleiðir sá félagsskapur, sem menn leita og finna á þeim bæði á göngu og í áfangastað. Eins og kunnugt er hefur borgarbragur hér á landi og í næstu löndum breyst undanfarið þannig, að nú þykir mörgum ekki líft heima við nokkurn frídag enda heimilin fámenn. Menn eiga heldur varla nokkra nágranna og eiginlegt mannlíf úti við er mjög fátæklegt. Þess vegna hafa þeir ferðahættir sem bjóða upp á nokkurn félagsskap, meira til síns ágætis en einkabílaferðir um þjóðvegina, þar sem einkabíllinn er eins og einangrunarklefi, sem menn stíga inn í að lokinni áningu.
Það er auðvitað mest um vert fyrir sveitafólk að efla þá ferðahætti, þar sem notast er við gæði landsins. Athygli manna hefur þá löngum beinst að veiðiskap í ám og vötnum, og er óþarfi að ræða það frekar í þetta sinn. Ferðir á hestum þyrfti líka að skipuleggja, svo að þær gætu aukið eftirspurn eftir gistingu í sveitum, eftir hrossum, tömdum og ótömdum og hestahögum. – Vegna girðinga og bílastraums um allar sveitir er landið nú síst greiðfærara fyrir ríðandi menn en það var meðan allar ár voru óbrúaðar. Hestamenn hafa því beint ferðum sínum meira inn á afrétti og óbyggðir, þar sem girðingar og bílaumferð eru til minni trafala. Nauðsynlegt er til að auka ferðir hestamanna um sveitir að merkja reiðgötur, opna girðingar fyrir ríðandi mönnum, þó að þær haldi eftir sem áður sauðfé og lausum hrossum, og tryggja áningarstaði fyrir menn og hross. Kæmi þar auglýst gjald ekki aðeins fyrir menn, heldur líka hrossin. Á einhvern hátt þyrfti að bæta bændum sem eiga land á reiðleiðinni, aukinn átroðning og beit, til dæmis að þeir myndi með sér félag, sem fái arð af gististöðum hestamanna. Gönguleiðin sem ég lýsti um Borgarfjörð úr Mosfellssveit og vestur á Mýrar og í Hnappadal, mætti um leið verða fyrsta reiðliðin, sem skipulögð yrði þannig. Hún gæti svo haldið áfram vestur í Dali. Hestamenn þyrftu að geta fengið sams konar fyrirgreiðslu og göngufólkið til að spara farangur sem mest. Önnur kjörin reiðleið er um Suðurland. Mætti hún líka byrja í Mosfellssveit, liggja austur Mosfellsheiði í Þingvallasveit og Grafning, um Lyngdalsheiði til Laugardals, með hlíðum í Biskupstungum austur að Brúarhlöðum og niður Hreppa, austur að Búrfelli og niður Land og Rangárvelli niður í Landeyjar. Mætti þar eða undir Þríhyrningi vera endastöð eða öllu heldur miðstöð hestamanna. – Grösugar sveitir Húnavatnssýslu bíða eftir að reiðleiðir verði skipulagðar þar. Gæta verður þess að sneiða hjá fjölförnum bílvegum. Í Húnavatnssýslu má fara úr Miðfirði norður á Vatnsnes og inn í dalina, Víðidal, Vatnsdal, Svínadal, Blöndudal, Svartárdal og Laxárdal og út á Skaga og þar yfir til Skagafjarðar. Þó að ég nefni fleiri en eina leið sem til greina koma, er trúlega hyggilegt að skipuleggja aðeins eina leið í einu og bíða með að skipuleggja og auglýsa nýja leið, þangað til ferðir eru orðnar tíðar á fyrstu leiðinni og nýting gististaða nokkur.
Þeir ferðahættir sem ég hef rætt, hafa allir miðast við sumartímann, - geta þó staðið fram í september. Æskilegt væri að vetrarferðir í snjó gætu hafist í þeim sveitum, sem snjóalög og landslag leyfir. Í mars og stundum fram eftir apríl hefur undanfarin ár mátt fara á skíðum um sumar sveitir norðan lands og austan. Mætti íhuga, hvort ekki mætti koma á vetrarferðum um sveiti Suður-Þingeyjarsýslu til að byrja með, þar sem menn gistu á bæjum við lík skilyrði og á sumargönguleiðum. Suður-Þingeyjarsýsla er álitlegust vegna snjóalaga, landslags og skipunar byggðarinnar, en fleiri héruð kunna að koma til greina eins og úthluti Eyjafjarðar, miðhluti Strandasýslu ásamt dölum Austur-Barðastrandarsýslu og Fljótsdalshérað. Þar sem snjóalög eru svo breytileg frá ári til árs, þyrfti vafalaust að haga seglum eftir vindi og beina vetrarferðunum þangað hverju sinni sem snjóalög eru heppilegust. – Reiðleiðirnar mætti skipuleggja í samráði við Landssamband hestamanna, en vetrarferðir ætti að reyna að láta fylgja sumargönguleiðum, svo að gestatíðnin geti orðið sem lengst á þeim bæjum sem hefðu almenna gistingu.
Ég vil ekki nefna neinar tölur um verðlag, sem eðlilegt væri að hafa á óbreyttum gististöðum í sveitum, en ekki þarf marga gesti á nóttu, til þess að reytist saman í sæmilegt mánaðarkaup. Ég hef ekki fleiri orð um þá kosti sem bjóðast sveitafólki til að hafa atvinnu og tekjur af ferðaútvegi, en rifja upp þá ferðahætti sem álitlegastir sýnast. Í fyrsta lagi þarf að tryggja gistingu á einum bæ í öllum venjulegum sveitahreppum fyrir þá sem vilja ferðast ódýrt, hvort sem þeir eru á bíl, ríðandi eða gangandi. Í öðru lagi þarf að skipuleggja gönguleiðir um byggðir og niðri við byggð og tryggja göngumönnum gistingu á bæjum, þannig að þeir þurfi ekki að bera með sér annað en nestisbita. Í þriðja lagi vantar greiðar reiðleiðir um sveitir með áningarstöðum fyrir menn og hesta, og í fjórða lagi þarf að hyggja að vetrarferðum um sveitir norðan lands og austan. Mikilsvert er að vanda svo til í upphafi að þessir ferðahættir mæli með sér sjálfir.
Vikunni 21 1970